Horn
Ef litið er á kort af Vestfjörðum, sést, að strandlengjan frá Bitrufirði og norður til Horns liggur í meginstefnu frá suðaustri til norðvesturs, mjög vogskorin. Vestan Horns er svo vík allstór, sem nefnd er Hornvík. Líklegt þykir mér, að nesið austan víkurinnar hafi upphaflega verið nefnt Horn einu nafni. Þessa skoðun styðja nöfnin Hornbjarg norðaustan á nesinu og Hornströnd, sem virðist vera upphaflegt nafn á bænum Horni, en ætla má, að hafi verið haft um strandlengjuna frá nyrztu nestánni, sem nú er nefnd Hornkletturinn eða aðeins horn, og inn að Hafnarós, sem fellur í botn víkurinnar austanvert og skilur lönd Horns og Hafnar.
Bærinn á Horni stendur á vesturströnd nessins á allhárri brekkubrún, en grasi vaxnir hjallar ganga þaðan niður að sjónum. Upp af bænum er lág hamrahlíð, en þar fyrir ofan rís hæsti tindur Hornbjargs, Kálfatindur. Lítið undirlendi er á Horni, en vestan á Hornbjargi eru þrír dalir allgrösugir. Heitir sá nyrzti Yztidalur milli Núps að norðan og Miðfells að sunnan. Sunnan Miðfells heitir Miðdalur upp af bænum. Sunnan við Miðfell er klettaegg, sem skagar vestur úr Hornbjargi og heitir Múli. Sunna við Múla er Innstidalur eða Bæjardalur, og nær hann að Dögundarfelli. Um Innstadal liggur leið upp í Almenningaskarð, suður fyrir Hornbjarg til Austur-Stranda.
Í Vilkinsmáldaga 1397 (máldaga Eyrar í Arnarfirði) er nefnd jörðin Hornströnd:
Mariukirkia oc hins heilaga Peturs a Eyri j Arnarfirdi a Karlstadi oc Hornstrond med ollumm giædumm,tolli oc vidumm hvorutueggium ... Þetta lagdi Thomas Snarttarson til kirkiu a Eyri tolfttung i hvalreka a Hornstrond.
Ekki verður nú séð, hvenær jörðin hefur komizt í eigu Hrafnseyrarkirkju. Líklegt má telja, að Tómas Snartarson, sem hér getur, sé hinn sami og kemur við sögu staðamála hinna síðari og tók við Selárdal árið 1284. Hefur Tómas verið mikils virtur höfðingi, þótt beggja vinur væri í staðamálum. Árið 1301 kom hann heim frá Noregi, með Gullskónum, sem þá kom út í Dýrafirði, og mundi þess naumast getið, nema um stórhöfðingja væri að ræða. Getur vel verið, að Tómas hafi gefið Eyrarirkju jörðina alla, þótt aðeins sé getið rekaítaksins í Vilkinsmáldaga, en um það skortir heimildir. Það eitt má fullyrða, að jörðin hefur byggð verið á dögum Tómasar Snartarsonar.
Hrafnseyrarirkja átti Horn, þar til á síðari hluta 19du aldar, að Stígur bóndi Stígsson keypti hana. Ekki hefur tekizt að finna, hvaða ár það hefur gerzt, en hann hefur átt hana ásamt stjúpsyni sínum, Elíasi Einarssyni, er hann lést 1899.
Nú er jörðin í eigu afkomenda Stígs og fóstursonar Elíasar, Kristins Platós Grímssonar (d. 1966).
Efnisyfirlit
Dýrleiki og afgjald
Elzta heimild um þetta efni er frá 1681 í skýrslu um styrjaldarhjálp til Kristjáns konungs V. Þar segir:
Horn, leiguliði Jón — landskuld 60 álnir — leigukúgildi 0 — rester
Árið eftir hefur verið gengið harðar að Jóni:
Horn, kirkjujörð, leiguliði Jón Jónsson — landskuld 60 álnir — hans vegna betalt nú — 1 fjórðungur.
Í manntali 1703 er jörðin skráð 6 hndr. að dýrleika, og í jarðabókinni frá 1710 segir svo:
Jarðardýrleiki vi hndr., og svo tíundaðist meðan bygt var ... Landskuld lx álnir. Betalaðist í landaurum hér heima. Leigukúgildi ekkert fyrr nje síðar svo menn viti. Kvaðir öngvar.
Aðeins ein heimild frá 18du öld telur Horn vera 4 hndr. að fornu mati, annars ber öllum heimildum saman. En Ólafur Olavíus segir í ferðabók sinni:
Gaarden Horn, den nordligste i heele Island, fordi den ligger ved Siden af Cap de Nord, er 4 Hundrede i Dyrhed og tilhörer Rafnsöre Kirke.
