Snorri Einarsson, Höfn

Úr Slttuhreppur
Jump to navigation Jump to search

Snorri Einarsson (Barna-Snorri). F. um 1731. D. 1783-87.

Ekkert bændatal er til úr Sléttuhreppi á þeim tíma, sem Snorri bjó í Höfn. Segja má að skriflegar heimildir séu litlar eða engar um búsetu hans þar. Samt er víst, að hann bjó þar.

Munnmæli segja, að Barna-Snorri hafi búið í Höfn, verið þríkvæntur og átt um tuttugu börn. Ekkja Snorra var Solveig Pétursdóttir, Höfn f. um 1741, líklega dóttir Péturs Oddssonar frá Kollsá í Grunnavíkurhreppi. Hún var enn á lífi 1801. Árið 1762 bjó Snorri Einarsson í Kvíum og var þá 31 árs. Hann bjó þá í fyrsta hjónabandi. Kona hans var sögð þrítug og þau áttu einn son. Telja verður líklegt, að sé Snorri sá, sem síðar bjó í Höfn. En hann hefur mátt sín mikils í barneignum, hafi hann eignast nítján börn eftir 1762, eins og munnmæli hermdu og niðjar hans fullyrtu. Hann hefur flutzt í Höfn rétt eftir 1762, enda Höfn talin í byggð 1766, þótt ekki sé getið nafns ábúandans. Í Höfn hefur hann búið fram yfir 1780. Ekkja hans, Solveig, bjó í Höfn 1787, og yngsta barn þeirra, sem lifði, fæddist í Höfn 1783.

Í manntali 1801 og 1816 er getið einna ellefu eða tólf Snorrabarna og mörg þeirra sögð fædd í Höfn. Þau voru þessi Ingveldur Snorradóttir, fyrri kona Sigurðar Pálssonar á Horni. Þóra Snorradóttir, kona Jóns Þorkelssonar bónda á Atlastöðum. Guðný Snorradóttir kona Þorsteins Stefánssonar í Höfn. Guðrún Snorradóttir, kona Brynjólfs Jónssonar í Hælavík. Anna Snorradóttir, kona Sigurðar Þorsteinssonar á Horni, Jón Snorrason síðast bóndi í Rekavík bak Höfn. Málfríður Snorradóttir, Höfn, dó ung. Steinunn Snorradóttir, Höfn, giftist ekki, en átti barn. Einar Snorrason bóndi í Bolungarvík á Ströndum. Hann var yngstur þeirra Snorrabarna, sem finnast í manntölum. Sigfús Snorrason, Barðsvík bóndi í Barðsvík á Ströndum. Guðmundur Snorrason bóndi í Smiðjuvík og síðar á Glúmsstöðum.

Eins og áður er getið bjó Solveig ekkja Snorra í Höfn, en fluttist þaðan í Hælavík 1788 og bjó þar til 1794. Hún var svo aftur ábúandi í Hælvík 1801.