Hlöðuvík

Úr Slttuhreppur
Jump to navigation Jump to search

Tvær leiðir liggja frá Hælavík til Hlöðuvíkur og hvorug góð. Með sjó má fara á stórstraumsfjöru yfir bjarg, er skagar í sjó fram og nefnist Hælavíkurófæra. Önnur leið liggur nokkru ofar upp langar brekkur, en ekki mjög brattar. Skyndilega er komið á brekkubrún, og snarhallar þá vestur af. Hér er komið á Skálakamb, einn erfiðasta fjallveg í Sléttuhreppi. Þaðan er fagurt útsýni yfir Hlöðuvík, og sér til Kjaransvíkur og Almenninga. Hlöðuvík er allþröng, fjöll þau, er halda að henni, eru snarbrött, en undirlendi er tiltölulega mikið og grösugt. Að austan gnæfir Skálakambur, sem fyrr segir. Að vestan er Álfsfell; milli þeirra liggur fjallgarður í hálfhring og myndar víkina. Á einum stað sér fyrir litlu skarði í fjallgarðinum. Það er Hlöðuvíkurskarð, leiðin til Veiðileysufjarðar í Jökulfjörðum.

Bærinn í Hlöðuvík stóð lengst af austan undir Álfsfelli, en seint á 19du öldu var reist nýbýli á grundunum vestan undir Skálakambi og nefnt Búðir. Leið þá ekki á löngu, áður en gamli bærinn færi í eyði. Hér þykir fara bezt á að tala um víkina alla í einu, því að lengst af var það aðeins ein jörð.

Hlöðuvíkur er getið í Landnámu og Geirmundar þætti heljarskinns. Þar segir frá því, að Vébjörn Sygnakappi tók þar land ásamt systkinum sínum, áður en hann sigldi skipi sínu í stand við Sygnakleif á Almenningum. Ekki verður séð af þeirri frásögn, hvort byggð hefur verið í víkinni. Sumarið 1239 braut norskur stýrimaður, Ólafur af Steini, skip sitt í „Hlöðuvík við Horn“. Með honum var Guðmundur Ólafsson, sem verið hafði við brennu Þorvalds Vatnsfirðings. Fór Illugi Þorvaldsson til Hlöðuvíkur og vó Guðmund. Ekkert í þessari frásögn bendir til byggðar í Hlöðuvík. Nefnd er þar búð, er þeir félagar virðast hafa haldið til í, því að þangað sótti Guðmundur öxi sína. Hlýtur búð þeirri að hafa verið komið upp til bráðabirgða er skip var brotið. En varla mundu Austmenn hafa skirrzt við að taka hús á bónda í Hlöðuvík, hefði hann einhver verið.

Næsta heimild, sem mér er kunn um Hlöðuvík, er rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju 1327. Samkvæmt henni átti Vatnsfjarðarkirkja sama hlut í hvalreka í Hlöðuvík og Kjaransvík eða sex vættir af hverju hundraði vætta. 5. apríl 1383 gaf Einar Eiríksson í Vatnsfirði Grunnavíkurkikju fjórðung í hvalreka í Hlöðuvík. Í Vilkinsmáldaga fyrir Hrafnseyrarkirkju segir, að Tómas Snartarson hafi lagt þangað sjöttung í hvalreka í Hlöðuvík, og við Grunnavíkurkirkju, að hún eigi

... land allt j Lauduvijk oc vidreka allann. enn halfann hualreka ad fratekinne tuttugustu vætt Vattzfjardarkirkiu.

Veit ég ekki annað að hún sé enn eign kirkjunnar.

Dýrleiki og afgjald.

Í skránni frá 1681 stendur þetta:

Hlöðuvík, leiguliði Eiríkur, landskuld 60 álnir, leigukúgildi 1½ ... 1 fjórðungur, 1½ fiskur.

Í manntali 1703 er jörðin talin 6 hundruð. Í jarðabók 1710 segir svo:

Landskuld xxx álnir síðan bóluna, áður lx álnir. Betalast með fiski þegar að vel aflast, ella í búsgagni eður öðrum landaurum, ýmis hjer heima eður til staðarins. Leigukúgildi ekkert í næstu 8 ár, áður var ýmist i eður ii. Leigur betöluðust í smjöri heim til staðarins eður í landaurum þá smjörs skortur varð.

Í jarða- og bændatali 1753 er Hlöðuvík aðeins talin 4 hndr., hvernig sem á því stendur. Öllum öðrum heimildum ber saman um fornt mat hennar, eða 6 hndr. 1788 var jörðin metin á 20 ríkisdali og landskuld 68 skildingar. Við jarðmat 1849 var hvert hndr. metið 25 rd., alls 150 rd. Kúgildi voru ekki tekin upp. Við fasteignamat 1942 var jörðin metin á 2000 kr., þar af 1000 í landi og 1000 í húsum.

Landkostir.

Jarðabók 1710:

Torfrista og stúnga næg. Móskurður til eldiviðar góður. Silúngsveiðivon lítil í Hlöðuvíkurós. Grasatekja bjargleg fyrir heimili. Selveiðivon gagnvæn, sje veð aðsókt, en brúkast nú lítt. Rekavon í meðallagi en heppnast misjafnt og nú mjög lítt í nokkur ár, og brúkar ábúandi til búsnauðsynja sinna rekann sem áður segir um Kjaransvík. Beitifjara góð fyrir sauðfje, meðan íslaust er. Enginu grandar vatn, sem jetur úr rótina. Hætt er kvikfje fyrir holgryfjulækjum, sem oft verður mein að, og so fyrir ógöngu klettahömru. Kirkjuvegur lángur og erfiður, sem áður segir um Kjaransvík. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórviðrum. Heimræði er hjer og lendíng slæm og brimsöm, og brúkast því heimræðið lítt, nema í bestu veðráttu gengur skip ábúandans eitt, fleiri mætti gánga, ef hann fengi því við komið.

