Kolbeinn Jónsson
Kolbeinn Jónsson. F. 1689. Var á lífi 1753. Foreldrar: Jón Þorbjörnsson bóndi í Efri-Miðvík og kona hans Guðrún Jónsdóttir.
Börn: Bjarni Kolbeinsson. Jósef Kolbeinsson. Jón Kolbeinsson bóndi á Hesteyri. Þorsteinn Kolbeinsson. Sigríður Kolbeinsdóttir og Sigþrúður Kolbeinsdóttir, konar Magnúsar á Skjaldfönn.
Kolbeinn bjó í Rekavík 1735 og hefur þá líklega verið búinn að búa þar um nokkurt árabil. Um fjölskyldu hans og heimili spannst eina morðmálið, sem vitað er um í Sléttuhreppi.
Vorið 1744 komu tvær persónur á báti í Rekavík, Sveinn Jónsson og Sigríður Jónsdóttir. Þau höfðu strokið úr Arnarfirði og leituðu þarna skjóls. Tók Kolbeinn við þeim. Sigríður dó í Rekavík, en Sveinn komst til hollenzkra með hjálp Kolbeins bónda. Löngu seinna kvisaðist að Bjarni Kolbeinsson hefði orðið Sigríði að bana. Það var ekki fyrr en 1760 að mál þetta var rannsakað. Bárust öll bönd að Bjarna, en hann mun hafa þverlega neitað allri sök. Hann var dæmdur til lífláts á Sléttuþingi og staðfesti lögmannsdómur. En hæstiréttur breytti endanlega dómnum í tveggja ára betrunarhúsvist í Reykjavík. Þá hegningu þoldi Bjarni, og hefur þau ár unnið að byggingu hegningarhússins í Reykjavík, nú stjórnaráðshússins. Að lokinni refsivistinni slapp Bjarni, en ekki er vitað, hvað af honum þá varð. Áður en hann var tekinn fyrir morðsökina, var hann sakaður og klagaður af sér Snorra Björnssyni á Stað í Aðalvík fyrir barneignir og vanrækslu á kirkjusókn.
Kolbeinn hefur líklega leitað norður á Strandir, að Horni, eftir atburðina í rekavík. Þar bjó hann 1753, en var dáinn 1760, þegar rannsóknin á morðmálinu hófst.
Óljósar sagnir hafa geymzt í Sléttuhreppi um þá feðga, Kolbein og Bjarna, en þar hafa þeir verð nefndir stundum öðrum nöfnum.