Höfn

Úr Slttuhreppur
Jump to navigation Jump to search

Ós allvatnsmikill rennur í Hornvík austanverða og skilur lönd Horns og Hafnar. Innan við ósinn er sandmelur allhár næst sjónum, en ofan við hann er nokkurt undirlendi í botni víkurinnar. Út í víkina gengur hátt fjall, Hafnarfjall, og skilur lönd Hafnar og Rekavíkur bak Höfn. Vogur sá, er myndast austan við fjallið er nefndur Hafnarbás. Austan undir Hafnarfjalli stendur bærinn Höfn á rana, er gengur austur úr fjallinu. Túnið er allstórt, og skiptast þar á grasbalar og dýjaveitur.

Hafnar er fyrst getið í rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju 1327. Þar segir, að kirkja í Vatnsfirði eigi fimmtung og sjöttung hvalreka í Höfn.

Í Gíslamáldögum frá því um 1570 er talið meðal eigna Eyrarkirkju í Seyðisfirði „Jtem Landhøffn Lxxx alner í landskylld“. Landhöfn hef ég hvergi annars staðar fundið. Í nafnaskrá fornbréfasafns stendur raunar „Landhöfn í Álptafirði vestra“, en þar hefur hvorki fundizt getið Hafnar né Landhafnar í nokkrum heimildum. Hygg ég það því ágizkun eina, þar eð Eyrarkirkja átti jarðir í Álftafirði. Ég gizka eindregið á, að Landhöfn þessi sé Höfn á Ströndum. Í fyrrnefndum reikningi um styrjaldarhjálp til konungs frá 1681 er Höfn talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar á Eyri við Seyðisfjörð og konu hans. Eyri var þá meðal óðalsjarða þeirra hjóna. En á spássíu reikningsins stendur við Höfn og tvær jarðir í Álftafirði: „Kirkjunnar jarðir á Eyri“. Viðrist Magnús því hafa haft umboð kirkjujarðanna, og því eru þær taldar með jörðum hans. Árið 1703 er Höfn talin kirkjujörð, og 1710 var eigandi hennar Eyrarkirkja í Seyðisfirði „og proprietarii þar til“. Verður ekki annað séð en hún hafi síðan verið í eigu Eyrarkirkju, a.m.k. til 1847. Hið næsta sem fundizt hefur skráð um þetta efni, er þinglýsing gjafabréfs Jóns Guðmundssonar, bónda í Eyrardal, til Magnúsar Torfasonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu, fyrir allri jörðinni. Hefur gjafabréfið verið dagsett 9. september 1915. Er því líklegt, að Jón hafi keypt jörðina af Eyrarkirkju, þó að samtíma heimildir skorti. Síðasti ábúandi jarðarinnar, Sumarliði Betúelsson, keypti hana aftur af Magnúsi sýslumanni um 1936 á 2500 kr. og á hana enn.

Dýrleiki og afgjald

Í reikningnum góða frá 1681 stendur við Höfn, þar sem hún er talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar:

Höfn 8 hndr. — landskuld 80 [álnir]. Eignarkúgildi 1.

En þar, sem hún er talin meðal ábúðarjarða leiguliða, stendur:

Höfn, leiguliði Oddur Jónsson, landskuld 80 álnr, leigukúgildi 1½. Eignarkúgildi 0.- 3 fjórðungar. Eiríkur þar, landskuld 30 álnir, leigukúlgildi 1.- 2 fjórðungar

Samkvæmt þessu hefur landskuld af allri jörðinni verið 110 álnir, og 2½ leigukúlgildi fylgt henni. Er ekki ósennilegt, að kirkjan á Eyri hafi átt 1½ kúgildi og tekið 30 álnir í landskuld, en sýslumaður sjálfur það, sem honum er talið er hér að ofan.

Öllum heimildum ber saman um fornt mat jarðarinnar, þ.e. 8 hundruð. En landskuld hefur minnkað snemma og leigukúgildi fallið niður. Svo segir jarðabókin 1710:

Landskuld xl álnir síðan bóluna, áður lxxx álnir. Betalast í fiski eður landaurum, oftast innan hrepps þángað sem til sagt er, eftir proportion.
Kúgildi ekkert í margt ár, en áður meir en fyrir 30 árum var hjer eitt og þriðjúngur annars, og betalaðist þá leigur í fiski eður landaurum.

Árið 1788 hefur Höfn svo verið metin til 26 ríkisdala, landskuld verið 1 rd. 12 sk. Við nýja jarðamatið 1849 var Höfn metin minna en að meðallagi og eki gert ráð fyrir kúgildi. Hvert fornt hundrað var metið 18 ríkisdalir og jörðin öll 144 ríkisdalir. Við fasteignamat 1942 var heildarmat Hafnar 5700 kr., þar af 2000 kr. í landi og 3700 í húsum.

Landkostir

Svo segir í jarðabók 1710:

Fóðrast kann á allri jörðinni vi kýr, xxx ær, xv lömb, ii hestar. Torfrista og stúnga lök og sendin. Móskurður til eldiviðar lítt nýtandi. Silúngsveiði lítil í Hafnarós, brúkast þó. Grastekja næg. Rekavon lítil og heppnast sjaldan. Túninu grandar sandfok til stórskaða. Enginu grandar vatn, sem jetur úr rótina. Kirkjuvegur yfir allan máta torsóktur og erfiður, þingmannaleið áleiðis, og sækir fólkið því stundum kirkjuna einu sinni á vetri, stundum aldrei. Hreppamannaflutningur lángur og torsóktur yfir Krákugil sem er oftast ófært á vetur. Heimræði er hjer ár um kríng þá fiskur er fyrir, og lending er góð, og gengur hjer nú eitt skip ábúenda, áður hafa stundum gengið tvö.