Naumast getur hér verið um að ræða nýtt mat á jörðinni, því að árið 1788 er hún talin 6 hndr. Hlýtur því að hafa slæðzt inn villa hjá Olavíusi eða hann fengið rangar upplýsingar.
Árið 1788 hefur staðarhaldari Hrafnseyrarkirkju metið Horn til 20 ríkisdala, en landskuld hefur þá verið metin 68 skildingar. Við jarðamat 1859-50 var það álit matsmanna, að Horn bæri að meta meira en að meðallagi, þ. e. að hvert hundrað að fornu mati væri dýrara en ákveðið meðalverð, sem var 35—26 ríkisdalir. Í Horni var hvert fornt hundrað metið 38 ríkisdalir. Jörðin var þannig metin til 38 sinnum 6, þ. e. 238 ríkisdalir.
Við fasteignamat 1942 var heildarmat Horns 26.600 krónur, þar af 14.500 í landi og 12.100 í húsum.
Landkostir
Í jarðabókinni frá 1710 segir svo um Horn:
Fóðrast kunni seinast bygt var ii kýr, xii ær, vi lömb, i hestur. Torfrista og stúnga lítt nýtandi. Eggver og fuglveiði af svartfyglu í Hornbjargi merkilega góð en stórlega erfið, því síga þarf fertugt og sextugt bjarg, og hefur ábúandi sjaldan verið so liðaður að hann hafi getað nýtt þetta eggver að fullu. NB. Nokkrir vilja halda að þetta eggver í nefndu Hornbjargi sje almenníngur og heyri ekki Horni til framar en öðrum, sem brúka vilja, og því hafa margir þetta eggver í leyfisleysi brúkað a´samt Hornsmönnum. Horn á þó átölulaust land alt á bjarginu uppi, en almenníngur er haldinn reki undir því, sem ýmsir nýta. Grastekja er næg. Rekavon lítil fyrir jarðarinnar landi, en ábúandi brúkaði mest við úr almenníngum til búsnauðsynja sinna. Tún er grýtt og seinunnið. Engið spillist af vatni, sem jetur úr rótina, og engjavegurinn mjög erfiður. Hætt er kvikfje fyrir að hrapa fyrir Hornbjarg, einkanlega í stórviðrum, og verður oft mein að því. Kirkjuvegur bæjarleið lengri en áður segir um Höfn. Hreppamannaflutníngur bæði illur og lángur. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórviðrum. Heimræði hefur hjer verið meðan bygt var, og lending sæmlileg, og brúkaðist það heimræði jafnlega árið um kring meðan fiskur var fyrir, og gekk eitt skip ábúandans, sjaldan fleiri.
Hér er greinilega lögð mest áherzla á hlunnindi, sem Hornsbændur höfðu af bjarginu. Af orðalaginu er helzt að ráða, að lítið hafi verið á hlunnindi þessi sem séreign Hornsbænda. Engin ákvæði hef ég fundið um þetta, og virðist líklegast, að þau hafi aldrei verið gerð, en hver nýtt bjargið, sem gat, enda af nógu að taka.
Næsta heimild um landkosti á Horni er ferðabók Olavíusar. Hann segir svo
Gaarden Horn ... har kun liden Græsning, hvorfor Beboeren meest nærer sig af Forelle- og Sælhunde-Fangst, samt Fiskerie, uagtet Landingerne ikke ere alt for sikkre.
Þótt undarlegt sé, minnist Olavíus hér hvorki á fugla- né eggjatekju. Silungsveiði á Horni er hvergi annars staðar getið, svo að ég viti, og litlar sögur fara af selveiði þar. Þó má sjá af ljóðabréfi, er Hallvarður Hallsson ritaði Daða Ormssyni árið 1744, að selveiði í nætur hefur veirð stunduð á Hornströndum á 18du öld.
Þeir, sem eiga nýja nót á Norður-Ströndum,
selveiðina hafa í höndum,
hvar þeir koma fyrir sig böndum.
Hér skal næst rakin umsögn sr. Jóns Eyjólfssonar í sóknarlýsingu hans 1847:
Bærinn stendur fyrir utan ána, en hún rennur í gegnum túnið. Túnið er grasgefið, en þýft. Engjar litlar heldur og laklegar. Grasbeit á sumrum fyrirtaks góð, lítil á vetrum, en 18 vikna fjara. Reki mikill og fuglaafli. Mótak ekkert. Lítið um fisk. Brimasamt, ofviðrasamt af allri norðanátt.
