Munur á milli breytinga „Horn“
(→Ábúð og afkoma) |
|||
Lína 469: | Lína 469: | ||
Stígur andaðist 20. janúar 1899. Síðari kona og ekkja hans, [[Rebekka Hjálmarsdóttir (fædd 1843)|Rebekka Hjálmarsdóttir]], sat í óskiptu búi ásamt [[Haraldur Stígsson (fæddur 1871)|Haraldi]], syni sínum. En Haraldur lézt 1900, og var dánarbú Stígs þá tekið til virðingar 1. febr. 1901. Virðingarupphæðin var 2034 kr. 30 aurar auk viðar, sem ekki var hægt að virða. Uppboð fór fram 14. júní um sumarið, og varð uppboðsfé 796 kr. 65 aurar, en 4 hundruð í jörðinni voru metin á 800 kr. Elías Einarsson, stjúpsonur Stígs, var þá eigandi að 2 hundruðum. | Stígur andaðist 20. janúar 1899. Síðari kona og ekkja hans, [[Rebekka Hjálmarsdóttir (fædd 1843)|Rebekka Hjálmarsdóttir]], sat í óskiptu búi ásamt [[Haraldur Stígsson (fæddur 1871)|Haraldi]], syni sínum. En Haraldur lézt 1900, og var dánarbú Stígs þá tekið til virðingar 1. febr. 1901. Virðingarupphæðin var 2034 kr. 30 aurar auk viðar, sem ekki var hægt að virða. Uppboð fór fram 14. júní um sumarið, og varð uppboðsfé 796 kr. 65 aurar, en 4 hundruð í jörðinni voru metin á 800 kr. Elías Einarsson, stjúpsonur Stígs, var þá eigandi að 2 hundruðum. | ||
− | Af dánarbúi Stígs má sjá, að því fer fjarri, að allt hafi verið gengið af honum, er hann lézt. Af skipum var til áttæringur með rá og reiða, eitt fimmmmannafar og eitt tveggjamannafar. Hús virðast þó hafa verið léleg nema eitt, sem sker úr, „timburhús á hlaðinu, innréttað niðri, þiljað af, 4 álnir og [með] hálfu milliþili í öðrum enda og lofti og skrálæstum hurðum tveimur, á lengd 9 álnir, breidd 6 álnir, virt á 350 krónur“. Þá segir, að fyrrnefnd 4 hundruð að fornu mati í jörðinni séu & | + | Af dánarbúi Stígs má sjá, að því fer fjarri, að allt hafi verið gengið af honum, er hann lézt. Af skipum var til áttæringur með rá og reiða, eitt fimmmmannafar og eitt tveggjamannafar. Hús virðast þó hafa verið léleg nema eitt, sem sker úr, „timburhús á hlaðinu, innréttað niðri, þiljað af, 4 álnir og [með] hálfu milliþili í öðrum enda og lofti og skrálæstum hurðum tveimur, á lengd 9 álnir, breidd 6 álnir, virt á 350 krónur“. Þá segir, að fyrrnefnd 4 hundruð að fornu mati í jörðinni séu „með stærri og betri baðstofu en áður var með allri jörðinni“. En bústofninn hefur verið lítill, 15 ær loðnar og lembdar, 10 gemlingar og hálfur hestur, og er það að vonum, þar eð tveir bændur aðrir bjuggu á jörðinni, Elías Einarsson og Elín Bæringsdóttir, ekkja Haralds. Ekkjurnar Rebekka og Elín keyptu sjálfar meginhluta bústofnsins, héldu jörðinni og voru þó skuldlausar eftir. |
Þegar kom fram á 20stu öld, urðu Hornsbændur einhverjir efnuðustu mennhreppsins. Græddu þeir mest á eggjasölu til Ísafjarðar. Síðar verður reynt að gera þeirri tekjulind nánari skil. | Þegar kom fram á 20stu öld, urðu Hornsbændur einhverjir efnuðustu mennhreppsins. Græddu þeir mest á eggjasölu til Ísafjarðar. Síðar verður reynt að gera þeirri tekjulind nánari skil. |
Útgáfa síðunnar 26. september 2011 kl. 20:59
Efnisyfirlit
- 1 Dýrleiki og afgjald
- 2 Landkostir
- 3 Ábúð og afkoma
- 4 Ábúendur
- 4.1 Sigfús Semingsson
- 4.2 Þórður Semingsson
- 4.3 Kolbeinn Jónsson
- 4.4 Hallur Erlendsson
- 4.5 Halldóra Einarsdóttir
- 4.6 Ásmundur Þorleifsson
- 4.7 Einar Bjarnason
- 4.8 Sigurður Þorsteinsson
- 4.9 Sigurður Sigurðsson
- 4.10 Árni Sigfússon
- 4.11 Sigurður Pálsson
- 4.12 Einar Sigurðsson
- 4.13 Sigmundur Jósefsson
- 4.14 Jón Gíslason
- 4.15 Stígur Stígsson
- 4.16 Guðmundur Einarsson
- 4.17 Elías Einarsson
- 4.18 Arnór Ebenezersson
- 4.19 Guðleifur Þorleifsson
- 4.20 Haraldur Stígsson
- 4.21 Guðmundur Kristjánsson
- 4.22 Samúel Guðmundsson
- 4.23 Grímur Bjarnason
- 4.24 Baldvin Sigfússon
- 4.25 Falur Jakobsson
- 4.26 Stígur Haraldsson
- 4.27 Frímann Haraldson
- 4.28 Kristinn Grímsson
- 4.29 Jón Þorbjörnsson
- 4.30 Þorkell Sigmundsson
- 5 Heimildir
Ef litið er á kort af Vestfjörðum, sést, að strandlengjan frá Bitrufirði og norður til Horns liggur í meginstefnu frá suðaustri til norðvesturs, mjög vogskorin. Vestan Horns er svo vík allstór, sem nefnd er Hornvík. Líklegt þykir mér, að nesið austan víkurinnar hafi upphaflega verið nefnt Horn einu nafni. Þessa skoðun styðja nöfnin Hornbjarg norðaustan á nesinu og Hornströnd, sem virðist vera upphaflegt nafn á bænum Horni, en ætla má, að hafi verið haft um strandlengjuna frá nyrztu nestánni, sem nú er nefnd Hornkletturinn eða aðeins horn, og inn að Hafnarós, sem fellur í botn víkurinnar austanvert og skilur lönd Horns og Hafnar.
Bærinn á Horni stendur á vesturströnd nessins á allhárri brekkubrún, en grasi vaxnir hjallar ganga þaðan niður að sjónum. Upp af bænum er lág hamrahlíð, en þar fyrir ofan rís hæsti tindur Hornbjargs, Kálfatindur. Lítið undirlendi er á Horni, en vestan á Hornbjargi eru þrír dalir allgrösugir. Heitir sá nyrzti Yztidalur milli Núps að norðan og Miðfells að sunnan. Sunnan Miðfells heitir Miðdalur upp af bænum. Sunnan við Miðfell er klettaegg, sem skagar vestur úr Hornbjargi og heitir Múli. Sunna við Múla er Innstidalur eða Bæjardalur, og nær hann að Dögundarfelli. Um Innstadal liggur leið upp í Almenningaskarð, suður fyrir Hornbjarg til Austur-Stranda.
Í Vilkinsmáldaga 1397 (máldaga Eyrar í Arnarfirði) er nefnd jörðin Hornströnd:
Mariukirkia oc hins heilaga Peturs a Eyri j Arnarfirdi a Karlstadi oc Hornstrond med ollumm giædumm, tolli oc vidumm hvorutueggium ... Þetta lagdi Thomas Snarttarson til kirkiu a Eyri tolfttung i hvalreka a Hornstrond.[1]
Ekki verður nú séð, hvenær jörðin hefur komizt í eigu Hrafnseyrarkirkju. Líklegt má telja, að Tómas Snartarson, sem hér getur, sé hinn sami og kemur við sögu staðamála hinna síðari og tók við Selárdal árið 1284.[2] Hefur Tómas verið mikils virtur höfðingi, þótt beggja vinur væri í staðamálum. Árið 1301 kom hann heim frá Noregi, með Gullskónum, sem þá kom út í Dýrafirði,[3] og mundi þess naumast getið, nema um stórhöfðingja væri að ræða. Getur vel verið, að Tómas hafi gefið Eyrarirkju jörðina alla, þótt aðeins sé getið rekaítaksins í Vilkinsmáldaga, en um það skortir heimildir. Það eitt má fullyrða, að jörðin hefur byggð verið á dögum Tómasar Snartarsonar.