Ólíkt feguri lýsingu gefur Ólafur Olavíus frá sumrinu 1775:

Man maae tilstaae, at Skaberen ikka har været sparsom paa sin Godiøremjed. dem Gamg demme Bugt blev dannet; thi foruden rigeligt Strand-Fiskerie og Forellefangst, ere baade Dalene, Fieldsiderne, Tunet eller Hiemme-Marken og Engene, fosynede med overflødigt Græs, hvortil kommer en tryg Landing og brugbar Havn om Sommerdage i Nærværelsen, ikke at tale om Hornbierget, der og giver sine Fordeele. Dog maae jeg erindre, at Landingen, som roeses saa meget, kom mig heel mistænkelig for, efterdi den laae tæt ved en lav Klippe-Rad eller Bælte, der gik ud Søen, og det paa Havsiden; hvorpaa Bølgerne endelig maae kunne støde an, og foraarsage Uroe ved Strandbredden; men Erfarenhed, og Fiskernes Forsikkringer faae her at gielde for gode Vidner

Hér má sjá, að Olavíus hefur talið nálægt við Hornbjarg til mikilla hlunninda, og verður að hafa fyrir satt, að Hafnarbændur hafi a.m.k. á þeim tíma sótt þangað björg, þótt þess sé ekki sérstaklega getið í jarðabókinni. Olavíus getur þess enn fremur, að sjór hafi lækkað í Höfn, því að hann hafi séð þar 60 álna löng tré og lengri, 500 föðmum ofar en sjór gekk þá hæst, en nú séu þau að mestu eða öllu leyti hulin grassverði. Sums staðar sá Olavíus digra trédrumba standa út úr jörðinni langt fyrir ofan Höfn. Hvað sem segja má um bollaleggingar Olavíusar um lækkun sjávarins, sýna þessi ummæli, að reki hefur verið allmikill í Höfn, þótt jarðabókin geri lítið úr honum. Þá athugaði Olavíus allnáið hafnarskilyrði í Höfn, og telur hann Hafnarbásinn sæmilega sumarhöfn, enda liggi Hollendingar þar ósjaldan við stjóra.

Þannig leizt Olavíusi á Höfn 1775. Sr. Jón Eyjólfsson leit ekki eins björtum augum á landkosti Hafnar árið 1847:

Tún snöggt mjög og sandorpið. Engjar miklar og góðar. Útigangur enginn, fjara því nær. Reki í minna lagi. Móskurður enginn. Jafnviðri mest af norðri, ofsi af vestri, brimlaust. Lítið um fisk.

Líka sögu segir álitsgerð matsnefndarinnar frá 1849:

Sandfok, túnleysi, árennsli og vetrarþyngsli valda því að jörð þessa skortir svo mjög við meðaljarðir.

Jarðabókin telur lendingu góða í Höfn, en Olavíusi leizt hún ótrygg. Sr. Jón segir hins vegar aðeins „brimlaust“. Munu þær aðstæður hafa bjargað fimm skipshöfnum frá drukknun í norðanveðri, sem gerði snemma í marz 1897. Þá strönduðu fimm þilskip hjá Höfn, en menn björguðust allir. Í sama veðri fórst eyfirzka hákarlaveiðiskipið Draupnir í Barðsvík, og öll áhöfn týndist. „Lítið um fisk“, segir sr. Jón enn fremur, og mun það vafalítið svo að skilja, að vantað hefur nógu stóra báta til að sækja á gjöfulli mið. Til landbúskapar virðist jörðin hafa verið í betra lagi. Sandágangur hefur spilt jörðinni mest, enda má nú svo heita, að allur austurhluti víkunnar sé sandorpinn. Þó er melgresið nú á góðri leið að græða upp a.m.k. talsverðan hluta sandsins. Mýrlendi er hins vegar, þegar nær dregur Hafnarfjalli, og hefur trúlega verið rýrt, meðan búið í Höfn, þótt loðið væri eftir áratuga friðun sumarið 1964.

Ábúð og afkoma

Bústofn
Ár Bændur Íbúar Nautgripir Sauðfé Hross
1710: 2 6 43 2
1787: 1 11 2 39 1
1790: 1 10 2 22 1
1795: 1 12 4 32 1
1805: 1 14 1 39 1
1810: 2 13 1 49
1815: 2 12 1 40 1
1821: 2 11 32 1
1825: 2 11 2 26 1
1831: 2 14 2 22 2
1835: 2 12 2 16 2
1841: 2 20 2 31 2
1847: 1 11 3 38 2
1850: 1 13 2 43 2
1855: 1 12 2 30 2
1860: 1 12 2 5 1
1865: 1 13 2 14 1
1870: 1 13 2 14 1
1874: 1 14 10 2
1880: 2 16 2 19 2
1885: 2 21 32 2
1890: 2 17 1 36 2
1895: 1 14 2 31 2
1900: 1 15 3 27 1
1905: 1 13 2 26 1
1910: 1 16 4 46 1
1914: 1 14 3 47 1
1942: (meðalt. 5 ára) 50 1
Túnstærð og heyfengur
Ár Tún dagsláttur Taða hestar Úthey hestar
1885: 4 8 105
1890: 4 13 170
1895: 4 20 130
1900: 4 16 160
1905: 4 24 120
1942: (meðalt. 5 ára) 60 300
Skipa- og bátaeign
Ár Tein- og
áttæringar
Sex- og
fjögramannaför
Minni
bátar
1787: 1
1790: 1 1
1795: 1 1
1805: 1 2
1810: 2
1815: 1 1
1821: 1
1825: 1
1831: 1
1841: 1
1847: 1
1850: 1
1855: 1
1880: 1
1885: 1
1890: 1
1895: 1
1900: 1
1905: 1
Fisk- og fuglaafli
Ár Stórf. Smáf. Ýsa Aðrar fiskt. Þorskil. tn. Hák.l. tn. Svartf. Silungur
1897: 1050 2300 540 160 1 2 600
1898: 568 1065 307 200 309
1899: 500 1812 241 178 2 415 122

Það er áður fram komið, að árið 1681 hefur verið tvíbýli í Höfn. Árið 1703 hefur þar verið einn ábúandi og sjö manns í heimili. En 1710 voru aftur tveir ábúendur með töluverðan bústofn. Síðan er allt óvíst um byggð á jörðinni, þar til 1735, þá hefur hún verið í eyði. Hallvarður Hallsson hefur verið í Höfn 1744, en allt er óvíst um búskap hans þar. Árið 1753 verður ekki annað séð en að jörðin sé í eyði, og svo hefur enn verið 1862. En 1766 hefur jörðin verið byggð, því að þá hefur verið heimtur þaðan tollur til byggingar hegningarhússins í Reykjavík. Þá hefur jörðin veriði byggð árið 1775, er Olavíus ferðaðist þar um. Loks má svo telja fyrstu búnaðarskýrslu frá 1787, en það hefur Höfn verið í byggð, og er ekki vitað til, að hún hafi síðan farið í eyði, fyrr en sumarið 1944.