Þess er áður getið, að Olavíusi þóttu landgæði sambærileg í Hlöðuvík og Hælavík og nefnir báðar: &132;nydelige Bopæle&147;. Í sóknarlýsingu sinni segir sr. Jón Eyjólfsson:

Útslægjur eru miklar. Grasbeit lítil á vetrum, en fjöru nýtur þar svo mikið, og svo er hún þar góð, að þar er kallað sé 12 vikna fjara, og að fjörubeit yfir veturinn sambjóði fullu 12 vikna fóðri. Viðreki er þar talsverður og mótak. Þar er fannmikið og áfreðasamt á vetrum. Ógnaveður koma þar af vestri, en hlésamt af flestum áttum yfirhöfuð, lítið um fisk, brimasamt.

Eins og áður er fram komið, var Hlöðuvík virt meðaljörð við jarðamatið 1849, hvert hundrað á 25 rd. Er því engin umsögn um hana af hálfu matsmanna. Frá sjónarhóli nútímamanna skarar Hlöðuvík fram úr öðrum jörðum á Vestur-Ströndum að því leyti, að graslendi liggur hvergi betur við nytjum en þar. Þótt jarðabókin geti um vatn, er spilli jörðinni, eru þó miklu minni brögð að því en í hinum víkunum, því að vatnið kemur að mestu í einn stað innarlega í víkinni og myndar Hlöðuvíkurós, sem er eitthvert mesta vatnsfall á Ströndum. Bærinn stóð lengst af vestan óssins, en eftir að hann var færður austur undir Skálakamb, lagðist gamla túnið í órækt. Væri víkin ræktuð beggja vegna óssins, hygg ég ekki of mikið að áætla, að þar gæti verið 30-50 hektara tún. Lending er talin allgóð í austanveðri víkinni, enda höfðu bændur úr víkunum þrrm þar útræði, eins og nafn nýja bæjarins, Búðir, bendir til.

Ábúð og afkoma.

Árið 1681 hefur Hlöðuvík verið byggð, og virðist engin jörð á Vestur-Ströndum þá hafa staðið með meiri blóma. En árið 1703 hefur hún verið í eyði. 1710 er hún aftur byggð ein allra Strandajarða, og svo hefur enn verið 1735. Árið 1753 hefur jörðin þó legið í eyði, en verið komin í byggð á ný 1760. Árið 1762 haf þar verið 7 í heimili. Er ekki vitað til, að byggð hafi þar lagzt þar niður síðan, fyrr en 1943, að síðustu ábúendur fluttust þaðan.

Aðrar heimildir eru litlar um afkomu í Hlöðuvík. Þó er til skiptagerð eftir Maríu Pétursdóttur, húsfreyju þar, frá 11. jan. 1854. María dó 18. júní 1853. Dánarbúið hefur verið 133 rd. 72 sk., mest í kvikfé og búsgagni. Þá var kýr í standi metin á 20 rd., svo að heimilið hefur að minnsta kosti verið vel bjargálna að hætti þeirra tíðar.

Í Hlöðuvík hefur veirð búið vel, svo lengi sem núlifandi menn muna. Um 1884-1887 bjuggu þar mágarnir Brynjólfur Þorsteinsson og Guðni Hjálmarsson, sem síðar gerðu garðinn frægan á Sléttu. Samkvæmt tíundarskýrslu frá 1885 átti hvor þeirra 4 hndr. 20 álnir í lausafé, og gengu þó mikil harðindi yfir á þessum árum. Síðari ábúendur í Hlöðuvík (Búðum) voru einnig mágar, Guðmundur Guðnason frá Hælavík og Guðlaugur Hallvarðsson, sonur Hallvarðs Jóhannessonar, er bjó einn á Búðum 1905-1920. Höfðu þeir ætíð nóg að bíta og brenna, en ekki munu þeir þó hafa safnað auði, enda höfðu báðir talsverða ómegð. Árið 1920 voru alls 16 manns heimlisfastir á Búðum.

Til er úttekt á jörðinni Hlöðuvík frá 11. júlí 1887. Þá hefur verið þar baðstofa 9 álna löng og 5½ alin á breidd, loft hefur verið yfir henni allri, en viður mjög farnir að fúna. Búr hefur verið 5½x4 álnir, eldhús 6x4 álnir, illa farið, baðstofugöng 11 álnar löng, 2½ alin á breidd. Skemma hefur verið nokkuð frá bænum, virt á 60 krónur. Þilhús hefur verið undir lofti í baðstofunni, líklega eins konar stofa. Loks hefur veirð innangengt í hlöðu. Hvorki er nefnt fjós né fjárhús, og er því trúlegast, að viðtakandi hafi annaðhvort keypt þau af fráfarendum eða þau verið svo léleg, að þeim sé viljandi sleppt. Síðasti bærinn á Búðum var lítið, en þokkalegt timburhús með torfveggjum að nokkru leyti, portbyggt hús með rúmgóðu lofti. Það hús var mjög að falli komið 1964.

Slysavarnarfélag Íslands hefur reist skipbrotsmannaskýli í Hlöðuvík, steinsnar frá gamla Búðabænum.

Ábúendur.

Einar Björnsson

Einar Björnsson. F. um 1650. Dánarár ókunnugt. Hann var vinnumaður í Hælavík 1703, en bóndi í Hlöðuvík 1710. Annað er ekki um hann vitað.


Einar Jónsson

Einar Jónsson. Bóndi í Hlöðuvík 1735. Ekkert er um hann vitað.


Olifer Bjarnason

Olifer Bjarnason. F. um 1710. Var á lífi 1762.

Ekki er vitað hverjir foreldrar hans voru.

Börn: Jón Olifersson bóndi í Reykjarfirði á Ströndum og í Bolungarvík á Ströndum. Ingunn Olifersdóttir, var vinnukona í Rekavík bak Látur 1801 og sögð gift. Maður hennar mun hafa verið Þorsteinn Guðmundsson og sonur þeirra Olifer Þorsteinsson, sem var vinnumaður á Látrum 1801.

Olifer Bjarnason bjó á Sæbóli 1735. Bóndi á Hesteyri 1756-1760. Bóndi í Hlöðuvík 1762. Eftir það er ekki um hann vitað.


Jón Þorkelsson

Jón Þorkelsson. F. um 1753. Var enn á lífi 1811, en dáinn 1816.

Sonur Þorkels Þorkelssonar á Sléttu.

Kona: Þóra Snorradóttir úr Höfn, d. 26. júní 1817.

