Höfn
Efnisyfirlit
Ós allvatnsmikill rennur í Hornvík austanverða og skilur lönd Horns og Hafnar. Innan við ósinn er sandmelur allhár næst sjónum, en ofan við hann er nokkurt undirlendi í botni víkurinnar. Út í víkina gengur hátt fjall, Hafnarfjall, og skilur lönd Hafnar og Rekavíkur bak Höfn. Vogur sá, er myndast austan við fjallið er nefndur Hafnarbás. Austan undir Hafnarfjalli stendur bærinn Höfn á rana, er gengur austur úr fjallinu. Túnið er allstórt, og skiptast þar á grasbalar og dýjaveitur.
Hafnar er fyrst getið í rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju 1327. Þar segir, að kirkja í Vatnsfirði eigi fimmtung og sjöttung hvalreka í Höfn.
Í Gíslamáldögum frá því um 1570 er talið meðal eigna Eyrarkirkju í Seyðisfirði „Jtem Landhøffn Lxxx alner í landskylld“. Landhöfn hef ég hvergi annars staðar fundið. Í nafnaskrá fornbréfasafns stendur raunar „Landhöfn í Álptafirði vestra“, en þar hefur hvorki fundizt getið Hafnar né Landhafnar í nokkrum heimildum. Hygg ég það því ágizkun eina, þar eð Eyrarkirkja átti jarðir í Álftafirði. Ég gizka eindregið á, að Landhöfn þessi sé Höfn á Ströndum. Í fyrrnefndum reikningi um styrjaldarhjálp til konungs frá 1681 er Höfn talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar á Eyri við Seyðisfjörð og konu hans. Eyri var þá meðal óðalsjarða þeirra hjóna. En á spássíu reikningsins stendur við Höfn og tvær jarðir í Álftafirði: „Kirkjunnar jarðir á Eyri“. Viðrist Magnús því hafa haft umboð kirkjujarðanna, og því eru þær taldar með jörðum hans. Árið 1703 er Höfn talin kirkjujörð, og 1710 var eigandi hennar Eyrarkirkja í Seyðisfirði „og proprietarii þar til“. Verður ekki annað séð en hún hafi síðan verið í eigu Eyrarkirkju, a.m.k. til 1847. Hið næsta sem fundizt hefur skráð um þetta efni, er þinglýsing gjafabréfs Jóns Guðmundssonar, bónda í Eyrardal, til Magnúsar Torfasonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu, fyrir allri jörðinni. Hefur gjafabréfið verið dagsett 9. september 1915. Er því líklegt, að Jón hafi keypt jörðina af Eyrarkirkju, þó að samtíma heimildir skorti. Síðasti ábúandi jarðarinnar, Sumarliði Betúelsson, keypti hana aftur af Magnúsi sýslumanni um 1936 á 2500 kr. og á hana enn.
Dýrleiki og afgjald
Í reikningnum góða frá 1681 stendur við Höfn, þar sem hún er talin meðal jarða Magnúsar sýslumanns Magnússonar:
Höfn 8 hndr. — landskuld 80 [álnir]. Eignarkúgildi 1.
En þar, sem hún er talin meðal ábúðarjarða leiguliða, stendur:
Höfn, leiguliði Oddur Jónsson, landskuld 80 álnr, leigukúgildi 1½. Eignarkúgildi 0.- 3 fjórðungar. Eiríkur þar, landskuld 30 álnir, leigukúlgildi 1.- 2 fjórðungar
Samkvæmt þessu hefur landskuld af allri jörðinni verið 110 álnir, og 2½ leigukúlgildi fylgt henni. Er ekki ósennilegt, að kirkjan á Eyri hafi átt 1½ kúgildi og tekið 30 álnir í landskuld, en sýslumaður sjálfur það, sem honum er talið er hér að ofan.
Öllum heimildum ber saman um fornt mat jarðarinnar, þ.e. 8 hundruð. En landskuld hefur minnkað snemma og leigukúgildi fallið niður. Svo segir jarðabókin 1710:
Landskuld xl álnir síðan bóluna, áður lxxx álnir. Betalast í fiski eður landaurum, oftast innan hrepps þángað sem til sagt er, eftir proportion.
Kúgildi ekkert í margt ár, en áður meir en fyrir 30 árum var hjer eitt og þriðjúngur annars, og betalaðist þá leigur í fiski eður landaurum.
Árið 1788 hefur Höfn svo verið metin til 26 ríkisdala, landskuld verið 1 rd. 12 sk. Við nýja jarðamatið 1849 var Höfn metin minna en að meðallagi og eki gert ráð fyrir kúgildi. Hvert fornt hundrað var metið 18 ríkisdalir og jörðin öll 144 ríkisdalir. Við fasteignamat 1942 var heildarmat Hafnar 5700 kr., þar af 2000 kr. í landi og 3700 í húsum.