Aðrar heimildir um afkomu í Höfn eru af skornum skammti. Til er skiptagerð eftir Andrés bónda Gíslason, dagsett 10. febrúar 1844, en það er aðgætandi, að hann bjó þá aðeins á hálfri jörðinni móti Einari Sigurðssyni, sem fluttist það ár að Horni. Var upphæð dánarbúsins 86 rd. 58 sk., þar af 3 hndr. í Steig í Veiðileysufirði 42 rd. Þá er og til dánarbúsuppskrift og skiptagerð eftir ekkju Andrésar, Valgerði Þorsteinsdóttur, er bjó eftir hann með börnum sínum. Er skiptagerðin dagsett 29. maí 1856. Bú Valgerðar var fremur fátæktlegt, samtals 118 rd. 16 sk., þar af 2 hndr. í Steig, þá metin á 68 rd. En Valgerður var í húsmennsku hjá Jóni bónda Gíslasyni og hafði ekki annan bústofn en nokkrar kindur, svo að dánarbú hennar segir lítið um afkomu á jörðinni á heild.

Árin 1895-1931 bjuggu í Höfn Betúel Betúelsson og Anna Guðmundsdóttir. Þau eignuðust 11 börn, sem komust öll til þroska. Betúel tók að sér blautfisksölu fyrir verzlun Ásgeir Ásgeirsson á Ísafirði árið 1898. Setti Betúel þá upp smáverzlun í skjóli Ásgeirsverzlunar. Ber öllum saman um, sem þekktu til, að hann hafi komizt þar vel af, enda voru synir hans annálaðir dugnaðarmenn. Einn þeirra, Sumarliði, bjó í Höfn, eftir að foreldrar hans fluttu þaðan, og reisti þar hús það, er enn stendur, vandað mjög og sterklegt. Hefur Slysavarnarfélag Íslands nú keypt húsið og opnað það hröktum skipbrotsmönnum og lúnum ferðalöngum.

Af framangreindu er ljóst, að Hafnarbændur haf að jafnaði komizt allvel af. Á þessari öld urðu þeir, líkt og Hornsbændur, vel efnaðir af eggjasölu til Ísafjarðar.

Litlar heimildur eru um húsakynni í Höfn frá fyrri tímum, ef frá er talin lýsing Olavíusar frá 1775:

Gaarden selv var ellers næt opbygget af Drivetømmer, Stok paa Stok ligesom í Norge, og Gulvet beklædt med samme uden at man havde giort sig Umage for at skiære Brædder deraf eller engangat hugge Tømmeret firkantet.

Hér er greinilega átt við sama byggingarlag og sr. Jón Eyjólfsson getur sóknarlýsingu sinni og segir, að tíðkist á Ströndum. En engin jarðarúttekt hefur fundizt, sem gefi nokkuð frekar til kynna um byggingar.

Ekki verður skilizt svo við sögu Hafnar, að ekki sé drepið á bænhús, sem þar hefur með vissu staðið, og grafreit. Í jarðabókinni 1710 segir svo:

Hjer hefur að fornu bænhús verið, en er af fallið fyrir manna minni

Áður var getið lýsingar jarðabókarinnar á löngum og erfiðum kirkjuvegi frá Höfn. Hefur það einkum valdið erfiðleikum, er færa þurfti lík til kirkju. Árið 1706 hefur Jón biskup Vídalín hreyft því í bréfi til stiftamtmanns, að vígður yrði grafreitur á Hornströndum. En um framkvæmd þess skortir algerlega heimildir. Margt bendir þó til þess, að þar hafi verið vígður reitur, a.m.k. má telja fullvíst, að jarðsett hefur verið í Höfn á 18du öld. Skal nú talið það helzta, er fundizt hefur um það mál

Hallvarður Hallsson segir svo í ljóðabréfi sínu:

Áður fyrr, þá allt var byggt í eyðilöndum,

í helgidómsins heiðri vöndum
í Höfn var kirkja gjörð á Ströndum

Eftir vana sannleiks settum söngur versa,
yfirvaldið bauð að blessa
bæði haust og vor var messað.

Vígður garður veggjalaus þar var til búinn,
leiðin síðan liggja rúin,
landsins eftir venju snúin.

Þessi bygging orðin er í auðnu tómi
nú á tíðum sér ei sómi

svo sem fyrr í heiðnidóm

„Kirkjan“ er að öllum líkindum bænhúsið, er getur í jarðbókinni, og hefur þá enn séð fyrir rústunum af því. Um grafreitinn er enn heimild frá Olavíusi frá 1775:

Den vanskeligste for Indbyggerne er at søge Kirke; thi de maae, eftir Sigende, enten reise 5 Miile til Lands over meget farlige Fieldveje, eller til Søes en langt længere Vei, og det over fire Raster eller stridige Strømme, som ikke er bædre. Man har derfor grebet til at lade vie et Stykke af Tunet eller Hiemme-Marken, for deri at begrave de Døde om Vinteren, som ellers ikke uden største Vanskelighed vilde have kundet føres til Kirke. Af slige Gravsteder fandt man paa Stedet 10, hvoraf de 9 vendede, som sædvanlig, imod Øster og Vester, men det eene, hvorunder berettedes at hvile en nyelig begraven gammel Bonde, noget nær imot S. og N. hvilket saaledes skulde være skeet efter hans sideste Villie, som og at en liden Bønnebog, samt Ulfarsrímur, et Heltedigt om en christen Konge i Saxen, tillige med ham vare blevne jordede. Paa Døren af Bondens efterladte Gaard stod Navnet Jehovah næt udskaaret. Man maae ellers ansee det for den største Lykke for Island, at den sande Gudsdyrkelse har slaaet der overalt saa faste Rødder, at der snart ikke langt fra Strømnæsset undtages; og har til denne Religionens Rodfæstelse ikke lidet hjulpet Mangel af Leilighed til Udsvævelser. Har altsaa Handelen længe væred lige som sluttet i Lænker, saa har dog Guds Ord faaet desto friere Løb.