Hrafnseyrarirkja átti Horn, þar til á síðari hluta 19du aldar, að Stígur bóndi Stígsson keypti hana. Ekki hefur tekizt að finna, hvaða ár það hefur gerzt, en hann hefur átt hana ásamt stjúpsyni sínum, Elíasi Einarssyni, er hann lést 1899.
Nú er jörðin í eigu afkomenda Stígs og fóstursonar Elíasar, Kristins Platós Grímssonar (d. 1966).
Dýrleiki og afgjald
Elzta heimild um þetta efni er frá 1681 í skýrslu um styrjaldarhjálp til Kristjáns konungs V. Þar segir:
Horn, leiguliði Jón — landskuld 60 álnir — leigukúgildi 0 — rester
Árið eftir hefur verið gengið harðar að Jóni:
Horn, kirkjujörð, leiguliði Jón Jónsson — landskuld 60 álnir — hans vegna betalt nú — 1 fjórðungur.
Í manntali 1703 er jörðin skráð 6 hndr. að dýrleika, og í jarðabókinni frá 1710 segir svo:
Jarðardýrleiki vi hndr., og svo tíundaðist meðan bygt var ... Landskuld lx álnir. Betalaðist í landaurum hér heima. Leigukúgildi ekkert fyrr nje síðar svo menn viti. Kvaðir öngvar.
Aðeins ein heimild frá 18du öld telur Horn vera 4 hndr. að fornu mati, annars ber öllum heimildum saman. En Ólafur Olavíus segir í ferðabók sinni:
Gaarden Horn, den nordligste i heele Island, fordi den ligger ved Siden af Cap de Nord, er 4 Hundrede i Dyrhed og tilhörer Rafnsöre Kirke.[4]
Naumast getur hér verið um að ræða nýtt mat á jörðinni, því að árið 1788 er hún talin 6 hndr. Hlýtur því að hafa slæðzt inn villa hjá Olavíusi eða hann fengið rangar upplýsingar.
Árið 1788 hefur staðarhaldari Hrafnseyrarkirkju metið Horn til 20 ríkisdala, en landskuld hefur þá verið metin 68 skildingar. Við jarðamat 1859-50 var það álit matsmanna, að Horn bæri að meta meira en að meðallagi, þ. e. að hvert hundrað að fornu mati væri dýrara en ákveðið meðalverð, sem var 35—26 ríkisdalir. Í Horni var hvert fornt hundrað metið 38 ríkisdalir. Jörðin var þannig metin til 38 sinnum 6, þ. e. 238 ríkisdalir.
Við fasteignamat 1942 var heildarmat Horns 26.600 krónur, þar af 14.500 í landi og 12.100 í húsum.
Landkostir
Í jarðabókinni frá 1710 segir svo um Horn:
Fóðrast kunni seinast bygt var ii kýr, xii ær, vi lömb, i hestur. Torfrista og stúnga lítt nýtandi. Eggver og fuglveiði af svartfyglu í Hornbjargi merkilega góð en stórlega erfið, því síga þarf fertugt og sextugt bjarg, og hefur ábúandi sjaldan verið so liðaður að hann hafi getað nýtt þetta eggver að fullu. NB. Nokkrir vilja halda að þetta eggver í nefndu Hornbjargi sje almenníngur og heyri ekki Horni til framar en öðrum, sem brúka vilja, og því hafa margir þetta eggver í leyfisleysi brúkað a´samt Hornsmönnum. Horn á þó átölulaust land alt á bjarginu uppi, en almenníngur er haldinn reki undir því, sem ýmsir nýta. Grastekja er næg. Rekavon lítil fyrir jarðarinnar landi, en ábúandi brúkaði mest við úr almenníngum til búsnauðsynja sinna. Tún er grýtt og seinunnið. Engið spillist af vatni, sem jetur úr rótina, og engjavegurinn mjög erfiður. Hætt er kvikfje fyrir að hrapa fyrir Hornbjarg, einkanlega í stórviðrum, og verður oft mein að því. Kirkjuvegur bæjarleið lengri en áður segir um Höfn. Hreppamannaflutníngur bæði illur og lángur. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórviðrum. Heimræði hefur hjer verið meðan bygt var, og lending sæmlileg, og brúkaðist það heimræði jafnlega árið um kring meðan fiskur var fyrir, og gekk eitt skip ábúandans, sjaldan fleiri.
Hér er greinilega lögð mest áherzla á hlunnindi, sem Hornsbændur höfðu af bjarginu. Af orðalaginu er helzt að ráða, að lítið hafi verið á hlunnindi þessi sem séreign Hornsbænda. Engin ákvæði hef ég fundið um þetta, og virðist líklegast, að þau hafi aldrei verið gerð, en hver nýtt bjargið, sem gat, enda af nógu að taka.
Næsta heimild um landkosti á Horni er ferðabók Olavíusar. Hann segir svo
Gaarden Horn ... har kun liden Græsning, hvorfor Beboeren meest nærer sig af Forelle- og Sælhunde-Fangst, samt Fiskerie, uagtet Landingerne ikke ere alt for sikkre.
Þótt undarlegt sé, minnist Olavíus hér hvorki á fugla- né eggjatekju. Silungsveiði á Horni er hvergi annars staðar getið, svo að ég viti, og litlar sögur fara af selveiði þar. Þó má sjá af ljóðabréfi, er Hallvarður Hallsson ritaði Daða Ormssyni árið 1744, að selveiði í nætur hefur veirð stunduð á Hornströndum á 18du öld.
Þeir, sem eiga nýja nót á Norður-Ströndum,
selveiðina hafa í höndum,
hvar þeir koma fyrir sig böndum.
Hér skal næst rakin umsögn sr. Jóns Eyjólfssonar í sóknarlýsingu hans 1847:
Bærinn stendur fyrir utan ána, en hún rennur í gegnum túnið. Túnið er grasgefið, en þýft. Engjar litlar heldur og laklegar. Grasbeit á sumrum fyrirtaks góð, lítil á vetrum, en 18 vikna fjara. Reki mikill og fuglaafli. Mótak ekkert. Lítið um fisk. Brimasamt, ofviðrasamt af allri norðanátt.
Hér segir sr. Jón „lítið um fisk“. Víst er þó, að skip áttu Hornsbændur á þessum tíma, eins og raunar alltaf, þegar sögur fara af, og oftast stór, sex- eða áttæringa og jafnvel teinæringa. en vel má vera, að þau hafi meira verið notuð til aðdrátta og í hákarlalegur en til fiskiróðra á þessum tíma. Verður nánar vikið að því efni síðar.
Umsögn matsmanna 1849 er á þessa leið:
Að sönnu skagar jörð þessi langt út til hafs og er óþerrasöm og erfið til slægna, en hægð til sjóar, útibeit á vetrum, landkostir, viðarreki töluverður, fuglafli mikill úr bjargi og undan og hægð til viðskipta er svo atkvæðamikil, að jörðin skarar langt fram úr meðaljörðum.
Ljóst er af framangreindum ummælum, að jörðin er lítt fallin til landbúskapar. Jarðabókinni og sr. Jóni Eyjólfssyni ber ekki saman um rekann, en vafalaust er þó, að mikill fengur hefur verið að honum á 19du öld, þótt hann kunni að hafa verið minni áður. En það, sem gefið hefur jörðinni langmest gildi, bæði fyrr og siðar, er tvímælalaust nálægðin við Hornbjarg. Það var sú náma, sem aldrei brást, þó að harðnaði í ári.
