Þorlákur Guðbrandsson, Efri Miðvík
Þorlákur Guðbrandsson, Efri Miðvík, sýslumaður. Fæddur um 1672-3. Dáinn í október 1707.
Foreldrar: Guðbrandur sýslumaður Arngrímsson (hins lærða) og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir.
Kona: Helga, fædd um 167-0, dáin 1707, Bjarnadóttir prests á Höskuldsstöðum.
Börn: Hannes Þorláksson prestur á Staðarbakka. Gunnar Þorláksson í Hlemmiskeiðshjáleigu á Skeiðum. Bjarni Þorkláksson. Elísabet Þorláksdóttir, átti Þorkel Magnússon.
Þorlákur Guðbrandsson lærði í Hólaskóla, fór síðan utan og var við nám í Hafnarháskóla. Var lögsagnari Páls Vídalíns í Dalasýslu, en fékk norðurhluta Ísafjarðarsýslu 15. júlí 1700. Varð að segja upp sýslunni 24. júní 1707. Þau hjón dóu bæði í bólunni.
Þorlákur sýslumaður var skáld. Eftir hann er fyrri hluti Úlfarsrímna.
Þorlákur bjó í Súðavík 1701-1704. Hann fékk umboð Aðalvíkurjarða 2. september 1703 og hefur trúlega flutt í Miðvík vorið 1704. Hann hefur sjálfsagt búið í Efri Miðvík, þótt yfirleitt sé hann kenndur við „Miðvík“. Kann og að vera að hann hafi haft báðar jarðirnar til afnota, en þær voru konungsjarðir. Árið 1710 var Efri Miðvík í eyði og sögð í eyði síðan í bólunni.