Hér ber Olavíusi alveg saman við Hallvarð Hallsson, þ.e. að garðurinn hafi verið vígður og í honum jarðsett. Freistandi væri að halda að hinn guðhræddi og sérvitri bóndi, er Olavíus getur, sé Hallur Erlendsson á Horni, faðir Hallvarðs, en af kröftum hans og fjölkynngi eru miklar sögur. Segir Gísli Konráðsson, að Hallur hafi síðast búið í Höfn og verið grafinn þar út og suður, ásamt bænabók og Úlfarsrímum. Ber honum grunsamlega vel heim við Olavíus, svo að ástæða er til að gruna hann um að hafa tekið frásögn hans og snúið henni upp á Hall. En óneitanlega kemur tíminn vel heim við Hall, hann var enn á lífi 1762, 71ns árs. En þetta er síðasta rituð heimild um kirkjugarðinn í Höfn. Sr. Jón Eyjólfsson getur hans ekki í sóknarlýsingu sinni, þótt hann minnist á bænhúsið. Hann segir svo:

Í Höfn hefur verið bænhús, nú fyrir löngu aftekið, en ekki er hægt að vita hvers vegna, því það væri ómissanda fyrir Hafnarbásinn allan, og ætið hægra fyrir víkurnar en út að Stað, þegar fær er Kamburinn og Atlaskarð, og þeir munu allir hafa átt þangað sókn

Svo segir Sumarliði Betúelsson, er síðastur manna bjó í Höfn, að vel hafi sézt fyrir leiðum í hinum forna grafreit, meðan hann var þar. Ekki gat ég þó séð þar annað en venjulegan þúfnarima sumarið 1964. Hefur hann aflagazt, þegar hætt var að slá túnið og sinurubb hlóðst upp ár eftir ár.

Ábúendur

Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson. F. um 1685. Dánarár ókunnugt.

Um foreldra hans er ekki vitað.

Kona: Anna Eiríksdóttir, Höfn, f. um 1671.

Börn: Einar Bjarnason, Höfn, Jón Bjarnason, Höfn, Guðrún Bjarnadóttir, Höfn, Geirlaug Bjarnadóttir, Höfn, sögð dóttir bóndans.

Bjarni bjó í Höfn 1703. Gæti ef til vill verið Bjarni sá Guðmundsson, sem bjó á Kerlingarstöðum 1710. Annars ekki fleira um hann vitað.Tómas Ásgrímsson

Tómas Ásgrímsson. F. um 1655. Lifði fram yfir 1710.

Ekki er vitað hverjir foreldrar hans voru.

Kona: Sigríður Jónsdóttir, f. um 1652.

Börn: Tómas Tómasson, f. um 1678, launsonar bónda. Þorsteinn og Þorleifur, tvíburar f. um 1688. Ásgrímur Tómasson, f. 1691, Jón Tómasson yngri, f. um 1695. Sigmundur Tómasson, f. um 1696. Rannveig Tómasdóttir, f. um 1692.

Tómas Ásgrímsson bjó í Furufirði 1703, en 1710 bjó hann í Höfn og hafði tvo þriðju hluta jarðarinnar til ábúðar.

(Skv. manntali 1703 heitir elsti sonurinn Ásgrímur, Jón Tómasson eldri er sonur þeirra hjóna fæddur um 1689 og tvíburarnir eru fæddir um 1670.)


Jón Tómasson

Jón Tómasson. F. 1689. Dánarár ókunnugt.

Foreldrar Tómas Ásgrímsson bóndi í Furufirði og kona hans Sigríður Jónsdóttir.

Jón bjó í Höfn 1710 á þriðjungi jarðarinnar. Ekki er vitað hve lengi hann bjó þar né hvort hann hefur átt niðja. Hann var ekki meðal bænda í Sléttuhreppi eða Grunnavíkurhreppi 1735Hallvarður Hallsson

Hallvarður Hallsson. F. um 1723. D. 29. maí 1799.

Foreldrar: Hallur Erlendsson síðast bóndi á Horni og kona hans Sigríður Hallvarðsdóttir. Ókvæntur og barnlaus.

Hallvarður var í Höfn 1744. Trúlega hefur hann búið þar um þetta leyti, hvernig sem þeim búskap hefur verið varið. Þá er ekki vitað hve lengi hann hefur verið þar, en farinn hann þaðan 1753.

Hallvarður hefur svo verið með föður sínum á Horni og líklega búið þar einhvern tíma eftir lát hans. Síðast var hann húsmaður í Skjaldarbjarnavík og dó þar.

Hallvarður var skáld gott, listaskrifari og kunn þjóðsagnarpersóna.


Snorri Einarsson

Snorri Einarsson (Barna-Snorri). F. um 1731. D. 1783-87.

Ekkert bændatal er til úr Sléttuhreppi á þeim tíma, sem Snorri bjó í Höfn. Segja má að skriflegar heimildir séu litlar eða engar um búsetu hans þar. Samt er víst, að hann bjó þar.

Munnmæli segja, að Barna-Snorri hafi búið í Höfn, verið þríkvæntur og átt um tuttugu börn. Ekkja Snorra var Solveig Pétursdóttir, Höfn f. um 1741, líklega dóttir Péturs Oddssonar frá Kollsá í Grunnavíkurhreppi. Hún var enn á lífi 1801. Árið 1762 bjó Snorri Einarsson í Kvíum og var þá 31 árs. Hann bjó þá í fyrsta hjónabandi. Kona hans var sögð þrítug og þau áttu einn son. Telja verður líklegt, að sé Snorri sá, sem síðar bjó í Höfn. En hann hefur mátt sín mikils í barneignum, hafi hann eignast nítján börn eftir 1762, eins og munnmæli hermdu og niðjar hans fullyrtu. Hann hefur flutzt í Höfn rétt eftir 1762, enda Höfn talin í byggð 1766, þótt ekki sé getið nafns ábúandans. Í Höfn hefur hann búið fram yfir 1780. Ekkja hans, Solveig, bjó í Höfn 1787, og yngsta barn þeirra, sem lifði, fæddist í Höfn 1783.

Í manntali 1801 og 1816 er getið einna ellefu eða tólf Snorrabarna og mörg þeirra sögð fædd í Höfn. Þau voru þessi Ingveldur Snorradóttir, fyrri kona Sigurðar Pálssonar á Horni. Þóra Snorradóttir, kona Jóns Þorkelssonar bónda á Atlastöðum. Guðný Snorradóttir kona Þorsteins Stefánssonar í Höfn. Guðrún Snorradóttir, kona Brynjólfs Jónssonar í Hælavík. Anna Snorradóttir, kona Sigurðar Þorsteinssonar á Horni, Jón Snorrason síðast bóndi í Rekavík bak Höfn. Málfríður Snorradóttir, Höfn, dó ung. Steinunn Snorradóttir, Höfn, giftist ekki, en átti barn. Einar Snorrason bóndi í Bolungarvík á Ströndum. Hann var yngstur þeirra Snorrabarna, sem finnast í manntölum. Sigfús Snorrason, Barðsvík bóndi í Barðsvík á Ströndum. Guðmundur Snorrason bóndi í Smiðjuvík og síðar á Glúmsstöðum.