Ábúð og afkoma
Ár | Bændur | Íbúar | Nautgripir | Sauðfé | Hross |
---|---|---|---|---|---|
1787: | 1 | 5 | — | 17 | — |
1790: | 1 | 7 | 1 | 27 | — |
1795: | 1 | 5 | 1 | 25 | — |
1805: | 1 | 10 | — | 40 | — |
1810: | 2 | 12 | — | 23 | — |
1815: | 2 | 10 | — | 30 | — |
1821: | 1 | 10 | 2 | 11 | — |
1825: | 1 | 9 | 1 | 18 | — |
1831: | 1 | 13 | 1 | 23 | 2 |
1835: | 1 | 12 | 3 | 17 | 1 |
1841: | 1 | 13 | 2 | 16 | 1 |
1847: | 2 | 17 | 2 | 100 | 2 |
1850: | 1 | 9 | 1 | 35 | 1 |
1855: | 1 | 11 | 2 | 61 | 3 |
1860: | 1 | 17 | 1 | 42 | 2 |
1865: | 1 | 16 | 1 | 33 | 2 |
1870: | 1 | 13 | 3 | 38 | 2 |
1874: | 1 | 14 | 1 | 39 | 2 |
1880: | 1 | 12 | 2 | 56 | 2 |
1885: | 2 | 16 | — | 64 | 2 |
1890: | 2 | 13 | 3 | 42 | 2 |
1895: | 2 | 19 | 4 | 66 | 3 |
1900: | 2 | 19 | 4 | 94 | 1 |
1905: | 2 | 20 | 3 | 44 | 2 |
1910: | 2 | 25 | 4 | 92 | 2 |
1914: | 2 | 18 | 2 | 110 | 4 |
1942: | (meðalt. 5 ára) | 5 | 217 | 4 |
Ár | Tún dagsláttur | Taða hestar | Úthey hestar |
---|---|---|---|
1885: | 5 | 22 | 200 |
1890: | 5 | 17 | 90 |
1895: | 6 | 43 | 250 |
1900: | 6 | 35 | 240 |
1905: | 6 | 30 | 220 |
1942: | (meðalt. 5 ára) | 153 | 300 |
Ár | Tein- og áttæringar |
Sex- og fjögramannaför |
Minni bátar |
---|---|---|---|
1787: | — | — | 1 |
1790: | — | — | 1 |
1795: | — | — | 1 |
1805: | — | — | 1 |
1810: | — | — | 1 |
1815: | — | — | 1 |
1821: | — | — | 1 |
1825: | — | 1 | — |
1831: | — | 1 | — |
1835: | — | 1 | — |
1841: | — | 1 | — |
1847: | 1 | 1 | 1 |
1850: | 1 | ½ | 1 |
1855: | — | 2 | 3 |
1865: | — | 1 | — |
1870: | — | 1 | — |
1874: | — | 1 | — |
1880: | 1 | 1 | 2 |
1885: | — | 2 | — |
1890: | — | 2 | — |
1895: | — | — | 2 |
1900: | — | — | 1 |
1905: | — | — | 2 |
Ár | Stórf. | Smáf. | Ýsa | Aðrar teg. | Þorskil. tn. | Svartf. |
---|---|---|---|---|---|---|
1897: | 1050 | 2060 | 360 | 170 | 2 | 700 |
1898: | 787 | 1644 | 268 | 318 | — | 1154 |
1899: | 604 | 1529 | 206 | 222 | — | 1496 |
Þess er áður getið, að Horn hefur verið í byggð árin 1681—82, þó aðeins einbýli, og erfiðlega hefur veitt að innheimta hjá bóndanum hina illræmdu styrjaldarhjálp. En árið 1703 var þar tvíbýli, og 9 manns áttu þar heima. Árið 1710 blasir við önnur mynd:
Þessi [jörð] hefur í eyði legið síðan bóluna.
„Bólan“ er að sjálfsögðu stóra bóla, sem geisaði hér á landi árið 1707. Lagði hún í eyði flestar jarðir á Vestur-Ströndum, og byggðust margar þeirra ekki fyrr en mörgum áratugum seinna. Um Horn er það eitt vitað, að það hefur verið í eyði 1735, en verið komið í byggð aftur 1753. Þó er til bending um, að bær hafi staðið á Horni 1744, því að Hallvarður Hallson segir í ljóðabréfi sínu:
Leit ég síðan Hornbæ, Höfn og háa sands,
en á svið til hægri handar
Hælavíkurbjargið standa.
Árið 1753 bjó á Horni Kolbeinn Jónsson, taldi fram eitt hundrað lausafjár og galt tvo fjórðunga í gjaftoll. Árið 1756 var hallur Erlendsson bóndi þar, eins og sjá má af tíundarreikningi, er gerður var að Sléttu 7. september það ár. Enn bjó Hallur á Horni 1760 og 1762. Hefur hann þá verið 71ns árs og haft fimm manns í heimili. Enn er heimild um byggð á Horni 1767, en ábúanda ekki getið. Horn hefur verið í byggð 1775, er Ólafur Olavíus var þar á ferð. Frá þeim tíma verður ekki annað séð en jörðin hefur verið í byggð til 1946.
Skýrslur þessar benda til heldur góðrar afkomu á Horni og koma hér þó hvergi nærri öll kurl til grafar. Fyrir og um miðja 19du öld blómgaðist efnahagur Hornsbænda mjög, og stóð bú þar með miklum blóma fram um aldamótin 1900 og raunar lengur. Verður hér getið að nokkru tveggja bænda frá þessu tímabili, Einars Sigurðssonar og Stígs Stígssonar. Einar fluttist að horni frá Höfn 1844. 1841 bjó hann í Höfn og var þá eini bóndi sveitarinnar, sem átti áttæring (e.t.v. teinæring). svo vel vill til, að viðskiptabók Einars við verzlun W. Sass á Ísafirði hefur geymzt sem fylgiskjal með uppskrift á dánarbúi hans. Nær bók þessi yfir árin 1842—54. Úttektin er svipuð frá einu ári til annars; allmikið af nöglum, mjöl, salt, sykur, grjón, rúgur, á síðari árunum einnig kaffi, árið 1845 byssa og síðan púður öðru hverju, síróp á síðari árunum, og öll árin vænn skammtur af rjóli og brennivíni. 1848 hefur Einar tekið út hálfa tunnu af steinkolum, svo að augljóst er að hann hefur fengizt við járnsmíðar. Tvisvar hefur hann tekið út spil, tvenn í síðara skiptið, og hafa þau komið sér vel í fásinninu. Lítið hefur erið tekið út af vefnaðarvöru, helzt silkiklútar. Flest árin er tekið út nokkuð af smíðajárni. Af þessu má sjá, að fátæklingur á ekki í hlut. En hvert var þá innleggið? Langveigamesti liður þess var lýsi, einkum hákarlalýsi, en þó nokkuð af hvallýsi. Hefur lýsistunnan verið keypt á 22—24 ríkisdali. Árið 1843 lagði Einar inn tæpar 4 tunnur, 1844 3 tunnur, 5 kúttinga og 2 potta; 1845 2 tunnur 14 kúttinga og 7 potta; 1846 aðeins 14 kúttinga. Virðast þá hafa minnkað hákarlaveiðar í bili, enda komst Einar þá í nokkra skuld. 1848 hefur Einar lagt inn fyrir samtals 57 rd. 2 mörk og 5 skildinga, þar af lýsi fyrir rúma 36 ríkisdali. 1849 var lögð inn ein lýsistunna á 20 ríkisdali og 7 tófuskill á 17 ríkisdali. 1851 hefur batnað í ári, því að þá var innlegg Einars 124 rd. 5 mk. 12 sk., einkum í lýsi, ull og fiðri. Árin 1852—53 er innleggið 226 rd. 2 mk. 2 sk., langmest í sömu vörum og áður. Reikningur Einars var svo gerður upp 25. febrúar 1854. Þá var inneign 34 rd. 4 mk. 11 sk. Dánarbú Einars var skrifað upp 27. febrúar 1854. Var búið sjálft metið á 847 rd. 97 sk., og útistandandi skuldir voru 118 rd. 97 sk. Enga jarðeign átti Einar, en í peningum átti hann 30 spesíur danskar heima eða 60 ríkisdali og hjá Vagni bónda á Dynjanda, mági sínum, 50 spesíur eða 100 ríkisdali. Hann hefur átt nýlegan sexæring með rá og reiða, áttæring ósjófæran, 400 öngla, þrennar hákarlasníkjur, tvær bjargfestar og tíu fuglfleka. Af húsum, sem Einar hefur keypt eða byggt, má nefna lambhús með hlöðu og fimm grindum, fjárhús á túninu með hlöðu með þilgöflum og fimm grindum, búð við sjóinn, höfð fyrir fé, með þrem grindum, fjárhús við sjóinn með sex grindum, sexæringsnaust, tvær fjárgrindur í bænum, fjórar stíugrindur, og hluta af timburskemmu, er metin var á 12 ríkisdali og 58 skildinga. Einar hefur þá átt eina kú, tvær kvígur, tvo hesta, 36 ær, 28 sauði og 18 gemlinga. Loks má geta þess, sem ekki þarf að koma á óvart, að hann hefur átt smiðju með öllum smíðatólum, tvískefta sög, bútunarsög, flettusög og skipsnafar. Má geta nærri, hverja björg Einar hefur haft af rekanum, þótt aldrei væri jafnmikill á Horni og á beztu rekajörðum.