Börn: Oddur Jónsson bóndi á Atlastöðum. Ragnheiður Jónsdóttir, átti Jón Jónsson bónda á Hesteyri. Þórður Jónsson húsmaður á Atlastöðum. Kristín Jónsdóttir, átti Sigurður Björnsson á Atlastöðum og Glúmsstöðum. Ólafur Jónsson bóndi í Hlöðuvík og á Atlastöðum. Þorgerður Jónsdóttir, átti Björn Guðmundsson bónda í Rekavík bak Látur.

Jón Þorkelsson bjó í Hlöðuvík 1780-88. Bóndi á Atlastöðum frá 1788 til dánardags. Í munnmælum sagður hraustmenni, þó ekki á við föður sinn. Virðist hafa verið vel metinn.


Páll Björnsson

Páll Björnsson. Talið hefur verið, að Páll Björnsson í Reykjarfirði, faðir Sigurðar Pálssonar á Horni og forfaðir svonefndar Pálsættar í Strandasýslu, hafi búið í Hlöðuvík. En ég tel það vafasamt. Páll komst í leiðinda-mál í Reykjarfirði 1769. Þó lítið eða ekkert sannaðist á hann, hlaut hann mikla hrakninga og var að lokum dæmdur í tveggja ára betrunarhúsvist í Reykjavík. Hann slapp úr þeirri fangavist 1776. Kann að vera, að hann hafi búið nokkur ár þar á eftir í Hlöðuvík, en um 1780 var Jón Þorkelsson farinn að búa þar.


Þuríður Sigurðardóttir

Þuríður Sigurðardóttir. F. um 1736. Var á lífi 1801.

Hún hefur líklega verið dóttir Sigurðar Eldjárnssonar í Efri-Miðvík. Giftist ekki. Hún bjó í Rekavík 1786-89. Bjó í Hlöðuvík 1789-91, Sléttu 1791-92, var búlaus 1792-93. Bjó aftur í Hlöðuvík 1793-93. Hún var í Kjaransvík 1801 og þá orðin sveitlæg.


Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson. F. um 1762. D. 29. ágúst 1834. Hann var sonur Páls Björnssonar bónda í Reykjarfirði á Ströndum.

Kona 1: Ingveldur, f. um 1772, d. 6. júní 1816, Snorradóttir, Einarssonar í Höfn.

Börn: Sigríður Sigurðardóttir fyrri kona Sigurðar Jónssonar á Sléttu. Sigurfljóð Sigurðardóttir, átti Hafliða Guðmundsson. Þau voru í vinnumennsku í Arnardal og í Hnífsdal. Sigurfljóð var síðast próventukona á Sléttu og dó þar 1872. Páll Sigurðsson, átti Helgu Ásmundsdóttur. Hann var lengst vinnumaður hjá Einari bróður sínum. Einar Sigurðsson bóndi á Horni.

Kona 2: 18. júlí 1824, Oddný, f. 1804, d. 7. júlí 1862, Guðlaugsdóttir, Jónssonar í Efri-Miðvík. Hún átti síðar Hagalín Karvelsson úr Skáladal.

Börn: Kjartan Sigurðsson bóndi á Læk, Símon Sigurðsson, kvæntist ekki, en átti börn, eitt þeirra var Guðbjörg Símonardóttir lengi vinnukona á Hesteyri og í Höfn. Móðir hennar var Salóme Jónsdóttir frá Nesi í Grunnavík.

Sigurður Pálsson bjó víða í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi. Hann var bóndi Hlöðuvík 1794-1800. Bóndi á Sléttu 1801, bóndi á Höfða í Grunnavík 1808, á Kollsá 1809, Stað í Grunnavík 1810, bóndi á Nesi í Grunnavík 1811, Horni 1816-22. Hann lézt á Stað í Grunnavík.

Sigurður mun oftast hafa búið við sæmileg efni.


Brynjólfur Jónsson

Brynjólfur Jónsson. F. um 1768. D. 14. júní 1838.

Hann er sagður hafa verið sonur Jóns Oliferssonar bónda í Bolungarvík á Ströndum. Móðir Brynjólfs var Sigríður Einarsdóttir

Kona: Guðrún, d. 5 júlí 1827 Snorradóttir úr Höfn.

Börn: Snorri Brynjólfsson, bóndi í Hælavík. Brynjólfur Brynjólfsson bóndi í Kjaransvík og Hælavík. Kristín Brynjólfsdóttir, d. 30. sept. 1848, ógift. Sigríður Brynjólfsdóttir átti Karvel Halldórsson bónda í Skáladal. Gunnvör Brynjólfsdóttir, giftist ekki, en var ráðskona Þorsteins Snæbjörnssonar á Atlastöðum og átti með honum börn. Eitt þeirra var Brynjólfur Þorsteinsson hreppstjóri á Sléttu. Málfríður Brynjólfsdóttir, d. 16. júlí 1862, ógift. Solveig Brynjólfsdóttir dó ung og ógift.

Brynjólfur var bóndi í Hælavík 1792-95. Bóndi í Hlöðuvík 1801-1805. Bóndi í Hælavík frá 1805. Mun hafa verið húsmaður þar síðustu árin.

Kona 12. febrúar 1931, Guðrún, f. 4. marz 1886, Samúelsdóttir, Guðmundssonar húsmanns í Höfn og síðar á Horni. Barnlaus.



Ólafur Ólafsson

Ólafur Ólafsson. F. um 1770. D. 13. júní 1843.

Foreldrar: Ólafur Einarsson þá bóndi í Tungu, síðar á Látrum og kona hans Vigdís Þórðardóttir.

Kona 1: Margrét Björnsdóttir, d. 6. ág. 1829.

Börn: Þeófílus Ólafsson bóndi á Látrum. Rannveig Ólafsdóttir átti Jóhannes Jóhannesson bónda í E. Miðvík. Dagbjört Ólafsdóttir giftist ekki. Salbjörg Ólafsdóttir, seinni kona Árna Halldórssonar hreppstjóra á Látrum. Hildur Ólafsdóttir, átti fyrr Hjálmar Jónsson bónda í Kjaransvík, síðar Jóstein Jónsson bónda í Tungu.

Kona 2: 16. nóv 1829, Ragnhildur, d. 5 maí 1852, Aradóttir, Skordals prests á Stað í Aðalvík. Þau barnlaus.