Eins og áður er getið bjó Solveig ekkja Snorra í Höfn, en fluttist þaðan í Hælavík 1788 og bjó þar til 1794. Hún var svo aftur ábúandi í Hælvík 1801.


Þorsteinn Stefánsson

Þorsteinn Stefánsson. F. um 1759. D. 7. júlí 1828.

Foreldrar: Stefán Benediktsson bóndi í Hælavík og líklega Herdís Arnfinnsdóttir.

Kona 1: Guðný Snorradóttir úr Höfn.

Börn: Ólafur Þorsteinsson bóndi í Rekavík bak Höfn. Elísabet Þorsteinsdóttir kona Ebenezers Ebenezerssonar bónda á Dynjanda í Jökulfjörðum. Valgerður Þorsteinsdóttir, átti fyrr Magnús Sigurðsson og síðar Andrés Gíslason. Þeir bjuggu báðir í Höfn. Stefán Þorsteinsson dó ungur.

Kona 2: Kristín, f. um 1766, d. 5. júlí 1841, Bjarnadóttir, Jónssonar á Marðareyri. Hún átti áður Gísla Þorvaldsson bónda á Steig í Jökulfjörðum. Þau Þorsteinn barnlaus.

Þorsteinn Stefánsson bjó í Hælavík 1780-88, en fluttist þá í Höfn og bjó þar síðan. Um Þorstein hvað Snorri Brynjólfsson í Hælavík:

Þorsteinn Hafnar þvær sér lítt

því er hann svo blakkur
vaskur heggur viðinn títt,

vel í björgum flakkur.


Jón Snorrason

Jón Snorrason. F. 1776. D. 4. júní 1829.

Foreldrar: Snorri Einarsson í Höfn og Solveig Pétursdóttir kona hans.

Kona: 1800, Silfá, f. um 1773, d. 6. okt. 1854, Sigurðardóttir.

Börn: Þuríður Jónsdóttir, átti Vagn Ebenezersson hreppstjóra á Dynjanda. Solveig Jónsdóttir, átti fyrst Jón Jónsson í Höfn. Salman Jónsson bóndi í Kjaransvík. Guðný Jónsdóttir, ráðskona Stefáns Magnússonar húsmanns í Rekavík.

Jón Snorrason bjó víða. Hann var húsmaður í Höfn 1798-99. Bóndi í Hælavík 1801, í Kjaransvík 1805-11, á Hesteyri 1812-16. Bóndi á Álfsstöðum og Kvíum í Grunnavíkurhreppi 1816-22. Bóndi í Rekavík 1822-29. Þrátt fyrir tíða flutninga virðist Jón hafa komist sæmilega af.

Hann drukknaði ásamt Jóni Jónssyni tengdasyni sínum.


Magnús Sigurðsson

Magnús Sigurðsson. F. um 1787. D. 1814-15.

Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Reykjafirði á Ströndum og kona hans Ingibjörg Sigmundsdóttir.

Kona Valgerður Þorsteinsdóttir, Stefánssonar í Höfn.

Börn: Stefán Magnússon húsmaður í Rekavík bak Höfn. Sigríður Magnúsdóttir, giftist ekki, d. 12. janúar 1898.

Magnús var talinn bóndi í Höfn 1811 og hefur sjálfsagt búið þar með tengdaföður sínum þangað til hann andaðist. Ekkja hans var búandi í Höfn 1816.


Ólafur Þorsteinsson

Ólafur Þorsteinsson. F. um 1783. D. 25. febrúar 1820.

Foreldrar: Þorsteinn Stefánsson bóndi í Hælavík, síðar í Höfn og fyrri kona hans Guðný Snorradóttir.

Kona: Elísabet, f. um 1785, d. 8. apríl 1859, Hallvarðsdóttir, Jónssonar í Kvíum. Hún átti síðar Snorra Brynjólfsson í Hælavík.

Börn þeirra Ólafs dóu ung. Dóttir Ólafs áður en hann kvæntist mun hafa verið Guðrún Ólafsdóttir seinni kona Guðmundar Halldórssonar í Tungu.

Ólafur bjó í Höfn 1810, en hóf búskap í Rekavík 1811 og bjó þar til dánardags. Ekkja hans bjó þar áfram til 1822.


Andrés Gíslason

Andrés Gíslason. F. um 1795. D. 3. júlí 1843.

Foreldrar: Gísli Þorvaldsson bóndi í Nesi í Grunnavík, síðar á Steig, og kona hans Kristín Bjarnadóttir. Andrés var stjúpsonur Þorsteins Stefánssonar í Höfn.

Kona: Valgerður Þorsteinsdóttir, d. 20. október 1855. Hún átti áður Magnús Sigurðsson í Höfn.

Börn: Sigfús Andrésson kvæntist ekki. Ólafur Andrésson húsmaður í Höfn. Herdís Andrésdóttir, giftist ekki, en átti barn.

Andrés bjó í Höfn alla sína búskapartíð.

Jón Jónsson

Jón Jónsson. F. 15. júlí 1802. D. 4. júní 1829.

Foreldrar: Jón Jónsson bóndi á Hrafnfjarðareyri, síðar á Bjarnanesi og kona hans Sesselja Sveinsdóttir.

Kona: 12. apríl 1827, Solveig, d. 29 júní 1866, Jónsdóttir, Snorrasonar síðast bónda í Rekavík bak Höfn. Jón var fyrsti maður Solveigar, sem var þrígift.

Börn: Bóas Jónsson, f. 1827, d 24. apríl 1894, bóndi á Gjögri í Árneshreppi, átti Ríkeyju Eiríksdóttur, stjúpdóttur Þorsteins Snæbjörnssonar á Atlastöðum. Ólafur Jónsson, var vanheill.

Jón Jónsson bjó í Höfn í tvö ár. Hann drukknaði með tengdaföður sínum, Jóni Snorrasyni. „Sárfátækur öreigi“.

Hjálmar Jóhannsson

Hjálmar Jóhannsson. F. um 1796. D. 20. desember 1838.

Foreldrar: Jóhann Jónsson í Skálavík í Mjóafirði og kona hans Guðrún Magnúsdóttir.

Kona: 25. júlí 1830, Solveig Jónsdóttir, ekkja Jóns Jónssonar í Höfn.

Börn: Guðrún Hjálmarsdóttir, átti Jóhannes Sakaríasson bónda í Rekavík bak Höfn. Guðný Hjálmarsdóttir, átti Jósef Hermannsson úr Furufirði. Jósef Hjálmarsson bóndi á Atlastöðum.

