Staður

Úr Slttuhreppur
Útgáfa frá 22. apríl 2025 kl. 16:27 eftir Ingvi (Spjall | framlög) Útgáfa frá 22. apríl 2025 kl. 16:27 eftir Ingvi (Spjall | framlög)
Jump to navigation Jump to search

Milli Nasa og Lækjarfjalls gengur fagur og grösugur dalur langt fam í hálendið. FJöllin girða hann á báða vegu, há og brött, en fyrir botni hans er fjallgarður, lægri, og nokkurn veginn greiðfært upp úr honum á heiði þá, er liggur milli Aðalvíkur og Sléttu. Dalurinn heitir Staðardalur. Fyrir honum miðjum er laglegt stöðuvatn, langt (á að gizka 1 km), en mjótt. Úr því rennur Staðará til sjávar út úr mynni dalsins. Norðan vatnsins stendur kirkjustaðurinn og prestsetrið Staður. Þar er búsældarlet, a.m.k. að sumarlagi, graslendi vítt og gróðursælt meðfram öllu vatninu og inn fyrir botn dalsins. Þessi dalur hreif Steingrím biskup Jónsson, er hann ferðaðist um Vestfirði sumarið 1790. Hann segir svo:

Fegurst var, að mér þókti, í Holti í Önundarfirði, líka nokkuð í Vatnsfirði, en af hinum öðrum var þó jafnafallegast í Aðalvík, því þar er dalurinn grasi vaxinn meir en annars staðar. Heyskapurinn varþar góður að nýtingu, en lítill að nokkru leyti að vöxtum, þar var skelfilega snöggt, ljáirnir ekki lengri en sem vænn melsigður. Skelfing var þar fyrir vestan af berjum.

Elzta heimild um kirkju í Aðalvík er kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá 1200. Er ekki annað vitað en þar hafi æ síðan verið kirkja og prestsetur, þar til sóknin lagðist í eyði. Hér verður saga kirkjunnar ekki rakin, en reynt verður að gera grein fyrir sögu jarðarinnar á sama hátt og annarra jarða.

Í Sturlungu er getið Magnúsar prests í Aðalvík og Snorra, sonar hans, er gerðist fylgdarmaður Órækju Snorrasonar, varð ósáttur við hann og fór aftur til föður síns. En Órækja fór til Aðalvíkur að Snorra. Snorri stökk af bænum „ok vildi til sjávar á gnúpinn milli Aðalvíkr og Miðvíkr. Þar mátti ekki ná honum“. Hefur Snorri þá verið vestan á Hvarfanúpi. Snorri náðist þó og var veginn.

Elzti máldagi Aðalvíkurkirkju er frá 1286 og hefur kirkjan þá talizt eiga helming í heimalandi. Hið sama segir í Vilkinsmáldaga 1397. Árið 1458 er Staður í Aðalvík talinn meðal jarða Vatnsfjarðar Kristín Við skipti eftir Björn ríka 1467 hefur Staður fallið í hlut Þorleifs og Árna, sona hans.

Í erfðaskrá Solveigar Björnsdóttur 1495 segir að hún gefi sonum sínum, Jóni og Þorleifi (Pálssonum) Stað í Aðalvík fyrir hundarð hundraða „og hier med ogur og adaluik og jordum“. Solveig hefur þannig tekið Stað að erfðum eftir Þorleif, bróður sinn. Frá 1495 er einnig skrá um kirkjur, er Páll Jónsson á Skarði, maður Solveigar, og Jón danur Björnsson áttu að svara fyrir, og er Aðalvík meðal þeirra. Áður er þess getið, að Björn Guðnason tók umboð af Ólafi Filipussyni árið 1509 fyrir hönd sonar hans, Einars, til arfstilkalls eftir Solveigu, og eru jarðir í Aðalvík taldar meðal þess fjár. Björn yngri Þorleifsson hefur þó talið sig eiga jörðina, því að hún var meðal jarða þeirra, er hann seldi Hans Kruko og Sunnifu hústrú 1505. Staður hefur svo að sjálfsögðu orðið eitt af þrætueplum Björns Guðnasonar og Björns Þorleifssonar, er naut fulltingis biskups. Skal sú saga ekki rakin hér nánar. En 10. marz 1529 keypti Ögmundur biskup af Jóhanni Kruko allar jarðir, góss og peninga, er Hans, bróðir hans, hafði fengið frá Birni Þorleifssyni. Þó hefur þótt leika vafi á, að Staður væri lögmæt eign Jóhanns, því hann segir í afsalsbréfinu:

Er þatt suo at hofudgozit adaluikin, er mig med logum fra komin, sem eg hefur spurt af skiluisa goda menn. eller nockur onnr jord. þa hefur biorn thorleifsson uilkorid sig at Retta þann skadan jgen. et cetera.

Svo undarlega bregður við, að sama ár, 1529, þ. 21. október var gert kaupmálabréf Jóns Einarsson, Þorleifssonar, og Margrétar Björnsdóttur, Þorleifssonar. Samkvæmt því hefur EInar gefið syni sínum jörðina Stað í Aðalvík, 24. hndr., til kvonarmundar. Ekki er að sjá, að faðir brúðarinnar, Björn Þorleifsson, hafi gert nokkra athugasemd við þessa gjöf.