Ólafur Ólafsson var húsmaður á Stað 1793. Bóndi í E. Miðvík 1797. Bóndi á Látrum 1801. Bóndi í Hlöðuvík 1805-12. Bóndi á Læk 1812-36. Var búsettur á Látrum 1836-43. Mun hafa verið sæmilega efnaður.


Pétur Jósefsson

Pétur Jósefsson. F. um 1771, d. 10. júlí 1827.

Hann var sonur Jósefs Sigmundssonar og bróðir Sigmundar á Horni.

Kona: Sigríður, d. 12. júní 1830, Sigfúsdóttir frá Hanhóli í Bolungarvík.

Börn: Sigurfljóð Pétursdóttir, átti Eldjárn Sigurðsson húsmann í Hlöðuvík og síðar bónda á Hrafnsfjarðareyri. María Pétursdóttir átti Jón Árnason í Hlöðuvík. Kristján Pétursson, d. 12 okt. 1832, ókv. vinnumaður í Reykjarfirði á Ströndum.

Pétur bjó á Álfsstöðum 1801-16. Bóndi á Bjarnarnesi 1819-20. Bóndi í Hlöðuvík 1820-26. Fluttist þá að Hrafnsfjarðareyri og dó þar.


Eldjárn Sigurðsson

Eldjárn Sigurðsson.

Foreldrar: Sigurður Þorsteinsson á Stað í Aðalvík, síðar á Horni og kona hans Anna Snorradóttir.

Kona: 20. ágúst 1826, Sigurfljóð, d. 12. júní 1868, Pétursdóttir, Jósefssonar í Hlöðuvík.

Börn: Símon Eldjárnsson, átti Sigríði Hinriksdóttur, vinnumaður á Stað í Grunnavík 1860. Elías Eldjárnsson skipasmiður í Æðey, síðast í Hnífsdal. Pétur Eldjárnsson bóndi á Leiru í Grunnavíkurhreppi, átti Ragnheiði Þórhallsdóttur. Kristján Eldjárnsson bóndi á Sútarabúðum, átti Svanhvíti Gídeonsdóttur.

Eldjárn var húsaður í Hlöðuvík 1825-27. Bóndi á Hrafnfjarðareyri, Smiðjuvík og síðast í Barðsvík.


Ólafur Jónsson

Ólafur Jónsson. F. um 1791. D. 13. nóvember 1855.

Foreldrar: Jón Þorkelsson bóndi á Atlastöðum og kona hans Þóra Snorradóttir.

Kona: Soffía, f. 1793, d. 22. marz 1859, Jónsdóttir, EInarssonar á Steinólfsstöðum og seinni konu hans, Guðrúnar Lárentíusdóttur. Hún var dóttir Lárentíusar Erlendssonar sýslumanns Ólafssonar. Soffía var hagmælt, og geymast enn í minni nokkrar vísur hennar.

Börn: Sveinn Ólafsson, dó ókvæntur 1866. Kjartan Ólafsson bóndi á Atlastöðum. Kári Ólafsson, d. 23. des. 1876, ókvæntur, átti son með Herborgu Friðriksdóttur í N. miðvík, Þórð Kárason á Látrum. Karólína Ólafsdóttir, átti fyrr Þeófílusson á Látrum, síðar Ísleif Ísleifsson í Hlöðuvík. Dóttir Ólafs með Ástríði Jónsdóttur, systur konu hans, var Guðrún Ólafsdóttir kona Jósefs Hjálmarssonar á Atlastöðum.

Ólafur bjó með móður sinni á Atlastöðum 1816. Bóndi í Rekavík bak Látur 1823-25. Bóndi á Atlastöðum 1825-30. Bóndi í Hlöðuvík 1830-45. Bóndi á Atlastöðum frá 1845 til æviloka.


Salmann Jónsson

Salmann Jónsson. F. 13. marz 1812. D. 2. júlí 1862.

Foreldrar: Jón Snorrason bóndi á Hesteyri, síðast bóndi í Rekavík bak Höfn, og kona hans Silfá Sigurðardóttir.

Kona: 27. okt. 1839, Valdís, f. 1802, d. 26. maí 1888, Jósefsdótti, Jósefssonar í Bolungarvík á Ströndum.

Börn: Svíalín Salmansdóttir, átti Friðrik Steinsson frá Álfsstöðum. Þau bjuggu í Grunnavík.

Salmann var húsmaður í Hlöðuvík 1840, bóndi í Kjaransvík 1850-55. Bóndi í Tungu 1855-60. Húsmaður í Rekavík bak Höfn, þegar hann lézt. „Ekki ógreindur, en sérvitur“.



Jón Árnason

Jón Árnason. F. 1801. D. 19. desember 1869.

Foreldrar: Árni Jónsson vinnumaður á Ósi í Bolungarvík og kona hans Margrét Þorsteinsdóttir.

Kona: María Pétursdóttir, d. 18. júní 1853, Jósefssonar bónda á Álfsstöðum og í Hlöðuvík.

Börn: Árni Jónsson húsmaður í Skáladal. Friðrik Jónsson, kvæntist ekki. Margrét Jónsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Solveig Jónsdóttir.

Jón var húsmaður á Hesteyri 1839. Bóndi á Glúmsstöðum 1840-44. Bóndi í Hlöðuvík 1844-56. Var eftir það í vinnumennsku, síðast vinnumaður á Sæbóli og varð þar úti á milli bæja.


Ásgeir Halldórsson

Ásgeir Halldórsson. F. 29. febrúar 1804. D. 25. nóvember 1852.

Foreldrar: Halldór Guðmundsson bóndi í Þverdal og fyrri kona hans Hildur Tómasdóttir.

Kona. 29. sept. 1832, Soffía Mahalaleelsdóttir, ekkja Þórðar Jónssonar húsmanns á Atlastöðum.

Börn: Þórður Ásgeirsson, Tómas Ásgeirsson, dóu báðir ungir. Þórdís Ásgeirsdóttir, varð holdsveik.

Ásgeir bjó á Glúmsstöðum 1833-35. Húsmaður í Rekavík bak Höfn 1836-40. Húsmaður í Hlöðuvík 1845-50, dó í Hælavík.


Einar Oddsson

Einar Oddsson. F. 14. apríl 1831. D. 2. maí 1866.

