Hælavík
Efnisyfirlit
Hælavíkurbjarg skagar norður í haf og heldur að Hornvík að vestan. Það minnir á Hornbjarg að því leyti, að þar myndast nes langt með þverhníptu bjargi austan á, en strönd með aflíðandi brekkum og hjöllum, víða allgrösugum, vestan á. Skammt fyrir innan nestána að vestan verður lítil vík í nesið sjálft. Það er Hælavík. Þar hefur lengi verið byggður bær við litla landkosti, en í námunda við auðugt fuglabjarg og allmikla von um sjávarafla, ef vel viðraði.
Nafn þessarar jarðar hefur tekið nokkrum breytingum. Fyrr á öldum er hún ýmist nefnd Heljarvík eða Hælarvík. Hælarvík verður síðan einrátt nafn hennar um langan aldur, en nafnið Hælavík kemur fyrst fyrir á síðari hluta 19du aldar og hefur fljótt sigrað, svo að nú viðrist einsætt að halda því. Óljóst er, hvað nafnið merkir, en hér skal getið um tvær skýringar á nafninu Hælarvík, sem lengst var notað samkvæmt heimildum. Bergstandur norður af Hælarvíkurbjargi nefnist Hæll. Hafa margir talið, að víkin væri við hann kennd, og sú mun hafa verið almennust skoðun á þessum slóðum. En ef. hælar af hæll hef ég hvergi fundið í orðabókum, svo varla er unnt að fullyrða, að þessi kenning sé rétt. Miklu ótrúlegri virðist þó sú skýring, að nafnið sé dregið af hvorugkynsorðinu hæli, sem hlyti þá að hafa haft annað kyn áður, a.m.k. jafnframt.
Heljarvík er nefnd í Skálholtsannál við árið 1321:
kom hvíta biorn mikill af isum norðr a Strondum. ok drap. viiij. menn i Heliar vik. ok reif i sundr. ok át upp svma alla.
Flateyjarannáll bætir við:
Hann var drepinn a Vitalis messo.
Næst er víkin nefnd í rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju árið 1327.
Þessa reka aa kirkia j watsfirdi at halfu viþ heimaland . . . J helarvik allan hvalReka oc gieþi onnor.
Þessi ummæli túlkaði Stefán biskup Jónsson á þann veg, að jörðin væri eign Vatnsfjarðarkirkju. Setti hann kirkju þeirri máldaga árið 1509 og gerði um leið þennan úrskurð um Hælavík.
Er greinilega farið eftir rekaskránni frá 1327, því að svo segir orðrétt:
stod sva skrifad j maldaganvm at kirkian j vatzfirdi aä allan hvalreka j hælarvik og aull gædi avnur.
Svo sem kunnugt er, stóðu um þetta leyti harðvítugar deilur milli Stefáns biskups og Björns Guðnasonar í Ögri um svokallaðar Vatnsfjarðarjarðir. Helzti stuðningsmaður Björns var Jón Sigmundsson lögmaður. Árið 1514 stefndi Björn sr. Jóni Eiríkssyni í Vatnsfirði að mæta á Öxarárþingi fyrir lögmanni fyrir upptöku á ýmsum jörðum, sem Björn taldist eiga. Þar segir hann orðrétt:
... hier til hefr þu gripid fyrer mier jordena hælarvik.
Auk þessara deilna við kirkjuvaldið átti Björn í erjum við frændur sína, einkum Björn Þorleifsson, Björnssonar ríka 1467. Var hún meðal jarða, er Þorleifur og Árni, synir hans, fengu í sinn hlut. En Björn Guðnason taldi sig réttan erfingja Þorleifs, móðurbróður síns, þar eð börn hans væru í meinum getin.
Annars er óþarfi að rekja þessar deilur frekar. Þeim lauk með sigri biskups. Vatnsfjarðarkirkja varð eigandi Hælavíkur og hefur verið það síðan.