Falur Jakobsson, Barðsvík
Falur Jakobsson. F. 1. nóvember 1872. D. 12. desember 1936.
Foreldrar: Jakob Ebenesersson bóndi í Þaralátursfirði og kona hans Svanborg Ólafsdóttir.
Kona: 1894, Júdit, f. 27. apríl, d. 12. janúar 1906, Kristjánsdóttir, Guðmundssonar bónda á Steinólfsstöðum. Hún átti áður Sigmund Jónsson í Höfn.
Börn: Mildríður Sigríður Friðgerður Falsdóttir, f. 16. marz 1895, átti fyrr Jón Elíasson sjómann í Bolungarvík. Hann drukknaði eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni maður hennar er Vigfús Jóhannesson verkstjóri í Reykjavík. Jakob Kristinn Falsson, f. 8. maí 1897, bóndi í Kvíum og skipasmiður á Ísafirði, átti Kristínu Jónsdóttur úr Kvíum. Sigmundur Jón Falsson, f. 14. september 1899, skipasmiður á Ísafirði átti Rögnu Jónsdóttur. Gunnvör Rósa Falsdóttir, f. 26. maí 1902, ógift. Sigurgeir Falsson, f. 10. janúar 1906, ólst upp hjá Guðmundi Kristjánssyni á Horni, fiskkaupmaður í Bolungarvík og síðar skrifstofumaður í Reykjavík, ókvæntur.
Falur bjó í Barðsvík 1894-1906. Hann var húsmaður á Horni 1906-1907. Þá fluttist hann til Bolungarvíkur og bjó þar síðan. Hann var landskunnur skipasmiður og hinn mesti völundur. Mun enginn óiðnlærður skipasmiður hafa smíðað fleiri vélbáta en hann. Segja má að vélbátafloti Bolvíkinga á árunum 1910-35 hafi að langmestu leyti verið smíðaður af honum. Þótti lán fylgja bátum hans.