Foreldrar: Oddur Jónsson og Margrét Einarsdóttir, ógift vinnuhjú á Stað í Aðalvík.

Kona: 1. okt. 1854, Guðríður, f. 27. maí 1831, Jónsdóttir, Jónssonar í E. Miðvík.

Börn þeirra, sem fæddust í Hlöðuvík, dóu öll ung. Dóttir þeirra var Katrín Hermannía Einarsdóttir, fyrri kona Baldvins Þorsteinssonar í Þverdal.

Einar var við bú í Hlöðuvík 1854-60, en fluttist vestur í Skutulsfjörð 1860 og var síðast húsmaður í Arnardal. Hann var formaður á báti úr Bolungarvík vorið 1866 og fórst þaðan ásamt fjórum hástum í mannskaðaveðri miklu 2. maí.


Stefán Sigurðsson

Stefán Sigurðsson. F. 1836. D. 13. maí 1899.

Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi á Sléttu og fyrri kona hans Sigríður Sigurðardóttir.

Kona: 4. sept. 1857, Guðrún f. 19. ágúst 1834, d. 9. febr. 1916, Ísleifsdóttir, Ísleifssonar á Hesteyri, systir Ísleifs Ísleifssonar í Hlöðuvík.

Börn: Rebekka Stefánsdóttir, átti Þórð Bjarnason frá Hesteyri. Gunnvör Stefánsdóttir dó ung. Sigríður Stefánsdóttir, átti Jóhann Jóhannesson oddvita á Látrum. Fóstursonur þeirra Stefáns og Guðrúnar var Guðmundur Þorkelsson bóndi á Geirastöðum í Árnesbyggð í Nýja-Íslandi.

Stefán bjó í Hlöðuvík 1858-85, reisti nýbýlið Búðir í Hlöðuvíkurlandi 1870 og bjó þar. Fluttist síðan byggðin þaðan, en gamli bærinn í Hlöðuvík lagðist niður. Stefán fluttist að Látrum 1885, en þaðan til Vesturheims 1887. Þar andaðist Stefán og kona hans.

Stefán var sagður vel efnaður, þegar hann fluttist úr Hlöðuvík.


Þórður Bjarnason

Þórður Bjarnason. F. 11. nóvember 1848. D. 9. júlí 1933.

Foreldrar: Bjarni Þorsteinsson bóndi á Langavelli á Hesteyri og seinni kona hans Guðfinna Jónsdóttir.

Kona: 8. sept. 1880, Rebekka, f. 3. ág. 1860, d. 7. febr 1954, Stefánsdóttir, Sigurðssonar bónda í Hlöðuvík.

Börn: Guðrún Sigurfljóð Þórðardóttir, f. 7. febr. 1884, d. 1934, átti Martein Jónsson, búsett í Kanada. Bjarni Guðleifur Þórðarson, f. 1888, d. 18. nóve. 1965, óvk. Ragnheiður Helga Þórðardóttir, f. 14. sept 1894, átti Alexander Thornton, bjuggu í Kanada. Stefanía Elenþóra Þórðardóttir, f. 18. júlí 1899, d. 29. okt. 1964, hjúkrunarkona, giftist ekki. Þórður Þorsteinn Þórðarson, f. 25. febr. 1902, kvæntist ekki, búsettur á Gimli í Kanada.

Þórður Bjarnason var búsettur á Búðum í Hlöðuvík 1880-85. Bóndi á Látrum 1885-87. Hann fluttist til Vesturheims 1887, bjó fyrst á Fagrabakka í Árnesbyggð, en síðar á Skíðastöðum í sömu byggð.


Jóhannes Sakaríasson

Jóhannes Sakaríasson. F. 28. marz 1826. D. 6. febrúar 1913.

Foreldrar: Sakarías Guðlaugsson bóndi í Stakkadal og kona hans Björg Árnadóttir.

Kona: 29. sept. 1849, Guðrún, f. 18. júní 1830, d. 28. okt. 1894, Hjálmarsdóttir, Jóhannessonar í Höfn.

Börn: Hjálmar Jóhannesson bóndi í Rekavík, Kristján Jóhannesson bóndi í Rekavík.

Jóhannes var húsmaður í Stakkadal 1850-56. Bóndi í Hlöðuvík 1857-61. Bóndi í Hælavík 1870. Bóndi í Rekavík frá 1872 og síðast húsmaður þar. Var síðustu árin blindur. Ráðskona hans eftir að hann missti konuna var Guðrún Finnsdóttir


Rósinkar Rósinkarsson

Rósinkar Rósinkarsson. F. 19. september 1832. D. 22. september 1883.

Foreldrar: Rósinkar Mikaelsson bóndi í Kjaransvík og kona hans Ingibjörg Ísleifsdóttir.

Kona: 18. sept. 1862, Svanborg, f. 4. maí 1838, d. 13. janúar 1914, Friðriksdóttir Hallssonar í N. Miðvík.

Börn: Jóna Rósinkransdóttir, giftist ekki. Guðmundur Rósinkransson, drukknaði ókvæntur. María Rósinkransdóttir, giftist ekki. Svanfríður Rósinkransdóttir, d. 22. okt. 1907, ógift. Guðbjörg Rósinkransdóttir, átti Jónas Elíasson Ísafirði.

Barn Svanborgar áður en hún giftist með Jóhannes Jóhannessyni Jóhannes Jóhannesson. Kvæntist ekki.

Rósinkar var húsmaður og bóndi í Efri-Miðvík 1864-66. Bóndi í Hlöðuvík 1866-67. Bóndi í Hælavík frá 1867 til æviloka.

(Íslendingabók segir að þau hjón hafi átt tvo syni er hétu Guðmundur, annar dó sama ár og hann fæddist, 1865. Sá yngri fæddist 1869 og lést 1907.)


Ísleifur Ísleifsson

Ísleifur Ísleifsson. F. 29. apríl 1832. D. 8. desember 1902.

Foreldrar: Ísleifur Ísleifsson bóndi á Langavelli á Hesteyri og kona hans Guðrún Jónsdóttir.

Kona 1: 13. sept. 1861, Guðríður, f. 20. júlí 1831, d. 6. okt. 1871, Bjarnadóttir, Þorsteinssonar á Hesteyri.