Ekkja Einars á Horni hét Elín Ebenezerdóttir, og bjó hún áfram á jörðinni. Réðst til hennar ráðsmaður, Stígur Stígsson frá Sútarabúðum í Grunnavík, og kvæntist hann ekki löngu síðar. Er Stígur löngu nafnfrægur maður fyrir smíðar sínar, rausn og höfðingskap. Þess er áður getið, að Stígur keypti jörðina, þótt ekki hafi fundizt samtíma heimildir um það. Þórleifur Bjarnason segir svo frá í Hornstrendingabók, að búskapur hafi mest blómgazt á Horni á búskaparárum Stígs, en þar hefur allt staðið á gömlum merg, eins og sjá má af dánarbúi Einars.
Stígur andaðist 20. janúar 1899. Síðari kona og ekkja hans, Rebekka Hjálmarsdóttir, sat í óskiptu búi ásamt Haraldi, syni sínum. En Haraldur lézt 1900, og var dánarbú Stígs þá tekið til virðingar 1. febr. 1901. Virðingarupphæðin var 2034 kr. 30 aurar auk viðar, sem ekki var hægt að virða. Uppboð fór fram 14. júní um sumarið, og varð uppboðsfé 796 kr. 65 aurar, en 4 hundruð í jörðinni voru metin á 800 kr. Elías Einarsson, stjúpsonur Stígs, var þá eigandi að 2 hundruðum.
Af dánarbúi Stígs má sjá, að því fer fjarri, að allt hafi verið gengið af honum, er hann lézt. Af skipum var til áttæringur með rá og reiða, eitt fimmmmannafar og eitt tveggjamannafar. Hús virðast þó hafa verið léleg nema eitt, sem sker úr, „timburhús á hlaðinu, innréttað niðri, þiljað af, 4 álnir og [með] hálfu milliþili í öðrum enda og lofti og skrálæstum hurðum tveimur, á lengd 9 álnir, breidd 6 álnir, virt á 350 krónur“. Þá segir, að fyrrnefnd 4 hundruð að fornu mati í jörðinni séu „með stærri og betri baðstofu en áður var með allri jörðinni“. En bústofninn hefur verið lítill, 15 ær loðnar og lembdar, 10 gemlingar og hálfur hestur, og er það að vonum, þar eð tveir bændur aðrir bjuggu á jörðinni, Elías Einarsson og Elín Bæringsdóttir, ekkja Haralds. Ekkjurnar Rebekka og Elín keyptu sjálfar meginhluta bústofnsins, héldu jörðinni og voru þó skuldlausar eftir.
Þegar kom fram á 20stu öld, urðu Hornsbændur einhverjir efnuðustu mennhreppsins. Græddu þeir mest á eggjasölu til Ísafjarðar. Síðar verður reynt að gera þeirri tekjulind nánari skil.
Þegar á allt er litið, er búskaparsaga Horns með talsverðum glæsibrag. Bústofn hefur farið sívaxandi og hvergi slegið slöku við nýtingu hlunninda. Varla verður hjá því komizt að halda, að einangrun hafi valdið mestu um, að jörðin lagðist í eyði, er byggðum bólum fækkaði á báðar hendur og skemmsta bæjarleið varð æ lengri og torsóttari.
Ábúendur
Sigfús Semingsson
Sigfús Semingsson F. um 1657. Dánarár ókunnugt. Hann mun hafa verið sonur Semings Ólafssonar bónda á Steinólfsstöðum í Grunnavíkurhreppi.
Kona: Ástríður Þorleifsdóttir, f. um 1668. Börn: Narfi Sigfússon, f. um 1695, Þorleifur Sigfússon, f. um 1700 og Guðrún Sigfúsdóttir, f. 1702. Sigfús Semingsson bjó á Horni 1703, þegar manntalið var tekið, en eftir það er ekki um hann vitað eða börn hans.
Þórður Semingsson
Þórður Semingsson. F. um 1658. Dánarár ókunnugt. Þórður mun hafa verið bróðir Sigfúsar.
Kona: Ástríður Jónsdóttir, f. um 1667.
Dóttir þeirra var Guðrún Þórðardóttir, f. um 1698.
Þórður bjó á Leiru í Jökulfjörðum 1681, en var bóndi á Horni 1703, þegar manntalið var tekið.
Um þá bræður og niðja þeirra er ekki meira vitað. Þegar jarðamatið fór fram 1710 var Horn í eyði, og er sagt að svo hafi verið síðan í bólunni 1707. Ef til vill hafa þeir bræður látizt þá. Þeir finnast ekki eftir það meðal ábúenda í Sléttuhreppi eða Grunnavíkurhreppi. Eftir þetta verður löng eyða í ábúendatali Horns. Jörðin var ekki í byggð 1735.
Kolbeinn Jónsson
Kolbeinn Jónsson. F. 1689. Var á lífi 1753. Foreldrar: Jón Þorbjörnsson bóndi í Efri-Miðvík og kona hans Guðrún Jónsdóttir.
Börn: Bjarni Kolbeinsson. Jósef Kolbeinsson. Jón Kolbeinsson bóndi á Hesteyri. Þorsteinn Kolbeinsson. Sigríður Kolbeinsdóttir og Sigþrúður Kolbeinsdóttir, konar Magnúsar á Skjaldfönn.
Kolbeinn bjó í Rekavík 1735 og hefur þá líklega verið búinn að búa þar um nokkurt árabil. Um fjölskyldu hans og heimili spannst eina morðmálið, sem vitað er um í Sléttuhreppi.
Vorið 1744 komu tvær persónur á báti í Rekavík, Sveinn Jónsson og Sigríður Jónsdóttir. Þau höfðu strokið úr Arnarfirði og leituðu þarna skjóls. Tók Kolbeinn við þeim. Sigríður dó í Rekavík, en Sveinn komst til hollenzkra með hjálp Kolbeins bónda. Löngu seinna kvisaðist að Bjarni Kolbeinsson hefði orðið Sigríði að bana. Það var ekki fyrr en 1760 að mál þetta var rannsakað. Bárust öll bönd að Bjarna, en hann mun hafa þverlega neitað allri sök. Hann var dæmdur til lífláts á Sléttuþingi og staðfesti lögmannsdómur. En hæstiréttur breytti endanlega dómnum í tveggja ára betrunarhúsvist í Reykjavík. Þá hegningu þoldi Bjarni, og hefur þau ár unnið að byggingu hegningarhússins í Reykjavík, nú stjórnaráðshússins. Að lokinni refsivistinni slapp Bjarni, en ekki er vitað, hvað af honum þá varð. Áður en hann var tekinn fyrir morðsökina, var hann sakaður og klagaður af séra Snorra Björnssyni á Stað í Aðalvík fyrir barneignir og vanrækslu á kirkjusókn.
