Höfn
Efnisyfirlit
Ós allvatnsmikill rennur í Hornvík austanverða og skilur lönd Horns og Hafnar. Innan við ósinn er sandmelur allhár næst sjónum, en ofan við hann er nokkurt undirlendi í botni víkurinnar. Út í víkina gengur hátt fjall, Hafnarfjall, og skilur lönd Hafnar og Rekavíkur bak Höfn. Vogur sá, er myndast austan við fjallið er nefndur Hafnarbás. Austan undir Hafnarfjalli stendur bærinn Höfn á rana, er gengur austur úr fjallinu. Túnið er allstórt, og skiptast þar á grasbalar og dýjaveitur.
Hafnar er fyrst getið í rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju 1327. Þar segir, að kirkja í Vatnsfirði eigi fimmtung og sjöttung hvalreka í Höfn.
Í Gíslamáldögum frá því um 1570 er talið meðal eigna Eyrarkirkju í Seyðisfirði „Jtem Landhøffn Lxxx alner í landskylld“. Landhöfn hef ég hvergi annars staðar fundið. Í nafnaskrá fornbréfasafns stendur raunar „Landhöfn í Álptafirði vestra“, en þar hefur hvorki fundizt getið Hafnar né Landhafnar í nokkrum heimildum. Hygg ég það því ágizkun eina, þar eð Eyrarkirkja átti jarðir í Álftafirði. Ég gizka eindregið á, að Landhöfn þessi sé Höfn á Ströndum. Í fyrrnefndum reikningi um styrjaldarhjálp til konungs frá 1681 er Höfn talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar á Eyri við Seyðisfjörð og konu hans. Eyri var þá meðal óðalsjarða þeirra hjóna. En á spássíu reikningsins stendur við Höfn og tvær jarðir í Álftafirði: „Kirkjunnar jarðir á Eyri“. Viðrist Magnús því hafa haft umboð kirkjujarðanna, og því eru þær taldar með jörðum hans. Árið 1703 er Höfn talin kirkjujörð, og 1710 var eigandi hennar Eyrarkirkja í Seyðisfirði „og proprietarii þar til“. Verður ekki annað séð en hún hafi síðan verið í eigu Eyrarkirkju, a.m.k. til 1847. Hið næsta sem fundizt hefur skráð um þetta efni, er þinglýsing gjafabréfs Jóns Guðmundssonar, bónda í Eyrardal, til Magnúsar Torfasonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu, fyrir allri jörðinni. Hefur gjafabréfið verið dagsett 9. september 1915. Er því líklegt, að Jón hafi keypt jörðina af Eyrarkirkju, þó að samtíma heimildir skorti. Síðasti ábúandi jarðarinnar, Sumarliði Betúelsson, keypti hana aftur af Magnúsi sýslumanni um 1936 á 2500 kr. og á hana enn.
Dýrleiki og afgjald
Í reikningnum góða frá 1681 stendur við Höfn, þar sem hún er talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar:
Höfn 8 hndr. — landskuld 80 [álnir]. Eignarkúgildi 1.
En þar, sem hún er talin meðal ábúðarjarða leiguliða, stendur:
Höfn, leiguliði Oddur Jónsson, landskuld 80 álnr, leigukúgildi 1½. Eignarkúgildi 0.- 3 fjórðungar. Eiríkur þar, landskuld 30 álnir, leigukúlgildi 1.- 2 fjórðungar
Samkvæmt þessu hefur landskuld af allri jörðinni verið 110 álnir, og 2½ leigukúlgildi fylgt henni. Er ekki ósennilegt, að kirkjan á Eyri hafi átt 1½ kúgildi og tekið 30 álnir í landskuld, en sýslumaður sjálfur það, sem honum er talið er hér að ofan.
Öllum heimildum ber saman um fornt mat jarðarinnar, þ.e. 8 hundruð. En landskuld hefur minnkað snemma og leigukúgildi fallið niður. Svo segir jarðabókin 1710:
Landskuld xl álnir síðan bóluna, áður lxxx álnir. Betalast í fiski eður landaurum, oftast innan hrepps þángað sem til sagt er, eftir proportion.
Kúgildi ekkert í margt ár, en áður meir en fyrir 30 árum var hjer eitt og þriðjúngur annars, og betalaðist þá leigur í fiski eður landaurum.
Árið 1788 hefur Höfn svo verið metin til 26 ríkisdala, landskuld verið 1 rd. 12 sk. Við nýja jarðamatið 1849 var Höfn metin minna en að meðallagi og eki gert ráð fyrir kúgildi. Hvert fornt hundrað var metið 18 ríkisdalir og jörðin öll 144 ríkisdalir. Við fasteignamat 1942 var heildarmat Hafnar 5700 kr., þar af 2000 kr. í landi og 3700 í húsum.