Börn: Hjálmfríður Ísleifsdóttir kona Guðna Kjartanssonar í Hælavík. Hermann Ísleifsson húsmaður á Látrum.

Kona 2: 20. sept. 1872, Karólína, f. 29. maí 1833, d. 22. des. 1876, Ólafsdóttir, Jónssonar í Hlöðuvík og á Atlastöðum. Hún átti áður Guðmund Þeófílusson á Látrum og á Atlastöðum.

Barn: Guðni Ísleifsson bóndi í Þverdal.

Kona 3: 6. sept. 1879, Þorbjörg, f. 2. janúar 1851, d. 4. ágúst 1924, Finnsdóttir, Gestssonar bónda í Skáladal. Þau Ísleifur skildu.

Börn: Jóhann Ísleifsson á Sæbóli. Marías Ísleifsson á Sæbóli. Sigríður Ísleifsdóttir, f. 1. sept. 1877, d. 9. apríl 1943. Giftist ekki en átti börn, lengst ráðskona í Rekavík bak Látur. Guðmundur Ísleifsson, drukknaði óvkæntur 20. október 1920. Hann var mállaus. Guðfinna Ísleifsdóttir, fluttist ung til Reykjavíkur, giftist ekki. Ásgeir Ísleifsson bóndi á Sæbóli.

Ísleifur var bóndi á Langavelli á Hesteyri 1862-70. Bóndi í Hlöðuvík 1870-85. Bóndi í Kjaransvík 1885-87. Hann andaðist á Sæbóli.


Benedikt Bjarnason

Benedikt Bjarnason. F. 22. janúar 1838. D. 12. okt. 1916.

Foreldrar: Bjarni Þorsteinsson bóndi á Langavelli á Hesteyri og fyrri kona hans Þórdís Egedíusdóttir.

Kona: 28. sept. 1869, Guðfinna, f. 29. sept. 1842, d. 14. júní 1893, Karvelsdóttir, Jónssonar á Sætúni í Grunnavík.

Börn: Vagn Benediktsson bóndi á Hesteyri. Guðný Benediktsdóttir, giftist ekki. Barn hennar með Njáli Sighvatssyni á Hrafnseyri í Arnarfirði, María Njálsdóttir, kona Jóns Gunnlaugssonar bifreiðarstjóra á Akranesi.

Benedikt Bjarnason var vinnumaður í Hlöðuvík 1870, húsmaður þar 1880. Var búsettur á Hesteyri frá 1890 til dánardags.


Brynjólfur Þorsteinsson og Guðni Hjálmarsson

Brynjólfur Þorsteinsson. F. 19. september 1849. D. 23. júní 1926.

Foreldrar: Þorsteinn Snæbjörnsson bóndi á Atlastöðum og ráðskona hans Gunnvör Brynjólfsdóttir, Jónssonar í Hælavík.

Kona: 17. sept. 1876, Ingibjörg, f. 17. jan. 1855, d. 10. des. 1935, Hermannsdóttir, Sigurðssonar bónda á Sléttu.

Börn: Gunnvör Brynjólfsdóttir, átti Friðrik Magnússon útvegsbónda á Látrum, var fyrsta kona hans. Magðalena Brynjólfsdóttir, átti Kjartan Finnbogason bónda í E. Miðvík. Þórunn Jóhanna Brynjólfsdóttir, átti Jónas Dósóþeusson hreppstj. á Sléttu. Verónika Kristín Brynjólfsdóttir, átti Sölva Andrésson bónda á Sléttu. Hermannía Brynjóflsdóttir, átti fyrr Einar Benjamínsson bónda á Sæbóli, síðar Albert Kristjánsson úr N. Miðvík, trésmíðameistara á Ísafirði.

Brynjólfur Þorsteinsson bjó á Látrum 1878-85. Bóndi á Búðum í Hlöðuvík 1885-89. Bóndi á Sléttu frá 1887 til æviloka.

Brynjólfur var lengi hreppstjóri. Hann fékkst mikið við útgerð með félaga sínum Guðna Hjálmarssyni, en þeir bjuggu lengst af félagsbúi og var samvinna þeirra einstök. Þeir gerður út tvo sexæringa, síðar lengi tvo vélbáta og farnaðist vel, voru með umsvifamestu bændum sveitarinnar.

Brynjólfur var traustur maður, aðgætinn og raunagóður, en ýtinn til framkvæmda.


Guðni Hjálmarsson. F. 22. febrúar 1850. D. 21. febrúar 1931.

Foreldrar: Hjálmar Jónsson bóndi á Látrum og kona hans Berglína Jónsdóttir.

Kona: 13. sept. 1877, Karitas, f. 27. júní 1850, d. 12. apríl 1929, Friðriksdóttir, Jónssonar bónda í N. Miðvík. Hún átti áður Sigurð Hermannsson á Sléttu.

Börn: Júdit Guðnadóttir, átti Guðjón Jósefsson á Hesteyri. Sölvi Guðnason bóndi á Sléttu. Jón Guðnason bóndi á Sléttu. Friðmey Guðnadóttir, var heitmey Jóhannesar Guðmundssonar á Sæbóli.

Fóstursonur Guðna var Hilaríus Haraldsson á Hesteyri og að nokkru Ragnar Erlendsson verkstjóri á Akranesi.

Guðni Hjálmarsson bjó á Látrum 1877-85. Bóndi á Búðum í Hlöðuvík 1885-87. Bóndi á Sléttu frá 1887 til æviloka.

Guðni var eins og áður er getið í félagsbúi við Brynjólf Þorsteinsson.

Drengur góður og ljúfmenni.


Jakob Tómasson

Jakob Tómasson. F. 10. september 1838. D. 3. apríl 1908.

Foreldrar: Tómas Ásgrímsson bóndi á Nesi í Grunnavík og kona hans Rebekka Jónsdóttir.

Kona: 25. júní 1860, Guðrún Kolbeinsdóttir, Jakobssonar skutlara í Unaðsdal.

Börn: Bjarni Jakobsson bóndi á Nesi í Grunnavík og í Hlöðuvík. Jón Jakobsson bóndi á Eyri í Seyðisfirði.

Jakob var bóndi á Nesi í Grunnavík og hreppstjóri um skeið. Bóndi á búðum í Hlöðuvík 1887-95. Fluttist þaðan að Höfðaströnd í Grunnavíkurhreppi. Hann andaðist að Eyri í Seyðisfirði. Hraustmenni og tryggðartröll.