Kolbeinn hefur líklega leitað norður á Strandir, að Horni, eftir atburðina í Rekavík. Þar bjó hann 1753, en var dáinn 1760, þegar rannsóknin á morðmálinu hófst.
Óljósar sagnir hafa geymzt í Sléttuhreppi um þá feðga, Kolbein og Bjarna, en þar hafa þeir verið nefndir stundum öðrum nöfnum.
Hallur Erlendsson
Hallur Erlendsson (Hallur á Horni) F. um 1699. Var enn á lífi 1762.
Foreldrar: Erlendur Þorsteinsson og kona hans Arnbjörg Erlendsdóttir. Þau bjuggu í Laxárdal í Dalasýslu.
Kona: Sigríður Hallvarðsdóttir.
Synir þeirra voru: Hallvarður Hallsson skáld á Horni og síðast í Skjaldbjarnarvík. Jón Hallsson.
Hallur Erlendsson bjó fyrst að Lambastöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Bóndi á Felli í Kollafirði í Strandasýslu 1735. Hann var orðinn bóndi á Horni 1756 og mun hafa búið þar til dánardags. Hallur er fræg þjóðsagnarpersóna.
Trúlega hefur Hallvarður sonur Halls búið einhvern tíma á Horni eftir lát föður síns, þó engar heimildir séu þar um.
Halldóra Einarsdóttir
Halldóra Einarsdóttir. F. um 1730. Var enn á lífi 1801. Halldóra bjó ekkja á Horni 1787. Ekki er vitað hver maður hennar hefur verið né hve lengi þau hafa buið á Horni, en vel kann það að hafa verið allmörg ár. Ekki er heldur hægt að segja um, hverra manna hún hefur verið. Hún gæti hafa verið dóttir Einars Þorlákssonar í Skáladal, en vel getur hún einnig hafa verið úr Grunnavíkurhreppi, ef til vill systir Snorra í Höfn.
Árið 1801 var Halldóra fjörgömul niðursetningur á Horni. Bendir það til þess, að hún hafi þá ekki átt lifandi börn, sem máttu sín mikils.
Ásmundur Þorleifsson
Ásmundur Þorleifsson. Hann var bóndi á Horni 1788-89, líklega aðfluttur, ef til vill sonur Þorleifs Guðmundssonar bónda á Hálsi á Ingjaldssandi.
Ásmundur var kominn í Þverdal 1784. Kona hans var Hildur Guðmundsdóttir. Dóttir þeirra var Helga Ásmundsdóttir, kona Páls Sigurðssonar á Horni. Hildur átti síðar Einar Einarsson yngri í Þverdal.
Ásmundur fluttist frá Horni í Kjaransvík 1789 og bjó þar til 1792-93. Þar mun hann hafa látizt, ekki gamall maður.
Einar Bjarnason
Einar Bjarnason. F. um 1742. D. 2. júlí 1818. Ekki er vitað um foreldra hans.
Kona: Þórunn Markúsdóttir, f. um 1737 í Grunnavík.
Börn: Bjarni Einarsson d. 18. ágúst 1816, Oddgerður Einarsdóttir.
Einar bjó í Kjaransvík frá því um 1770-1789. Bóndi á Horni frá 1789 til dánardags.
Um Einar er lítið vitað. Hann var einn þeirra bænda, sem hýsti strokufangann Hannes Grímsson 1785 og varð að greiða sekt fyrir.
Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson. F. um 1772. D. 1845 (jarðs. 8. júní það ár).
Sigurður er sagður fæddur í Hælavík, en hverjir foreldrar hans hafa verið, verður ekki sagt með neinni vissu.
Kona: 1802, Anna Snorradóttir úr Höfn, d. 25. júlí 1841.
Börn: Eldjárn Sigurðsson húsmaður í Hlöðuvík og síðar bóndi í Grunnavíkurhreppi, Hjálmar Sigurðsson, d. 26. ágúst 1839, var vinnumaður á Stað í Aðalvík, átti Rósu Bjarnardóttur.
Sigurður Þorsteinsson var vinnumaður í Höfn 1801, húsmaður eða vinnumaður á Stað í Aðalvík 1802. Var á Hrafnfjarðareyri 1808, en vinnumaður á Horni 1816 og líklega húsmaður þar síðar. Sigurður var lengi sjúklingur á sveit, mun hafa orðið holdsveikur. Kona hans var lengi vinnukona í Þverdal og víðar.
Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson. F. um 1777. D. 20. febr. 1836.
Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Reykjarfirði á Ströndum og kona hans Ingibjörg Sigmundsdóttir.
Sigurður Sigurðsson var tvíkvæntur, en ekki er vitað hver fyrri kona hans var.
Börn þeirra: Jón Sigurðsson, d. 1. marz 1825, Hallvarður Sigurðsson, d. 23. apríl 1839, mun hafa verið vanheill, dó „á vegerðarreisu“, var á sveit í Sléttuhreppi.
Kona 2: 9. júlí 1825, Guðrún, d. 30. nóvember 1853, Jónsdóttir Þorleifssonar á Norðureyri í Súgandafirði.
Börn: Sesselja Sigurðardóttir, Magnús Sigurðsson.
Sigurður Sigurðsson bjó á Horni 1810-11. Bóndi á Steinólfsstöðum í Grunnavíkurhreppi 1811-1836.
Árni Sigfússon
Árni Sigfússon. F. um 1781. D. 1. október 1824.
Foreldrar: Sigfús Snorrason bóndi í Barðsvík í Grunnavíkurhreppi og kona hans Helga Pétursdóttir.
Árni hefur líklega ekki átt börn, sem komust upp. Hann var bóndi á Horni 1811, en 1816 var hann ekill í Barðsvík.
Sigurður Pálsson
Sigurður Pálsson. F. um 1762. D. 29. ágúst 1834. Hann var sonur Páls Björnssonar bónda í Reykjarfirði á Ströndum.
Kona 1: Ingveldur, f. um 1772, d. 6. júní 1816, Snorradóttir, Einarssonar í Höfn.
Börn: Sigríður Sigurðardóttir fyrri kona Sigurðar Jónssonar á Sléttu. Sigurfljóð Sigurðardóttir, átti Hafliða Guðmundsson. Þau voru í vinnumennsku í Arnardal og í Hnífsdal. Sigurfljóð var síðast próventukona á Sléttu og dó þar 1872. Páll Sigurðsson, átti Helgu Ásmundsdóttur. Hann var lengst vinnumaður hjá Einari bróður sínum. Einar Sigurðsson bóndi á Horni.
Kona 2: 18. júlí 1824, Oddný, f. 1804, d. 7. júlí 1862, Guðlaugsdóttir, Jónssonar í Efri-Miðvík. Hún átti síðar Hagalín Karvelsson úr Skáladal.
Börn: Kjartan Sigurðsson bóndi á Læk, Símon Sigurðsson, kvæntist ekki, en átti börn, eitt þeirra var Guðbjörg Símonardóttir lengi vinnukona á Hesteyri og í Höfn. Móðir hennar var Salóme Jónsdóttir frá Nesi í Grunnavík.
Sigurður Pálsson bjó víða í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi. Hann var bóndi Hlöðuvík 1794-1800. Bóndi á Sléttu 1801, bóndi á Höfða í Grunnavík 1808, á Kollsá 1809, Stað í Grunnavík 1810, bóndi á Nesi í Grunnavík 1811, Horni 1816-22. Hann lézt á Stað í Grunnavík.
Sigurður mun oftast hafa búið við sæmileg efni.
Einar Sigurðsson
Einar Sigurðsson. F. 1800. D. 4. janúar 1854.