Hér segir sr. Jón „lítið um fisk“. Víst er þó, að skip áttu Hornsbændur á þessum tíma, eins og raunar alltaf, þegar sögur fara af, og oftast stór, sex- eða áttæringa og jafnvel teinæringa. en vel má vera, að þau hafi meira verið notuð til aðdrátta og í hákarlalegur en til fiskiróðra á þessum tíma. Verður nánar vikið að því efni síðar.
Umsögn matsmanna 1849 er á þessa leið:
Að sönnu skagar jörð þessi langt út til hafs og er óþerrasöm og erfið til slægna, en hægð til sjóar, útibeit á vetrum, landkostir, viðarreki töluverður, fuglafli mikill úr bjargi og undan og hægð til viðskipta er svo atkvæðamikil, að jörðin skarar langt fram úr meðaljörðum.
Ljóst er af framangreindum ummælum, að jörðin er lítt fallin til landbúskapar. Jarðabókinni og sr. Jóni Eyjólfssyni ber ekki saman um rekann, en vafalaust er þó, að mikill fengur hefur verið að honum á 19du öld, þótt hann kunni að hafa verið minni áður. En það, sem gefið hefur jörðinni langmest gildi, bæði fyrr og siðar, er tvímælalaust nálægðin við Hornbjarg. Það var sú náma, sem aldrei brást, þó að harðnaði í ári.
Ábúð og afkoma
Þess er áður getið, að Horn hefur verið í byggð árin 1681—82, þó aðeins einbýli, og erfiðlega hefur veitt að innheimta hjá bóndanum hina illræmdu styrjaldarhjálp. En árið 1703 var þar tvíbýli, og 9 manns áttu þar heima. Árið 1710 blasir við önnur mynd:
Þessi [jörð] hefur í eyði legið síðan bóluna.
„Bólan“ er að sjálfsögðu stóra bóla, sem geisaði hér á landi árið 1707. Lagði hún í eyði flestar jarðir á Vestur-Ströndum, og byggðust margar þeirra ekki fyrr en mörgum áratugum seinna. Um Horn er það eitt vitað, að það hefur verið í eyði 1735, en verið komið í byggð aftur 1753. Þó er til bending um, að bær hafi staðið á Horni 1744, því að Hallvarður Hallson segir í ljóðabréfi sínu:
Leit ég síðan Hornbæ, Höfn og háa sands,
en á svið til hægri handar
Hælavíkurbjargið standa.
Árið 1753 bjó á Horni Kolbeinn Jónsson, taldi fram eitt hundrað lausafjár og galt tvo fjórðunga í gjaftoll. Árið 1756 var hallur Erlendsson bóndi þar, eins og sjá má af tíundarreikningi, er gerður var að Sléttu 7. september það ár. Enn bjó Hallur á Horni 1760 og 1762. Hefur hann þá verið 71ns árs og haft fimm manns í heimili. Enn er heimild um byggð á Horni 1767, en ábúanda ekki getið. Horn hefur verið í byggð 1775, er Ólafur Olavíus var þar á ferð. Frá þeim tíma verður ekki annað séð en jörðin hefur verið í byggð til 1946.
Bústofn
Ár | Bændur | Íbúar | Nautgripir | Sauðfé | Hross |
---|---|---|---|---|---|
1787: | 1 | 5 | — | 17 | — |
1790: | 1 | 7 | 1 | 27 | — |
1795: | 1 | 5 | 1 | 25 | — |
1805: | 1 | 10 | — | 40 | — |
1810: | 2 | 12 | — | 23 | — |
1815: | 2 | 10 | — | 30 | — |
1821: | 1 | 10 | 2 | 11 | — |
1825: | 1 | 9 | 1 | 18 | — |
1831: | 1 | 13 | 1 | 23 | 2 |
1835: | 1 | 12 | 3 | 17 | 1 |
1841: | 1 | 13 | 2 | 16 | 1 |
1847: | 2 | 17 | 2 | 100 | 2 |
1850: | 1 | 9 | 1 | 35 | 1 |
1855: | 1 | 11 | 2 | 61 | 3 |
1860: | 1 | 17 | 1 | 42 | 2 |
1865: | 1 | 16 | 1 | 33 | 2 |
1870: | 1 | 13 | 3 | 38 | 2 |
1874: | 1 | 14 | 1 | 39 | 2 |
1880: | 1 | 12 | 2 | 56 | 2 |
1885: | 2 | 16 | — | 64 | 2 |
1890: | 2 | 13 | 3 | 42 | 2 |
1895: | 2 | 19 | 4 | 66 | 3 |
1900: | 2 | 19 | 4 | 94 | 1 |
1905: | 2 | 20 | 3 | 44 | 2 |
1910: | 2 | 25 | 4 | 92 | 2 |
1914: | 2 | 18 | 2 | 110 | 4 |
1942: | (meðalt. 5 ára) | 5 | 217 | 4 |
Túnstærð og heyfengur
Ár | Tún dagsláttur | Taða hestar | Úthey hestar |
---|---|---|---|
1885: | 5 | 22 | 200 |
1890: | 5 | 17 | 90 |
1895: | 6 | 43 | 250 |
1900: | 6 | 35 | 240 |
1905: | 6 | 30 | 220 |
1942: | (meðalt. 5 ára) | 153 | 300 |
Skipa- og bátaeign
Fisk- og fuglaafli
Ábúendur
Sigfús Semingsson F. um 1657. Dánarár ókunnugt. Hann mun hafa verið sonur Semings Ólafssonar bónda á Steinólfsstöðum í Grunnavíkurhreppi.