Hjálmar Jóhannsson bjó í Höfn 1830-1838. Munnmæli segja að Hjálmar hafi látizt bjarndýrsbiti. Í kirkjubókinni segir, að hann hafi dáið hastarlega.


Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson. F. 1800. D. 4. janúar 1854.

Foreldrar: Sigurður Pálsson bóndi í Hlöðuvík og fyrri kona hans Ingveldur Snorradóttir.

Kona 1: 10. ágúst 1822, Guðfinna f. 1801, d. 4. júlí 1834, Sigmundsdóttir, Jósefssonar síðast bónda á Horni.

Börn: Elías Einarsson, fórst af steinkasti í Hornbjargi 7. júlí 1846, átján ára gamall. Friðrik Einarsson, Rekavík bak Höfn bóndi á Steinólfsstöðum og síðast í Hælavík. Guðleifur Einarsson, drukknaði ungur og ókvæntur. Sigurður Einarsson bóndi á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi. Bjargey Einarsdóttir, átti Arnór Ebenezersson bónda í Rekavík bak Höfn. Margrét Einarsdóttir, átti fyrr Sigfús Jónsson hreppstjóra á Höfðaströnd. Hann drukknaði eftir tveggja ára sambúð þeirra hjóna. Seinni maður Markgrétar var Hagalín Jóhannesson á Steig. Helga Friðrika Einarsdóttir, átti Bæring Vagnsson í Furufirði. Jóhanna Einarsdóttir giftist ekki. Barn hennar með Bæringi Vagnssyni var Einar Bæringsson hreppstjóri á Dynjanda. Annað barn Jóhönnu með Jóhannesi Jónssyni í Kvíum var Ketilríður Jóhannesdóttir kona Benedikts Hermannssonar í Reykjarfirði.

Sonur Einars Sigurðssonar með Sólbjörtu Ásmundsdóttur, vinnukonu á Horni, var Guðmundur Einarsson húsmaður á Horni.

Kona 2: 22. september 1849, Elín, f. 1809, d. 15. ágúst 1883, Ebenezersdóttir, Jónssonar bónda á Dynjanda. Hún átti síðar Stíg Stígsson bónda á Horni.

Börn: Elías Einarsson bóndi á Horni, Guðfinna Einarsdóttir, átti Guðleif Þorleifsson bónda í Bolungarvík á Ströndum.

Einar Sigurðsson var bóndi á Horni 1822-25, húsmaður í Reykjafirði á Ströndum 1825-27, en fluttist þá aftur að Horni og bjó þar til 1832. Bóndi á Stað í Grunnavík 1832-38, var hreppstjóri í Grunnavík í nokkur ár. Bóndi í Höfn 1838-44. Bóndi á Horni frá 1844 til dánardags. Einar var við góð efni, þegar hann lézt.


Jón Gíslason

Jón Gíslason. F. 27. janúar 1815. D. 25. júlí 1874.

Foreldrar: Gísli Jútsson í Þjóðólfstungu í Hólshreppi og Guðný Jónsdóttir heimasæta í Minnihlíð. Guðný giftist síðar Ólafi Helgasyni. Þau bjuggu á Breiðabóli í Skálavík, en fluttust þaðan að Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum 1824. Þau bjuggu síðar í Barðsvík.

Kona 1: 22. september 1838, Katrín, d. 7. sept. 1839, Sigmundsdóttir, Jósefssonar í Reykjafirði, síðar bónda á Horni.

Barn: Petólína Jónsdóttir, d. 15. marz 1887, giftist ekki.

Kona 2: 25. ágúst 1841, Ingibjörg, f. 14. nóvember 1822, d. 29. júní 1890, Sigmundsdóttir, Jósefssonar, systir Katrínar fyrri konu Jóns.

Börn: Kristján Jónsson bóndi í Höfn og í Hælavík. Lovísa Jónsdóttir, kona Baldvins Sigfússonar húsmanns á Horni. Elínborg Jónsdóttir, kona Samúels Guðmundssonar húsmanns á Horni. Sigmundur Jónsson bóndi í Höfn.

Jón Gíslason bjó í Barðsvík 1838-40. Húsmaður á Horni 1840-42. Bóndi í Höfn frá 1844 til dánardags. Greindur maður og vel gjör um íþróttir.


Arnór Ebenezersson

Arnór Ebenezersson. F. 1823. D. 13. júlí 1870.

Foreldrar: Ebenezer Ebenezersson bóndi á Dynjanda og Guðrún Einarsdóttir ógift heimasæta í Kjós

Arnór ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, en þau fluttust að Horni, þegar Arnór var barn að aldri.

Kona: 15. sept. 1844, Bjargey, f. 5. nóv. 1824, d. 7. júní 1866, Einarsdóttir Sigurðssonar bónda á Horni.

Börn: Guðfinna Arnórsdóttir kona Kristján Jónssonar bónda í Höfn og Hælavík. Ebenezer Arnórsson, átti Margréti Bjarnadóttur frá Sandeyri. Þau bjuggu í Meirahrauni í Skálavík. Þaðan drukknaði Ebenezer 1884. Ingveldur Arnórsdóttir, átti Ólaf Bjarnason í Bolungarvík. Sonur þeirra var Ragúel Bjarnason byggingarmeistari í Noregi. Matthildur Arnórsdóttir, átti Guðna Jósteinsson bónda á Atlastöðum. Guðrún Arnórsdóttir, kona Eiríks Gídeonssonar á Oddsflöt í Grunnavík. Elín Arnórsdóttir átti Sigmund Hagalínsson bónda á Oddsflöt í Grunnavík. Salóme Arnórsdóttir giftist ekki. Kristín Arnórsdóttir, kona Sigurðar Friðrikssonar á Læk.

Arnór var húsmaður á Horni 1845-48 og aftur húsmaður þar 1861-1863. Húsmaður í Höfn 1849 og 1863-64. Bóndi í Rekavík 1850-61. Hann fluttist til Bolungarvíkur 1864-64 og andaðist þar. Arnór var sagður vel gefinn og listasmiður.


Friðrik Einarsson

Friðrik Einarsson. F. 3. september 1831. D. 9. desember 1872.

Foreldrar: Einar Sigurðsson bóndi á Horni og fyrri kona hans Guðfinna Sigmundsdóttir.