Foreldrar: Sigurður Pálsson bóndi í Hlöðuvík og fyrri kona hans Ingveldur Snorradóttir.
Kona 1: 10. ágúst 1822, Guðfinna f. 1801, d. 4. júlí 1834, Sigmundsdóttir, Jósefssonar síðast bónda á Horni.
Börn: Elías Einarsson, fórst af steinkasti í Hornbjargi 7. júlí 1846, átján ára gamall. Friðrik Einarsson, Rekavík bak Höfn bóndi á Steinólfsstöðum og síðast í Hælavík. Guðleifur Einarsson, drukknaði ungur og ókvæntur. Sigurður Einarsson bóndi á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi. Bjargey Einarsdóttir, átti Arnór Ebenezersson bónda í Rekavík bak Höfn. Margrét Einarsdóttir, átti fyrr Sigfús Jónsson hreppstjóra á Höfðaströnd. Hann drukknaði eftir tveggja ára sambúð þeirra hjóna. Seinni maður Markgrétar var Hagalín Jóhannesson á Steig. Helga Friðrika Einarsdóttir, átti Bæring Vagnsson í Furufirði. Jóhanna Einarsdóttir giftist ekki. Barn hennar með Bæringi Vagnssyni var Einar Bæringsson hreppstjóri á Dynjanda. Annað barn Jóhönnu með Jóhannesi Jónssyni í Kvíum var Ketilríður Jóhannesdóttir kona Benedikts Hermannssonar í Reykjarfirði.
Sonur Einars Sigurðssonar með Sólbjörtu Ásmundsdóttur, vinnukonu á Horni, var Guðmundur Einarsson húsmaður á Horni.
Kona 2: 22. september 1849, Elín, f. 1809, d. 15. ágúst 1883, Ebenezersdóttir, Jónssonar bónda á Dynjanda. Hún átti síðar Stíg Stígsson bónda á Horni.
Börn: Elías Einarsson bóndi á Horni, Guðfinna Einarsdóttir, átti Guðleif Þorleifsson bónda í Bolungarvík á Ströndum.
Einar Sigurðsson var bóndi á Horni 1822-25, húsmaður í Reykjafirði á Ströndum 1825-27, en fluttist þá aftur að Horni og bjó þar til 1832. Bóndi á Stað í Grunnavík 1832-38, var hreppstjóri í Grunnavík í nokkur ár. Bóndi í Höfn 1838-44. Bóndi á Horni frá 1844 til dánardags. Einar var við góð efni, þegar hann lézt.
Sigmundur Jósefsson
Sigmundur Jósefsson. F. um 1769. D. 20. nóv. 1846.
Foreldrar: Jósef Sigmundsson þá bóndi á Marðareyri og fyrri kona hans.
Sigmundur var þríkvæntur, en ekki er vitað hver var fyrsta kona hans. Þau virðast hafa verið mjög skamman tíma í sambúð og ekki átt börn, sem komust upp.
Kona 2: Margrét Ólafsdóttir.
Dætur þeirra voru: Guðríður Sigmundsdóttir og Ingibjörg Sigmundsdóttir. Munu báðar hafa dáið ungar. Guðfinna Sigmundsdóttir, fyrri kona Einars Sigurðssonar á Horni.
Kona 3: Kristín, f. 1784, d. 26. júní 1842, Jónsdóttir, Ólafssonar á Sæbóli í Aðalvík.
Börn: Jón Sigmundsson, d. 20. janúar 1820 ókv., Jósef Sigmundsson, d. 25. okt. 1839, ókv., Guðríður Sigmundsdóttir, d. 19. apríl 1894, giftist ekki, en barn hennar með Arnóri Hannessyni í Grunnavík var Jóhanna Arnórsdóttir ráðskona Snorra Einarssonar í Tungu. Valgerður Sigmundsdóttir, fyrri kona Hermanns Ásgrímssonar í Reykjarfirði. Friðrik Sigmundsson, d. 10. ágúst 1839 ókv. Katrín Sigmundsdóttir, fyrri kona Jóns Gíslasonar í Barðsvík og síðar í Höfn. Ingibjörg Sigmundsdóttir, seinni kona Jóns Gíslasonar í Höfn.
Sigmundur Jósefsson bjó í Reykjarfirði 1790-95, Bolungarvík á Ströndum 1801-1809. Bóndi á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi 1810-1811. Bóndi í Reykjarfirði aftur 1816-1832. Bóndi á Horni 1832-44. Sigmundur mun hafa verið vel metinn. Um hann kvað Sigurður Guðmundsson á Hesteyri í bændarímu sinni:
Sigmund dýran hermi' eg hal,
á Horni stýrir dáðum,
veigatýr sem votta skal,
vel þar býr í náðum.
Hans mun standa hegðun merk,
hrós um landið þiggur,
öll sín vandar orð og verk,
engum granda hyggur.
„Mikið var að hann lét mig ekki drepa einhvern“ sagði Sigmundur þegar hann heyrði kveðskapinn.
Jón Gíslason
Jón Gíslason. F. 27. janúar 1815. D. 25. júlí 1874.
Foreldrar: Gísli Jútsson í Þjóðólfstungu í Hólshreppi og Guðný Jónsdóttir heimasæta í Minnihlíð. Guðný giftist síðar Ólafi Helgasyni. Þau bjuggu á Breiðabóli í Skálavík, en fluttust þaðan að Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum 1824. Þau bjuggu síðar í Barðsvík.
Kona 1: 22. september 1838, Katrín, d. 7. sept. 1839, Sigmundsdóttir, Jósefssonar í Reykjafirði, síðar bónda á Horni.
Barn: Petólína Jónsdóttir, d. 15. marz 1887, giftist ekki.
Kona 2: 25. ágúst 1841, Ingibjörg, f. 14. nóvember 1822, d. 29. júní 1890, Sigmundsdóttir, Jósefssonar, systir Katrínar fyrri konu Jóns.
Börn: Kristján Jónsson bóndi í Höfn og í Hælavík. Lovísa Jónsdóttir, kona Baldvins Sigfússonar húsmanns á Horni. Elínborg Jónsdóttir, kona Samúels Guðmundssonar húsmanns á Horni. Sigmundur Jónsson bóndi í Höfn.
Jón Gíslason bjó í Barðsvík 1838-40. Húsmaður á Horni 1840-42. Bóndi í Höfn frá 1844 til dánardags. Greindur maður og vel gjör um íþróttir.
Stígur Stígsson
Stígur Stígsson. F. 12. maí 1832. D. 20. janúar 1899.
Foreldrar: Stígur Jónsson bóndi á Sútarabúðum í Grunnavík og kona hans Rakel Eiríksdóttir.
Kona 1: 3. október 1856, Elín Ebenzersdóttir, ekkja Einars Sigurðssonar á Horni. Þau barnlaus.
Kona 2: 18. apríl 1889, Rebekka, f. 29 maí 1843, d. 7. júlí 1921, Hjálmarsdóttir, Jónssonar á Látrum. Börn: Haraldur Stígsson bóndi á Horni. Frímann Stígsson, f. 24. marz 1876, drukknaði með Jóni Guðmundssyni frá Marðareyri í Jökulfjörðum 9. des. 1893. Frímann ólst að nokkru upp hjá Kristjáni Jónssyni í Höfn. Anna Anika Stígsdóttir dó ung.
Stígur Stígsson bjó á Horni alla sína búskapartíð, frá 1856 til dánardags. Hann var þjóðhaga smiður og mikill athafnamaður, sem orð fór af og lengi hefur verið minnzt. Hann var hreppstjóri um skeið.
Guðmundur Einarsson
Guðmundur Einarsson. F. 9. nóvember 1831. D. 26. júní 1888.
Foreldrar: Einar Sigurðsson bóndi á Horni og vinnukona hans, Sólbjört Ásmundsdóttir.
Kona: 3. október 1856, Guðrún Ólafsdóttir, Ólafssonar í Furufirði.
Börn: Samúel Guðmundsson húsmaður í Höfn og á Horni, Sigríður Helga Guðmundsdóttir lengst vinnukona á Hesteyri, giftist ekki.