Bjarni Jakobsson

Bjarni Jakobsson. F. 25. ágúst 1860. D. 24. marz 1893.

Foreldrar: Jakob Tómasson bóndi á Nesi í Grunnavík og kona hans Guðrún Kolbeinsdóttir.

Kona: Pálína Guðrún, f. 5. apríl 1861, d. 7. janúar 1899, Pétursdóttir, Eldjárnarsonar á Leiru í Jökulfjörðum. Hún átti síðar Guðjón Kristjánsson bónda á Langavelli á Hesteyri.

Börn: Rebekka Bjarnadóttir, f. 15. nóv. 1884 átti Þorstein Ásgeirsson skipstjóra í Súðavík. Kristín Bjarnadóttir, f. 22. júní 1892, átti fyrr Guðjón Jónsson sjómann í Reykjavík, síðar Hermann Jónsson sjómann í Reykjavík. Hann fórst í loftárás á strandferðaskipið Súðina 17. júní 1943.

Bjarni bjó í Nesi í Grunnavík, síðar með föður sínum á Búðum í Hlöðuvík 1892-93. Hann varð þar bráðkvaddur, skammt fyrir utan bæinn. Bjarni var einstakur fimleikamaður að sögn þeirra, er þekktu hann.


Ólína Tómasdóttir

Ólína Tómasdóttir. F. 31. október 1856. D. 23. desember 1935.

Foreldrar: Tómas Ásgrímsson bóndi á Nesi í Grunnavík og kona hans Rebekka Jónsdóttir. Systir Jakobs Tómassonar.

Maður 1: Ólafur Helgi Árnason, drukknaði 8. sept. 1892.

Barn: Soffía Ólafsdóttir, kona Sæmundar Brynjólfssonar hreppstjóra á Kletti í Gufudalssveit.

Maður 2: 26. sept. 1897, Híram Eiríkur, f. 1876, d. 27. janúar 1918, Veturliðason, Vagnssonar á Dynjanda.

Barn: Margrét Rebekka, f. 14. maí 1899 Híramsdóttir. Hún var heitkona Helga Guðmundssonar úr Stakkadal og átti með honum barn, en Helgi drukknaðir frá Ísafirði 19. okt. 1929. Margrét átti síðar Magnús Ásgeirsson úr Súðavík.

Þau Ólína og Ólafur fyrri maður hennar bjuggu á Nesi í Grunnavík. Hún fluttist ekkja að Búðum í Hlöðuvík 1895 og þar giftist hún ráðsmanni sínum, Hírami Veturliðasyni. Þau bjuggu að Búðum til 1900, fluttust þá að Steinólfsstöðum og þaðan eftir nokkur ár til Hnífsdals.


Hjálmar Jóhannesson

Hjálmar Jóhannesson. F. 9. apríl 1850. D. 6. maí 1905.

Foreldrar: Jóhannes Sakaríasson húsmaður í Stakkadal, síðast bóndi í Rekavík, og kona hans Guðrún Hjálmarsdóttir.

Kona: 29. sept. 1878, Guðrún, f. 2. maí. 1858, d. 6. janúar 1924, Ebenezersdóttir, Sigurðssonar, bónda í Furufirði.

Börn: Björg Hjálmarsdóttir, dó ung. Jón Hjálmarsson, f. 27. júní 1885, kvæntist ekki. Jóhanna Hjálmarsdóttir, f. 6. maí 1882, d. 4. ágúst 1935. Jóhannes Hjálmarsson skipstjóri á Siglufirði, f. 16. okt. 1895, d. 1942. Ólst upp hjá föðurbróður sínum, Kristjáni Jóhannessyni. Sigurður Hjálmarsson bóndi í Rekavík.

Hjálmar var húsmaður í Rekavík 1880-84. Bóndi á Steinólfsstöðum í Jökulfjörðum 1885 og aftur rétt fyrir aldamótin. Bóndi í Hælavík 1894. Bóndi í Hlöðuvík 1901-1905.


Bjarni Hákon Bjarnason

Bjarni Hákon Bjarnason. F. 1865. D. 11. nóv. 1913.

Foreldrar: Bjarni Hákonarson bóndi á Arnarnesi í Dýrafirði og kona hans Halldóra Þórarinsdóttir.

Kona: 2. okt. 1892, Sigríður, f. 31. ágúst 1862, Kjartansdóttir, Ólafssonar á Atlastöðum.

Börn: Guðjón Ágústa Bjarnadóttir, kona Guðjóns Jóhannssonar skósmiðs í Súgandafirði. Halldóra Bjarnadóttir, hjúkrunarkona í Reykjavík, giftist ekki. Kjartan Bjarnason bóndi í Stórhólmi í Leiru. Ingibjörg Bjarnadóttir húsfreyja í Reykjavík. Guðrún Bjarnadóttir, giftist ekki.

Bjarni Hákon bjó á Arnarnesi í Dýrafirði 1893-99. Bóndi í Kjaransvík 1899-1900. Bóndi á Búðum í Hlöðuvík 1900-1902. Bóndi í Dýrafirði 1902-1910. Húsmaður í Súgandafirði 1910-1913. Hann fórst með vélbót í fiskiróðri úr Súgandafirði. Ekkja hans bjó eftir það í Súgandafirði, en fluttist til Reykjavíkur upp úr 1920 og var eftir það í skjóli barna sinna.


Hallvarður Jóhannesson

Hallvarður Jóhannesson. F. 19. ágúst 1855. D. 5. október 1919.

Foreldrar: Jóhannes Sigurðsson bóndi í Drangavík í Árneshreppi og kona hans Guðfinna Einarsdóttir.

Kona: Sigríður, f. 29. júní 1864, d. 28. marz 1938, Dagsdóttir, Sveinssonar í Bæ í Árneshreppi.