Kona: 13. sept. 1856, Herborg, f. 19. des. 1835, d. 15. marz 1905, Sigurðardóttir, Jónssonar á Sléttu. Húnn átti síðar Agnar Agnarsson vinnumann á Læk.

Börn: Sigurður Friðriksson bóndi á Læk. Guðleifur Friðriksson, fór ungur til Ameríku og ílentist þar. Karólína Friðriksdóttir, d. 15. júní 1936 á Ísafirði.

Friðrik var húsmaður í Höfn 1855 og aftur 1865-66. Bóndi á Steinólfsstöðum 1856-65. Húsmaður á Horni 1856. Bóndi í Rekavík bak Höfn 1866-71. Bóndi í Hælavík 1871-72. Þaðan drukknaði hann við annan mann á báti.


Jakob Ebenezersson

Jakob Ebenezersson. F. 6. desember 1830. D. 1886.

Foreldrar: Ebenezer Ebenezersson bóndi á Dynjanda og Mildríður Einarsdóttir heimasæta á Leiru.

Kona Svanborg, f. 24. nóvember 1832, d. 25. febrúar 1902, Ólafsdóttir, Helgasonar bónda í Barðsvík. Svanborg var hálfstysti Jóns Gíslasonar í Höfn.

Börn: Jósef Jakobsson og Ebenezer Jakobsson, dóu báðir ungir. Plató Jakobsson, fórst undir Hornbjargi 13. júní 1893, ókvæntur. Falur Jakobsson bóndi í Barðsvík og skiptasmiður í Bolungarvík.

Jakob bjó á Faxastöðum í Grunnavík, Þaralátursfirði og síðast í Barðsvík. Hann var ágætur smiður eins og fleiri þeir frændur. Jakob fluttist í Höfn 1868 og mun hafa búið þar í eitt eða tvö ár. Hann var þaðan aftur 1870.


Kristján Jónsson

Kristján Jónsson. F. 6. desember 1844. D. 18. marz 1925.

Foreldrar: Jón Gíslason bóndi í Höfn og kona hans Höfn.

Kona: 26. september 1873, Guðfinna, f. 28. desember 1848, d. 1. desember 1926, Arnórsdóttir, Ebenezerssonar húsmanns á Horni, síðar bónda í Rekavík bak Höfn.

Börn: Finnbjörg Kristjánsdóttir, f. 18. ágúst 1873, fluttist til Eyjafjarðar, giftist ekki. Bjargey Halldóra Kristjánsdóttir, f. 18. marz 1977, d. 29. maí 1894, efnisstúlka. Fósturbörn þeirra hjóna voru: Ólafía Sigmundsdóttir, átti Baldvin Sigfússon. Sigurður Sigurðsson bóndi í Hælavík. Jakob Guðleifsson, fórst af slysförum í Hælavíkurbjargi 16. júlí 1914. Bjargey Halldóra Pétursdóttir kona Sigmundar Guðnasonar bónda í Hælavík.

Kristján bjó í Höfn 1873-1900. Bóndi í Hælavík 1900-20. Kristján var greindur maður, fróður og góður rímmaður, skrifaði nokkrar greinar í blöð.


Sigmundur Jónsson

Sigmundur Jónsson. F. í marz 1862. D. 27. jan. 1893.

Foreldrar: Jón Gíslason bóndi í Höfn og kona hans Ingibjörg Sigmundsdóttir.

Kona: 19. sept. 1889, Júdit, f. 27. apríl 1867, d. 12. janúar 1906, Kristjánsdóttir, Guðmundssonar bónda á Steinólfsstöðum. Hún átti síðar Fal Jakobsson bónda í Barðsvík. Sjá Horn. Þau Sigmundur áttu ekki börn, sem komust til þroska.

Sigmundur bjó í Höfn 1889-93. Skýr maður og vel gerður. Hann hafði forstöðu fyrir fyrsta vísi að útibúi Ásgeirsverzlunar í Höfn.


Snorri Einarsson

Snorri Einarsson. F. í sept. 1837. D. 23. janúar 1915.

Foreldrar: Einar Sigurðsson bóndi á Stað í Grunnavík, síðar á Horni, og kona hans Guðfinna Sigmundsdóttir.

Kona 1: 15. sept. 1867, Sigurborg, f. 17. janúar 1831, d. 24. des. 1867, Stígsdóttir, Jónssonar bónda á Sútarabúðum.

Barn: Jakob Snorrason bóndi í Tungu og húsmaður á Sæbóli.

Kona 2: 28. sept. 1870, Salbjörg, f. 2. ágúst 1836, d. 1. apríl 1880, Jóhannesdóttir, Jónssonar bónda í Kvíum.

Barn: Jóel Snorrason, Látrum húsmaður á Látrum.

Snorri var húsmaður í Höfn 1867-73. Húsmaður í Hlöðuvík 1873-75. Húsmaður og bóndi í Höfn 1875-98. Bóndi í Hælavík 1898-99. Bóndi Tungu 1899-1913. Fluttist þá að Látrum og átti þar heima síðustu tvö árin.


Baldvin Sigfússon

Baldvin Sigfússon. F. 10. september 1847. D. 4. apríl 1928.

Foreldrar: Sigfús Rafnsson og Sigríður Stígsdóttir vinnuhjú á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi.

Kona: 18. september 1873, Lovísa, f. 4. maí 1843, d. 18. september 1924, Jónsdóttir, Gíslasonar í Höfn. Þau barnlaus. Fóstursynir þeirra voru Baldvin Jakobsson í Hælavík og Sigmundur Falsson skipasmiður á Ísafirði.

Baldvin var fyrst í húsmennsku í Höfn 1873-83. Bóndi í Reykjafirði á Ströndum og Bjarnanesi 1883-1900. Húsmaður á Horni 1900-1912. Húsmaður í Hælavík 1912-20. Þau hjón voru síðast heimilisföst á Búðum í Hlöðuvík og önduðust þar bæði.

Ólafur Andrésson

Ólafur Andrésson. F. 24. júní 1825. D. 27. júlí 1879.

Foreldrar: Andrés Gíslason bóndi í Höfn og kona hans Valgerður Þorsteinsdóttir.

Kona: 12. sept. 1875, Ástríður, f. 15. apríl 1832, d. 19. apríl 1890, Þorsteinsdóttir, Halldórssonar húsmanns á Sléttu og síðast bónda á Hesteyri.

Barn: Stefán Ólafsson, f. 18. okt. 1873, átti Bjargeyju Sigurðardóttur, voru búsett í Grunnavíkurhreppi.