Guðmundur var ýmist vinnumaður eða húsmaður á Horni. Hann fórst undir Hornbjargi.
Elías Einarsson
Elías Einarsson. F. 5. apríl 1851. D. 20. okt. 1925.
Foreldrar: Einar Sigurðsson bóndi á Horni og seinni kona hans Elín Ebenezersdóttir.
Kona: Guðrún, f. 17. nóvember 1837, d. 16. marz 1923, Hermannsdóttir, Ásgrímssonar í Furufirði. Barnlaus.
Fóstursonur þeirra hjóna var Kristinn Grímsson bóndi á Horni.
Elías var bóndi á Horni allra sína búskapartíð að undanskildum nokkrum árum, sem hann bjó í Látravík. Elías var mikið hraustmenni og ókvalráður.
Arnór Ebenezersson
Arnór Ebenezersson. F. 1823. D. 13. júlí 1870.
Foreldrar: Ebenezer Ebenezersson bóndi á Dynjanda og Guðrún Einarsdóttir ógift heimasæta í Kjós
Arnór ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, en þau fluttust að Horni, þegar Arnór var barn að aldri.
Kona: 15. sept. 1844, Bjargey, f. 5. nóv. 1824, d. 7. júní 1866, Einarsdóttir Sigurðssonar bónda á Horni.
Börn: Guðfinna Arnórsdóttir kona Kristján Jónssonar bónda í Höfn og Hælavík. Ebenezer Arnórsson, átti Margréti Bjarnadóttur frá Sandeyri. Þau bjuggu í Meirahrauni í Skálavík. Þaðan drukknaði Ebenezer 1884. Ingveldur Arnórsdóttir, átti Ólaf Bjarnason í Bolungarvík. Sonur þeirra var Ragúel Bjarnason byggingarmeistari í Noregi. Matthildur Arnórsdóttir, átti Guðna Jósteinsson bónda á Atlastöðum. Guðrún Arnórsdóttir, kona Eiríks Gídeonssonar á Oddsflöt í Grunnavík. Elín Arnórsdóttir átti Sigmund Hagalínsson bónda á Oddsflöt í Grunnavík. Salóme Arnórsdóttir giftist ekki. Kristín Arnórsdóttir, kona Sigurðar Friðrikssonar á Læk.
Arnór var húsmaður á Horni 1845-48 og aftur húsmaður þar 1861-1863. Húsmaður í Höfn 1849 og 1863-64. Bóndi í Rekavík 1850-61. Hann fluttist til Bolungarvíkur 1864-64 og andaðist þar. Arnór var sagður vel gefinn og listasmiður.
Guðleifur Þorleifsson
Guðleifur Þorleifsson. F. 1853. D. 1898.
Foreldrar: Þorleifur Einarsson, Bolungarvík á Ströndum bóndi í Bolungarvík á Ströndum og kona hans Guðrún Bjarnadóttir.
Kona: 1881, Guðfinna, f. 23. desember 1852, d. 10. marz 1911, Einarsdóttir, Sigurðssonar bónda á Horni og seinni konu hans, Elínar Ebenezersdóttur.
Börn: Elín Guðleifsdóttir, giftist ekki. Guðleifur Guðleifsson, drukknaði frá Ísafirði 19. október 1929. Jakob Guðleifsson, ólst upp hjá Kristjáni Jónssyni í Hælavík, fórst af slysförum í Hælavíkurbjargi 16. júlí 1914 ókv. Einar Guðleifsson bóndi á Kollsá í Grunnavíkurhreppi. Jasína Guðleifsdóttir átti Árna Arnfinsson húsmann á Látrum í Aðalvík.
Guðleifur Þorleifsson var húsmaður á Horni 1880-81. Bóndi í Bolungarvík á Ströndum frá 1881 til dánardags.
Haraldur Stígsson
Haraldur Stígsson. F. 5. apríl 1871. D. 19. ágúst 1900.
Foreldrar: Stígur Stígsson bóndi á Horni og Rebekka Hjálmarsdóttir þá vinnukona á Horni.
Kona: 6. september 1893, Elín, d. 2. febrúar 1916, Bæringsdóttir, Vagnssonar bónda í Reykjafirði. Seinni maður hennar var Guðmundur Kristjánsson bóndi á Horni.
Börn: Stígur Haraldsson bóndi á Horni. Frímann Haraldsson bóndi á Horni og vitavörður í Látravík. Hilaríus Haraldsson á Hesteyri.
Haraldur bjó á Horni öll sín búskaparár.
Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur Kristjánsson. F. 17. febrúar 1874. D. 7. maí 1925.
Foreldrar: Kristján Friðriksson bóndi í Efri-Miðvík og kona hans Kristjana Friðriksdóttir.
Kona 1: 19. september 1903, Elín Bæringsdóttir, ekkja Haralds Stígssonar á Horni. Þau barnlaus. Fóstursonur þeirra hjóna var Sigurgeir Falsson, kaupmaður í Bolungarvík og síðar skrifstofumaður í Reykjavík.
Kona 2: 17. október 1920, Jóhanna Dagbjört, f. 15. ágúst 1895, Hallvarðsdóttir, Jóhannessonar bónda í Skjaldbjarnarvík og síðar í Hlöðuvík.
Börn: Elín Guðmundsdóttir, f. 14. júní 1921, d. 5. apríl 1964, átti Harald Stígsson frá Horni. Sigríður Guðmundsdóttir, f. 2. janúar 1923. Guðmunda Guðmundsdóttir, f. 23. janúar 1926, átti Björn Þorkelsson verkstjóra í Reykjavík.
Guðmundur bjó á Horni frá 1903 til dánardags. hann var sjósóknari mikill og ötull sigmaður. Ekkja hans, Jóhanna, bjó áfram á Horni með ráðsmönnum. Barn hennar með Oddmundi Guðmundssyni ráðsmanni hennar, Grímur Oddmundsson, f. 11. maí 1930, lögregluþjónn í Reykjavík. Barn með Stefáni Þorbjörnssyni ráðsmanni hennar, Guðbjörg Stefánsdóttir, f. 1. febr. 1931, húsfreyja í Bolungarvík.
Jóhanna og Stefán ráðsmaður hennar fluttust frá Horni til Súðavíkur 1945, en fluttust þaðan til Ísafjarðar og síðar til Reykjavíkur.
Samúel Guðmundsson
Samúel Guðmundsson. F. 3. maí 1858. D. 9. júlí 1944.
Foreldrar: Guðmundur Einarsson húsmaður á Horni og kona hans Guðrún Ólafsdóttir.
Kona: 26. september 1883, Elínborg f. 1859, d. 6. maí 1934, Jónsdóttir, Gíslasonar bónda í Höfn
Barn: Guðrún Samúelsdóttir, átti Jón Þorbjörnsson húsmann á Horni.
Samúel var húsmaður í Höfn 1885-1902. Húsmaður á Horni 1902-1933.
Grímur Bjarnason
Grímur Bjarnason. F. 15. ágúst 1869. D. 9. júlí 1900.
Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi í Skjaldarbjarnavík og kona hans Sigurborg Jónsdóttir.
Kona: 9. sept. 1894, Elísa, f. 13. september 1851, d. 17. júní 1927, Ólafsdóttir, Ólafssonar bónda á Ósi í Steingrímsfirði. Hún átti áður Jón Guðmundsson bónda á Steinstúni í Víkursveit.
Barn: Kristinn Grímsson bóndi á Horni, ólst upp á hjá Elíasi Einarssyni á Horni.
Grímur var húsmaður á Horni frá 1895 til dánardags. Hann fórst við fuglsig í Hornbjargi.
Baldvin Sigfússon
Baldvin Sigfússon. F. 10. september 1847. D. 4. apríl 1928.
Foreldrar: Sigfús Rafnsson og Sigríður Stígsdóttir vinnuhjú á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi.