Börn: Guðlaugur Hallvarðsson bóndi á Búðum. Guðmundur Hallvarðsson dó ókvæntur. Sigurður Hallvarðsson bóndi í Görðum, síðast í Reykjavík. Jón Valgeir Hallvarðsson, kvæntur, bjó í Súðavík og síðar í Reykjavík. Jóhanna Dagbjört Hallvarðardóttir, kona Guðmundar Kristjánssonar, á Horni. Anna Jakobína Hallvarðsdóttir, kona Vagn Jónssonar á Látrum. Friðrika Hallvarðsdóttir, giftist ekki. Guðbjörg Hallvarðsdóttir, giftist ekki. Guðfinna Hallvarðsdóttir, giftist ekki.

Hallvarður bjó í Skjaldbjarnarvík í Árneshreppi 1884-1905. Bóndi á Búðum í Hlöðuvík frá 1905 til dánardags.


Guðlaugur Hallvarðsson

Guðlaugur Hallvarðsson. F. 8. júlí 1886. D. 2. marz 1941.

Foreldrar: Hallvarður Jóhannesson bóndi í Skjaldbjarnarvík og kona hans Sigríður Dagsdóttir.

Kona: 25. sept. 1915, Ingibjörg Kristín, f. 18. apríl 1888 (14. apríl segir kirkjubókin), d. 6. febrúar 1970, Guðnadóttir, Kjartanssonar í Hælavík.

Börn:Einar Guðmundur Guðlaugsson, f. 3. október 1916, innheimtumaður í Reykjavík, kvæntur Kristjönu Finnbogadóttur. Bergmundur Guðlaugsson, f. 12. marz 1918, tollþjónn í Reykjavík, kvæntur Rannveigu Jónsdóttur. Hallvarður Sigurður Guðlaugsson, f. 16. okt, húsasmíðameistari í Kópavogi, kvæntur Lilju >Guðmundsdóttir. Guðlaug Kristjana Guðlagusdóttir kona Alberts Kristjánssonar bónda á Búðum. Ólafur Marinó Guðbrandur Guðlaugsson, f. 27. nóvember 1923, verkamður í Reykjavík, kvæntur Sigríði Helgadóttur. Magnús Stefán Guðlaugsson, f. 29. janúar 1924, húsasmíðameistari í Kópavogi, kvæntur Ingibjörgu Magnúsdóttur. Sigrún Guðlaugsdóttir, f. 4. júní 1925, ólst upp hjá Guðna Ísleifssyni í Þverdal, kona Guðmundar Óla Guðmundssonar bakarameistara frá Patreksfirði. Sonur Ingibjargar áður en hún giftist með Bjarna Gíslasyni, Þórleifur Bjarnason, f. 30. janúar 1908.

Guðlaugur var húsmaður á Búðum 1916-20. Bóndi þar frá 1920 til dánardags.


Guðmundur Jón Guðnason

Guðmundur Jón Guðnason. F. 11. nóvember 1890.

Foreldrar: Guðni Kjartansson bóndi í Hælavík og kona hans Hjálmfríður Ísleifsdóttir.

Kona: 2. sept. 1922, Jóhanna, f. 21. ágúst 1891, Bjarnadóttir, Þorsteinssonar í Efri-Miðvík.

Börn: Bjarney Sigríður Guðmundsdóttir, f. 14. ágúst 1918, kona Ögmundar Þorkelssonar verkamanns í Reykjavík. Guðrún Soffía Guðmundsdóttir, f. 15. ágúst 1918 (þær tvíburar) kona Kristófers Jónssonar verkamanns í Reykjavík. Kjartan Hafsteinn Guðmundsson, f. 18. júní 1923, blikksmíðameistari á Akranesi, Kvæntur Auði Elíasdóttur frá Þingeyri. Herdís Salbjörg Guðmundsdóttir, f. 3. sept. 1929, kona Sigurjóns Jóhannessonar, cand. mag., skólastjóra gagnfræðaskólans á Húsavík.

Guðmundur Guðnason stundaði bjargsig hvert vor um þrjátíu ára skeið. Hann var bóndi á Búðum í Hlöðuvík 1920-1937. Bjó á Stað í Aðalvík 1937-38, í Neðri-Miðvík 1938-41. Húsmaður á Látrum 1941-43. Hann fluttist suður í Leiru 1943, en var lengst búsettur í Keflavík eftir að hann fluttist suður.


Eiríkur Guðjónsson

Eiríkur Guðjónsson. F. 25. nóvember 1908.

Foreldrar: Guðjón Kristjánsson bóndi í Skjaldarbjarnarvík í Árneshreppi og kona hans Anna Jónsdóttir.

Kona: 13. júní 1935, Gunnvör Rósa, f. 15. júlí 1905, d. 2. maí 1967, Samúelsdóttir, Hallgrímssonar í Skjaldabjarnarvík.

Börn: Eyvindur Pétur Eiríksson, f. 13. des. 1935, gagnfræðaskólakennari í Reykjavík, kvæntur Margréti Guðmundsdóttur kennara. Guðjón Kristján Eiríksson, f. 26. júní 1939, bifvélavirki í Reykjavík, kvæntur Ragnheiði Jónsdóttur.

Eiríkur bjó í Höfn 1937-38. Bóndi á Búðum 1938-43. Fluttist til Ísafjarðar 1943.


Albert Kristjánsson

Albert Kristjánsson. F. 3. október 1920.

Foreldrar: Kristján Albertsson vélstjóri á Ísafirði og kona hans Herdís Samúelsdóttir úr Skjaldarbjarnarvík.

Kona: Guðlaug Kristjana, f. 23. des. 1920, Guðlaugsdóttir, Hallvarðassonar á Búðum.

Börn: Guðlaug Ingibjörg Albertsdóttir, f. 19. sept. 1942, d. 3. nóv. 1964, átti Sigurð Benjamínsson í Súðavík. Kristján Hörður Albertsson, f. 28. apríl 1944, stýrimaður, búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Þóru Jónsdóttur. Vignir Reynir Albertsson, f. 21. sept. 1947. Guðný Albertsdóttir, f. 8. júní 1952. Árni Elías Albertsson, f. 6. maí 1957. Hersir Freyr Albertsson, f. 11. marz 1961.

Albert var bóndi á Búðum 1942-43. Búsettur í Súðavík 1943-66. Fluttist þaðan til Hafnarfjarðar. Hann var um skreið hreppsnefndaroddviti í Súðavík og tók þar allmikinn þátt í félagsmálum. Þeir Albert og Eiríkur voru seinustu ábúendur í Hlöðuvík.