Landkostir
Svo segir í jarðabók 1710:
Fóðrast kann á allri jörðinni vi kýr, xxx ær, xv lömb, ii hestar. Torfrista og stúnga lök og sendin. Móskurður til eldiviðar lítt nýtandi. Silúngsveiði lítil í Hafnarós, brúkast þó. Grastekja næg. Rekavon lítil og heppnast sjaldan. Túninu grandar sandfok til stórskaða. Enginu grandar vatn, sem jetur úr rótina. Kirkjuvegur yfir allan máta torsóktur og erfiður, þingmannaleið áleiðis, og sækir fólkið því stundum kirkjuna einu sinni á vetri, stundum aldrei. Hreppamannaflutningur lángur og torsóktur yfir Krákugil sem er oftast ófært á vetur. Heimræði er hjer ár um kríng þá fiskur er fyrir, og lending er góð, og gengur hjer nú eitt skip ábúenda, áður hafa stundum gengið tvö.
Ólíkt feguri lýsingu gefur Ólafur Olavíus frá sumrinu 1775:
Man maae tilstaae, at Skaberen ikka har været sparsom paa sin Godiøremjed. dem Gamg demme Bugt blev dannet; thi foruden rigeligt Strand-Fiskerie og Forellefangst, ere baade Dalene, Fieldsiderne, Tunet eller Hiemme-Marken og Engene, fosynede med overflødigt Græs, hvortil kommer en tryg Landing og brugbar Havn om Sommerdage i Nærværelsen, ikke at tale om Hornbierget, der og giver sine Fordeele. Dog maae jeg erindre, at Landingen, som roeses saa meget, kom mig heel mistænkelig for, efterdi den laae tæt ved en lav Klippe-Rad eller Bælte, der gik ud Søen, og det paa Havsiden; hvorpaa Bølgerne endelig maae kunne støde an, og foraarsage Uroe ved Strandbredden; men Erfarenhed, og Fiskernes Forsikkringer faae her at gielde for gode Vidner
Hér má sjá, að Olavíus hefur talið nálægt við Hornbjarg til mikilla hlunninda, og verður að hafa fyrir satt, að Hafnarbændur hafi a.m.k. á þeim tíma sótt þangað björg, þótt þess sé ekki sérstaklega getið í jarðabókinni. Olavíus getur þess enn fremur, að sjór hafi lækkað í Höfn, því að hann hafi séð þar 60 álna löng tré og lengri, 500 föðmum ofar en sjór gekk þá hæst, en nú séu þau að mestu eða öllu leyti hulin grassverði. Sums staðar sá Olavíus digra trédrumba standa út úr jörðinni langt fyrir ofan Höfn. Hvað sem segja má um bollaleggingar Olavíusar um lækkun sjávarins, sýna þessi ummæli, að reki hefur verið allmikill í Höfn, þótt jarðabókin geri lítið úr honum. Þá athugaði Olavíus allnáið hafnarskilyrði í Höfn, og telur hann Hafnarbásinn sæmilega sumarhöfn, enda liggi Hollendingar þar ósjaldan við stjóra.
Þannig leizt Olavíusi á Höfn 1775. Sr. Jón Eyjólfsson leit ekki eins björtum augum á landkosti Hafnar árið 1847:
Tún snöggt mjög og sandorpið. Engjar miklar og góðar. Útigangur enginn, fjara því nær. Reki í minna lagi. Móskurður enginn. Jafnviðri mest af norðri, ofsi af vestri, brimlaust. Lítið um fisk.
Líka sögu segir álitsgerð matsnefndarinnar frá 1849:
Sandfok, túnleysi, árennsli og vetrarþyngsli valda því að jörð þessa skortir svo mjög við meðaljarðir.
Jarðabókin telur lendingu góða í Höfn, en Olavíusi leizt hún ótrygg. Sr. Jón segir hins vegar aðeins „brimlaust“. Munu þær aðstæður hafa bjargað fimm skipshöfnum frá drukknun í norðanveðri, sem gerði snemma í marz 1897. Þá strönduðu fimm þilskip hjá Höfn, en menn björguðust allir. Í sama veðri fórst eyfirzka hákarlaveiðiskipið Draupnir í Barðsvík, og öll áhöfn týndist. „Lítið um fisk“, segir sr. Jón enn fremur, og mun það vafalítið svo að skilja, að vantað hefur nógu stóra báta til að sækja á gjöfulli mið. Til landbúskapar virðist jörðin hafa verið í betra lagi. Sandágangur hefur spilt jörðinni mest, enda má nú svo heita, að allur austurhluti víkunnar sé sandorpinn. Þó er melgresið nú á góðri leið að græða upp a.m.k. talsverðan hluta sandsins. Mýrlendi er hins vegar, þegar nær dregur Hafnarfjalli, og hefur trúlega verið rýrt, meðan búið í Höfn, þótt loðið væri eftir áratuga friðun sumarið 1964.