Kona: 18. september 1873, Lovísa, f. 4. maí 1843, d. 18. september 1924, Jónsdóttir, Gíslasonar í Höfn. Þau barnlaus. Fóstursynir þeirra voru Baldvin Jakobsson í Hælavík og Sigmundur Falsson skipasmiður á Ísafirði.
Baldvin var fyrst í húsmennsku í Höfn 1873-83. Bóndi í Reykjafirði á Ströndum og Bjarnanesi 1883-1900. Húsmaður á Horni 1900-1912. Húsmaður í Hælavík 1912-20. Þau hjón voru síðast heimilisföst á Búðum í Hlöðuvík og önduðust þar bæði.
Falur Jakobsson
Falur Jakobsson. F. 1. nóvember 1872. D. 12. desember 1936.
Foreldrar: Jakob Ebenesersson bóndi í Þaralátursfirði og kona hans Svanborg Ólafsdóttir.
Kona: 1894, Júdit, f. 27. apríl, d. 12. janúar 1906, Kristjánsdóttir, Guðmundssonar bónda á Steinólfsstöðum. Hún átti áður Sigmund Jónsson í Höfn.
Börn: Mildríður Sigríður Friðgerður Falsdóttir, f. 16. marz 1895, átti fyrr Jón Elíasson sjómann í Bolungarvík. Hann drukknaði eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni maður hennar er Vigfús Jóhannesson verkstjóri í Reykjavík. Jakob Kristinn Falsson, f. 8. maí 1897, bóndi í Kvíum og skipasmiður á Ísafirði, átti Kristínu Jónsdóttur úr Kvíum. Sigmundur Jón Falsson, f. 14. september 1899, skipasmiður á Ísafirði átti Rögnu Jónsdóttur. Gunnvör Rósa Falsdóttir, f. 26. maí 1902, ógift. Sigurgeir Falsson, f. 10. janúar 1906, ólst upp hjá Guðmundi Kristjánssyni á Horni, fiskkaupmaður í Bolungarvík og síðar skrifstofumaður í Reykjavík, ókvæntur.
Falur bjó í Barðsvík 1894-1906. Hann var húsmaður á Horni 1906-1907. Þá fluttist hann til Bolungarvíkur og bjó þar síðan. Hann var landskunnur skipasmiður og hinn mesti völundur. Mun enginn óiðnlærður skipasmiður hafa smíðað fleiri vélbáta en hann. Segja má að vélbátafloti Bolvíkinga á árunum 1910-35 hafi að langmestu leyti verið smíðaður af honum. Þótti lán fylgja bátum hans.
Stígur Haraldsson
Stígur Bæring Vagn Haraldsson. F. 13. september 1892. D. 8. september 1954.
Foreldrar: Haraldur Stígsson bóndi á Horni og kona hans Elín Bæringsdóttir.
Kona: 15. október 1916, Jóna Jóhannesdóttir, f. 1. sept. 1892.
Börn: Haraldur Stígsson, f. 27. apríl 1914, búsettur í Reykjavík, átti Elínu Guðmundsdóttur frá Horni, skáldmæltur. Bergmundur Stígsson, f. nóvember 1915, trésmíðameistari á Akranesi, kona Jóna Björg Guðmundsdóttir hjúkrunarkona. Sigrún Kristjana Stígsdóttir, f. 28. nóvember 1919, átti Hörð Davíðsson rafvirkja í Kópavogi. Arnór Aðalsteinn Stígsson, f. 14. janúar 1922, trésmíðameistari á Ísafirði, kvæntur Málfríði Halldórsdóttur. Rebekka Stígsdóttir, f. 29. júní 1923, kona Sturlu Halldórssonar skipstjóra á Ísafirði. Anna Stígsdóttir, f. 20. júní 1925. Helga Friðrika Stígsdóttir, f. 24. júlí 1926, kona Ragúels Hagalínssonar úr Grunnavík. Guðný Stígsdóttir, f. 24. ágúst 1928, kona Benedikts Davíðssonar frá Sellátrum í Tálknafirði. Stígur Stígsson (fæddur 1930), f. 28. apríl 1930, ókvæntur.
Stígur Haraldsson bjó á Horni 1916—1946. Hann fluttist þá til Ísafjarðar og bjó þar síðan. Dugnaðarmaður og drengur góður.
Frímann Haraldson
Frímann Sigmundur Jón Haraldsson. F.24. júní 1895. D. 27. apríl 1941.
Foreldrar: Haraldur Stígsson bóndi á Horni og kona hans Elín Bæringsdóttir.
Kona: 14. nóvember 1924, Hallfríður, f. 16. september 1894, Finnbogadóttir, Jónssonar í Bolungarvík á Ströndum.
Börn: Elín Hólmfríður Helga Frimansdóttir, f. 27. september 1918, átti Gunnar Guðjónsson vélstjóra, skildu. Guðmundur Óskar Frímannsson, f. 25. apríl 1927, d. 14. jan. 1968, kvæntur Elsu Guðjónsdóttur úr Hafnarfirði. Rebekka Sigurrós Frímannsdóttir, f. 29. apríl 1932, íþróttakennari.
Frímann var húsmaður í Bolungarvík á Ströndum 1921-22. Bóndi á Horni 1922-1936. Bóndi og vitavörður í Látravík 1936-41. Hann var smiður góður og athafnamaður.
Kristinn Grímsson
Kristinn Plató Grímsson. F. 16. október 1894. D. 27. maí 1966.
Foreldrar: Grímur Bjarnason húsmaður á Horni og kona hans Elísa Ólafsdóttir. Kristinn ólst upp á Horni hjá Elíasi Einarssyni.
Kona: 14. júní 1919, Guðný f. 1. september 1888, Halldórsdóttir, Þeófilussonar í N.Miðvík.
Börn: María Ólína Kristinsdóttir, f. 15. janúar 1920, gift Hreiðari Guðlaugssyni verkstjóra í Reykjavík. Guðrún Elín Kristinsdóttir, f. 5. nóvember 1923, átti Torfa Þ. Ólafsson prentara í Reykjavík. Kristinn Elías Magnús Kristinsson, f. 6. janúar 1933, yfirbókari í reykjavík, kvæntur Svanhildi Egilsdóttur.
Dóttir Guðnýjar áður en hún giftist, Guðveig Nielsen gift Gunnari Vilhjálmssyni.
Fósturbörn þeirra hjóna voru Guðmundur Snorri Júlíusson og Gróa Alexandersdóttir.
Kristinn bjó á Horni 1919-1946. Hann fluttist þá til Ísafjarðar og var þar búsettur allmörg ár, en fluttist síðar til Reykjavíkur og andaðist þar. Iðju- og dugnaðarmaður.
Með burtflutningi þeirra Stígs og Kristins má segja að byggð hafi verið lokið á Horni.
Jón Þorbjörnsson
Jón Þorbjörnsson. F. 22. apríl 1907.
Foreldrar: Þorbjörn Guðmundsson bóndi á Steig í Jökulfjörðum, síðar í Kjaransvík og á Steinólfsstöðum og kona hans Guðrún Jensdóttir.
Kona 12. febrúar 1931, Guðrún, f. 4. marz 1886, Samúelsdóttir, Guðmundssonar húsmanns í Höfn og síðar á Horni. Barnlaus.
Jón var húsmaður á Horni 1931-1941. Bjó í Hælavík 1941-43. Húsmaður á Hesteyri 1944-47, en fluttist þá til Súðavíkur.
Þorkell Sigmundsson
Jón Þorkell Sigmundsson. F. 11. janúar 1925.
Foreldrar: Sigmundur Guðnason bóndi í Hælavík og kona hans Bjargey Pétursdóttir.
Kona: Hulda Margrét, f. 6. janúar 1935, Eggertsdóttir úr Bolungarvík.
Þorkell var búsettur á Horni 1951-52, en fluttist þá til Bolungavíkur.
Heimildir
- ↑ DI IV, 145-146. bls.
- ↑ Bisk I, 374 bls.
- ↑ IslAnn, 387 bls.
- ↑ OlOecR 46 bls.