Ólafur Andrésson var lengst heimilisfastur í Höfn og mun hafa verið þar húsmaður og í Rekavík bak Höfn. Hann andaðist í Hælavík.


Betúel Betúelsson

Betúel Betúelsson. F. 11. apríl 1857. D. 18. janúar 1952.

Foreldrar: Betúel Jónsson bóndi á Dynjanda, síðar í Tungu í Fljóti, og kona hans Solveig Jónsdóttir.

Kona: 25. sept. 1891. Anna Jóna, f. 7. des. 1872, d. 25. des. 1959, Guðmundsdóttir, Þorsteinssonar bónda á Hesteyri.

Börn: Sölvi Guðmundur Sigurgeir Betúelsson bóndi og hreppstjóri á Hesteyri. Guðmundur Betúelsson bóndi á Kaldá í Önundarfirði, ókv. Betúel Jón Betúelsson bóndi í Görðum. Ingibjörg Betúelsdóttir, f. 18. nóv. 1898, giftist ekki. Sumarliði Betúelsson bóndi í Höfn. Anna Anika Betúelsdóttir, f. 19. des. 1901, giftist ekki, var ráðskona hjá Guðmundi bróðir sínum. Jón Betúelsson, f. 29. ágúst 1903, d. 8. sept. 1966, skósmiður í Reykjavík, átti Elísabet Friðriksdóttur. Pálína Betúelsdóttir, f. 23. júní 1905, giftist ekki. Guðbjartur Betúelsson, f. 14. janúar 1908, rafvirkjameistari í Reykjavík, kvæntur Gerdu Rasmussen. Sigurður Betúelsson, f. 16. júlí 1909, bifreiðastjóri í Reykjavík, kvæntur Guðrúnu Auðunardóttur. Ólafur Páll Betúelsson, f. 23. janúar 1911, strætisvagnstjóri í Reykjavík, átti Kristjönu Sólbjörtu Kristjánsdóttur.

Betúel Betúelsson bjó í Höfn 1895-1934. Hann fluttist þá vestur að Kaldá í Önundarfirði og átti þar heima síðan. Betúel var verslunarstjóri fyrir útibú Ásgeirsverzlunar í Höfn. Hygginn maður og vel að sér.


Eiríkur Guðjónsson

Eiríkur Guðjónsson. F. 25. nóvember 1908.

Foreldrar: Guðjón Kristjánsson bóndi í Skjaldarbjarnarvík í Árneshreppi og kona hans Anna Jónsdóttir.

Kona: 13. júní 1935, Gunnvör Rósa, f. 15. júlí 1905, d. 2. maí 1967, Samúelsdóttir, Hallgrímssonar í Skjaldabjarnarvík.

Börn: Eyvindur Pétur Eiríksson, f. 13. des. 1935, gagnfræðaskólakennari í Reykjavík, kvæntur Margréti Guðmundsdóttur kennara. Guðjón Kristján Eiríksson, f. 26. júní 1939, bifvélavirki í Reykjavík, kvæntur Ragnheiði Jónsdóttur.

Eiríkur bjó í Höfn 1937-38. Bóndi á Búðum 1938-43. Fluttist til Ísafjarðar 1943.


Sigmundur Guðnason

Sigmundur Ragúel Guðnason. F. 13. desember 1893.

Foreldrar: Guðni Kjartansson bóndi í Hælavík og kona hans Hjálmfríður Ísleifsdóttir.

Kona: 2. okt. 1920, Bjargey Halldóra, f. júní 1902, Pétursdóttir, Jóhannssonar úr Látravík, ólst upp hjá Kristjáni Jónssyni í Hælavík.

Börn: Pétur Sigmundsson, f. 1. sept. 1921, kvæntur Birnu Þorbergsdóttur, verkamaður á Hjalteyri í Eyjafirði. Guðný Hjálmfríður Sigmundsdóttir, f. 16. sept. 1922, kona Reynis Jónssonar verkamanns í Keflavík. Petólína Sigmundsdóttir, f. 16. sept. 1922 (þær tvíburar), átti Guðmund Ólaf Guðjónsson smið úr Þaralátursfirði. Hann fórst í Hornbjargi 1. júní 1954. Jón Þorkell Sigmundsdóttir, f. 11. janúar 1925, sjómaður í Bolungarvík, bjó á Horni 1951-52, kvæntur Huldur Eggertsdóttur úr Bolungarvík. Kjartan Hólm Sigmundsson, f. 22. des. 1927, sjómaður, kvæntur Maríu Hallgrímsdóttur frá Dynjanda í Jökulfjörðum. Guðfinna Ásta Sigmundsdóttir, f. 20. febrúar 1931, kona Jóns Guðmundssonar verkamanns í Keflavík. Ingibjörg Unnur Sigmundsdóttir, f. 20. maí 1933, kona Arnórs Jónssonar, búsett á Ísafirði. Trausti Sigmundsson, f. 24. nóv. 1937, ókvæntur.

Sigmundur var bóndi í Hælavík 1920-37. Bóndi í Rekavík 1937-1940. Bóndi í Höfn 1940-42. Vitavörður og bóndi í Látravík 1942-1947. Fluttist til Ísafjarðar 1947 og bjó þar síðan. Skáldmæltur. Ljóðabók hans, Brimhljóð, kom út 1955.


Jón Þorbjörnsson

Jón Þorbjörnsson. F. 22. apríl 1907.

Foreldrar: Þorbjörn Guðmundsson bóndi á Steig í Jökulfjörðum, síðar í Kjaransvík og á Steinólfsstöðum og kona hans Guðrún Jensdóttir.

Kona 12. febrúar 1931, Guðrún, f. 4. marz 1886, Samúelsdóttir, Guðmundssonar húsmanns í Höfn og síðar á Horni. Barnlaus.

Jón var húsmaður á Horni 1931-1941. Bjó í Hælavík 1941-43. Húsmaður á Hesteyri 1944-47, en fluttist þá til Súðavíkur.


Sumarliði Betúelsson

Sumarliði Betúelsson. F. 20. apríl 1900.

Foreldrar: Betúel Betúelsson bóndi í Höfn og kona hans Anna Guðmundsdóttir. Ókvæntur og barnlaus.

Sumarliði var bóndi í Höfn 1934-44. Hann keypti jörðina og byggði á henni timburhús. Hann bjó oft einn og var síðasti ábúandinn í Höfn. Hann fluttist til Ísafjarðar 1944 og nokkru síðar til Reykjavíkur.