Kona: Ástríður Þorleifsdóttir, f. um 1668. Börn: Narfi Sigfússon, f. um 1695, Þorleifur Sigfússon, f. um 1700 og Guðrún Sigfúsdóttir, f. 1702. Sigfús Semingsson bjó á Horni 1703, þegar manntalið var tekið, en eftir það er ekki um hann vitað eða börn hans.
Þórður Semingsson. F. um 1658. Dánarár ókunnugt. Þórður mun hafa verið bróðir Sigfúsar.
Kona: Ástríður Jónsdóttir, f. um 1667.
Dóttir þeirra var Guðrún Þórðardóttir, f. um 1698.
Þórður bjó á Leiru í Jökulfjörðum 1681, en var bóndi á Horni 1703, þegar manntalið var tekið.
Kolbeinn Jónsson. F. 1689. Var á lífi 1753. Foreldrar: Jón Þorbjörnsson bóndi í Efri-Miðvík og kona hans Guðrún Jónsdóttir.
Börn: Bjarni Kolbeinsson. Jósef Kolbeinsson. Jón Kolbeinsson bóndi á Hesteyri. Þorsteinn Kolbeinsson. Sigríður Kolbeinsdóttir og Sigþrúður Kolbeinsdóttir, konar Magnúsar á Skjaldfönn.
Kolbeinn bjó í Rekavík 1735 og hefur þá líklega verið búinn að búa þar um nokkurt árabil. Um fjölskyldu hans og heimili spannst eina morðmálið, sem vitað er um í Sléttuhreppi.
Vorið 1744 komu tvær persónur á báti í Rekavík, Sveinn Jónsson og Sigríður Jónsdóttir. Þau höfðu strokið úr Arnarfirði og leituðu þarna skjóls. Tók Kolbeinn við þeim. Sigríður dó í Rekavík, en Sveinn komst til hollenzkra með hjálp Kolbeins bónda. Löngu seinna kvisaðist að Bjarni Kolbeinsson hefði orðið Sigríði að bana. Það var ekki fyrr en 1760 að mál þetta var rannsakað. Bárust öll bönd að Bjarna, en hann mun hafa þverlega neitað allri sök. Hann var dæmdur til lífláts á Sléttuþingi og staðfesti lögmannsdómur. En hæstiréttur breytti endanlega dómnum í tveggja ára betrunarhúsvist í Reykjavík. Þá hegningu þoldi Bjarni, og hefur þau ár unnið að byggingu hegningarhússins í Reykjavík, nú stjórnaráðshússins. Að lokinni refsivistinni slapp Bjarni, en ekki er vitað, hvað af honum þá varð. Áður en hann var tekinn fyrir morðsökina, var hann sakaður og klagaður af séra Snorra Björnssyni á Stað í Aðalvík fyrir barneignir og vanrækslu á kirkjusókn.
Kolbeinn hefur líklega leitað norður á Strandir, að Horni, eftir atburðina í Rekavík. Þar bjó hann 1753, en var dáinn 1760, þegar rannsóknin á morðmálinu hófst.
Óljósar sagnir hafa geymzt í Sléttuhreppi um þá feðga, Kolbein og Bjarna, en þar hafa þeir verið nefndir stundum öðrum nöfnum.
Hallur Erlendsson (Hallur á Horni) F. um 1699. Var enn á lífi 1762.
Foreldrar: Erlendur Þorsteinsson og kona hans Arnbjörg Erlendsdóttir. Þau bjuggu í Laxárdal í Dalasýslu.
Kona: Sigríður Hallvarðsdóttir.
Synir þeirra voru: Hallvarður Hallsson skáld á Horni og síðast í Skjaldbjarnarvík. Jón Hallsson.
Hallur Erlendsson bjó fyrst að Lambastöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Bóndi á Felli í Kollafirði í Strandasýslu 1735. Hann var orðinn bóndi á Horni 1756 og mun hafa búið þar til dánardags. Hallur er fræg þjóðsagnarpersóna.